föstudagur, 5. apríl 2013

Hellisbúabrauð




Brauð er eitt af því sem ég hef saknað síðan ég byrjaði að borða mat án glúteins, mjólkur og eggja. Við keyptum okkur reyndar þurrkofn og ég hef bakað (þurrkað) mikið af frækexi en það er mjög ólíkt tilfinningunni sem fylgir því að borða nýbakað brauð. Svo þegar ég verð inn á milli leið á frækexinu, þá kaupi ég glútenlaust brauð sem fæst í Heilsuhúsinu á Glerártorgi á föstudögum. Það brauð er bakað í bakaríinu í Grímsbæ og er alveg ágætt en mér finnst samt eins og það fari ekki alveg nógu vel í mig, a.m.k. er ekki gott að borða mikið af því. 

Um daginn var ég svo að vafra á netinu og fann þessa líka flottu brauðuppskrift. Hún inniheldur ekkert hveiti, ekkert ger, engin egg og engar mjólkurvörur. Þetta var næstum því of gott til að geta verið satt ... Ég vistaði uppskriftina í skjal niðri í vinnu og hélt að ég hefði prentað hana út og tekið með heim, en svo þegar ég ætlaði að fara að baka þetta um páskana fann ég hana ekki. Og þar sem ég var ekki uppá mitt besta heilsufarslega séð (og gigtin hefur áhrif á heilastarfsemina) þá var ekki séns að ég gæti munað af hvaða bloggsíðu ég sótti uppskriftina. En þegar ég hresstist rifjaðist það upp fyrir mér að brauðið hefði verið kallað Hellisbúabrauð og þegar ég „gúgglaði“ það orð fann ég rétta bloggið. 

Svo á miðvikudagsmorguninn áður en ég fór í vinnuna skellti ég öllum innihaldsefnunum í silikon-brauðform (snilldarform sem fást í Pottum og prikum, en ekki hvað) og lét deigið bíða á meðan ég var í vinnunni. Bakaði svo brauðið þegar ég kom heim og JEJ það var svona líka bragðgott. Hm, ég reyndar átti ekki psyllum husk og sleppti því þar af leiðandi í þetta sinn. Psyllum husk (eða fiber husk) er stundum blandað í vatn og drukkið til að auðvelda meltinguna, en hér gegnir það hlutverki bindiefnis. Ég jók aðeins magnið af chia fræjum í staðinn en það dugði greinilega ekki alveg til, þannig að brauðið er ansi laust í sér. En þetta er „alvöru“ brauð og mjög bragðgott og náttúrulega afskaplega hollt, þannig að ég á pottþétt eftir að baka það oftar. 

Uppskriftina sótti ég hingað og unga konan sem birti hana á blogginu sínu hafði aftur á móti sótt sína uppskrift þangað. Það eru nú eiginlega flottari myndir af brauðinu á báðum þessum bloggum en ég gat náttúrulega ekki annað en birt mynd líka ;-)

2 ummæli:

HH sagði...

Gott brauð!
HH

HH sagði...

Gott brauð!