laugardagur, 6. apríl 2013

20 mínútna ljósmynda-úthald

Ljósmynda-úthald já ... hehe mér datt ekki í hug neitt íslenskt orð yfir enska orðið „session“ en sem sagt ég fór í ljósmyndaferð í morgun og ók út að brúnni yfir Hörgá sem tók rúmar 10 mínútur. Þar stoppaði ég, fór út úr bílnum og klöngraðist niður að ánni, og staldraði við í heilar 20 mínútur og tók myndir. Að þessum tuttugu mínútum liðnum var öll orkan búin og ég er ekki að grínast, ég staulaðist með harmkvælum aftur upp á veg og inn í bíl. Verkjaði í allan skrokkinn, með hjartslátt og bara alveg búin á því.

Það var reyndar alveg hægt að sjá þetta fyrir, því  ég var svo þreytt eftir vinnu í gær en gerði þau reginmistök að fara samt á stúfana og kíkja í Benetton og Levis búðina, bara svona til að tékka á því hvort ég sæi eitthvað eigulegt, enda 20% afsláttur þar núna um helgina. Í báðum verslunum var tónlistin að æra mig en ég fletti engu að síður samviskusamlega í gegnum allar fataslárnar - bara til að komast að því að það er ótrúlega asnalegt snið á flest öllum flíkunum frá Benetton núna. Vítt pokasnið sem klæðir mig engan veginn. Eftir þetta fór ég svo í Bónus en stoppaði bara stutt þar. Var nánast veik af þreytu í kringum kvöldmatarleytið og þó ég hafi sofið svefni hinna réttlátu í alla nótt þá hafði ég ekki verið nema ca 30 mínútur á fótum í morgun þegar þreytan ætlaði að yfirbuga mig enn á ný.

En eins og pabbi sagði forðum, það er til ráð við öllu nema ráðaleysi, svo ég fékk mér espresso eftir morgunmatinn (vitandi að það myndi hressa mig við um stundarsakir a.m.k.). Síðan skellti Valur sér á skíði en mér fannst að ég yrði nú bara að koma mér eitthvað út úr húsi þar sem ég var jú að fara að vinna kl. eitt. Þannig að ég greip myndavélina, klæddi mig í vetrargallann og brunaði af stað á bílnum um tíuleytið.

Við Hörgá átti ég ca. 15 mínútur í góðum gír með sjálfri mér, þar sem mér tókst að gleyma stund og stað, sorg og sút - og bara var upptekin af því að hugsa um sjónarhorn, myndefni, ljósop og hraða. En fyrr en varði voru áhrifin af kaffinu gufuð upp úr kerfinu og raunveruleikinn skall á mér. Blóðsykurfall og lamandi þreyta. Ég dreif mig aftur heim og þar tók tölvan við að stríða mér og fraus þrisvar sinnum á meðan ég var að reyna að koma myndunum inn í hana. Það tókst þó fyrir rest og afrakstur myndatökunnar má sjá hér.










Eftir að hafa farið í sturtu og borðað afgang af kjötbollum dreif ég mig svo í vinnuna. Það var nú frekar rólegt framan af og ég skrapp í Mössubúð að skoða skó (líka 20% afsláttur þar núna um helgina) án þess þó að kaupa neitt, og fór svo og keypti mér UNA andlitskrem í apótekinu  .... haldið ykkur .... með 20% afslætti, en leyfði svo Köru að fara heim ca. korter yfir þrjú. Það var áfram frekar rólegt til rúmlega fjögur en samt alltaf eitthvað fólk á ferðinni. En svo rétt um hálf fimm kom smá sprengja og þá voru allt í einu nokkrir í biðröð á kassanum hjá mér, posinn fraus ítrekað, já og ég þurfti að pakka inn gjöf - allt á sama tíma.

Þetta bjargaðist þó allt en það var óskaplega föl og þreytt kona sem kom heim úr vinnunni í dag. Heima beið Valur með alveg frábæran mat og hvítvín með. Þetta var ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu.
Mæli svo sannarlega með þessum rétti, hann var ótrúlega gómsætur en Valur notaði reyndar saltfisk-hnakka og það kom mjög vel út.

Og nú er ekkert eftir nema henda sér í sjónvarpssófann og taka lífinu með ró það sem eftir lifir kvölds.

6 ummæli:

HH sagði...

Breytti aðeins uppskriftinni, kókósolía, basillauf+sellerí, rauðlaukur og tamarínsósa, auk léttsaltaðs þorskhnakka, sleppti venjulegum kartöflum, átti engar nægilega góðar. Hvernig yrðu myndirnar ef þú værir "í lagi"? HH

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Já auðvitað breytti Halur uppskriftinni - eins og allir alvöru kokkar gera ;)

Elín Kjartansdóttir sagði...

Verulega flottar myndir.

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Takk Elín, gaman að heyra að þér líst vel á þær :)

Anna Sæmundsdottir sagði...

Minnir dálítið á þessa uppskrift, sem er "gegt" góð. Við höfum yfirleitt notað þorsk/ýsu í staðinn...

http://dinmat.no/Kamskjell-med-sotpotetpure-og-soyasmor

ps ég spyr eins og HH; hvernig yrðu myndirnar ef þú værir frísk ;-) eins skemmtilegar eins og þær eru núna!!!

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Já þessi uppskrift lítur líka mjög vel út :) Og takk fyrir komplimentið varðandi myndirnar, það er mesta furða hvað kemur út úr þessu hjá mér ... hehe ;)
P.S. Þú átt að geta loggað þig inn í gegnum facebook til að kommentera, svona ef það er eitthvað þægilegra.