fimmtudagur, 25. apríl 2013

Gleðilegt sumar :-)
Já þrátt fyrir að vera snjóamynd, þá er eiginlega sumarlegra um að litast á þessari ljósmynd, heldur en fyrir utan gluggann hjá mér í augnablikinu. Það bara kyngir niður snjó, enn og aftur.

Andri kom heim í gær og stoppar einhverja daga. Það kom nú reyndar ekki til af góðu, því hann er að fara jarðarför, en samt notalegt að sjá aðeins framan í hann. Það er alltaf vellíðunartilfinning sem fylgir því að hitta börnin sín. Svo styttist í próf hjá honum, fyrst skólapróf og svo flugmálastjórnarpróf. Sem sagt nóg að gera hjá honum á næstunni.

Ég setti persónulegt met í vikunni. Fór og hitti vinkonur mínar á kaffihúsi í fyrradag (við hittumst síðast í lok nóvember svo það var nú kominn tími til) og í gærdag hittist svo kvennaklúbburinn minn á Icelandair hotel. Það var reyndar of mikið af því góða fyrir mig að standa í svona „útstáelsi“ tvo daga í röð. Ég var eiginlega búin með orkukvótann minn eftir klukkutíma í bæði skiptin en hélt út í tvo tíma, af því ég er svo leið á því að rjúka alltaf í burtu eftir ca. 1,5 tíma eins og t.d. á fundum í ljósmyndaklúbbnum. En það sem ég græddi á því í gær var bara að verða yfir mig þreytt, enda var mikið skvaldur og hávaði seinni klukkutímann á hótelinu.

En já það er samt gaman að „þykjast“ stundum vera frísk og sitja eins og venjuleg manneskja innan um annað fólk.

Afleiðingin var hins vegar sú að ég gat ekki sofnað í gærkvöldi af því mér leið bara of illa. Verkjaði í allan skrokkinn, og heilinn á mér var í yfirvinnu eftir allt áreitið, þannig að ég náði engan veginn að slaka á. Ég hef sennilega ekki verið sofnuð fyrr en um tvöleytið en vaknaði svo klukkan fjögur og vakti í nærri klukkutíma. Meira ruglið á frúnni!

Í gærmorgun gerðust hins vegar þau undur og stórmerki að ég fór í sund!! Var farin að sakna þess all verulega að hitta ekki fólkið sem maður hittir alla jafna í morgunsundinu. Ein eldri kona hrópaði næstum upp yfir sig þegar hún sá mig, var svo hissa á því hvað var langt síðan ég kom síðast. Hélt að ég hefði kannski fengið aftur brjósklos, en sem betur fer var það nú ekki raunin.

Í sundinu hitti ég líka konu sem var með mér á rithöfunda námskeiðinu og hópurinn er búinn að ákveða að halda áfram að hittast og reyna hvert og eitt að skrifa í 15 mínútur á dag. Það er ágætlega raunhæft markmið finnst mér, að minnsta kosti svona til að byrja með. Það er bara þetta með að standa við það ...

Engin ummæli: