sunnudagur, 7. apríl 2013

Fögur fyrirheitÉg er eins og alkarnir sem ætla alltaf að hætta að drekka daginn eftir síðasta fyllerí. Í hvert sinn sem ég hef vælt hér á blogginu um þreytu og vanlíðan, þá fæ ég heljarinnar samviskubit yfir því að geta ekki haldið aftur af mér, og heiti því að gera þetta „aldrei aftur“. Úff púff, já þetta er ekki einfalt líf ;-)

Það liggur reyndar í hlutarins eðli að persónulegt blogg eins og mitt er alltaf sjálfhverft að miklu leyti, öfugt við t.d. blogg sem fjalla um afmörkuð málefni s.s. hönnun, matargerð, ljósmyndun eða stjórnmál svo dæmi séu nefnd. Svo verður að segjast eins og er að frá því um áramótin 2008-2009 hefur síþreytan haft það mikil áhrif á mitt daglega líf að ég get ekki látið eins og hún sé ekki þarna. Stundum finnst mér jafnvel eins og ég hafi breytt um persónuleika á þessu tímabili, eins og gamla Guðný sé horfin og einhver manneskja komin í hennar stað sem ég hef ekki náð að kynnast til fulls ennþá.

Ég er náttúrulega hvorki fyrsta né síðasta manneskjan til að blogga um eigin sjúkdóm. Hjá mörgum verður þetta leið til þess að hafa samskipti við fólk í svipuðum sporum, já og kannski samskipti við umheiminn yfirleitt, því sumt fólk er jú bundið heima. Það er náttúrulega ekki tilfellið hvað mig snertir, sem betur fer, og er ég óskaplega þakklát fyrir að hafa þó þá heilsu sem ég hef.

Málið er bara að þegar þreytan verður svona ofboðsleg þá gegnsýrir hún alla mína hugsun og allt mitt líf, og lítið atriði eins og að mæta í vinnuna á laugardegi verður að risavöxnu vandamáli. Samt langar mig alls ekki að hætta að vinna.

Jamm og jæja, það eru endalausar spurningar í höfðinu á mér en fátt um svör.

Ég á ábyggilega eftir að missa mig oftar í að kvarta og kveina hér á blogginu en mig langar að leggja meiri áherslu á eitthvað uppbyggilegt. Enda á ég auðvelt með að vera bjartsýn, þá daga sem ég er ekki í andarslitrunum af þreytu.
4 ummæli:

HH sagði...

Það þarf bæði styrk og áræði að skrifa um eigin mein, það er fáum gefið; sumt er hér hefir skrifað verið í gegnum tíðina er áreiðanlega býsna gagnlegt, einnig hinum er teljast frískari.

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Takk Halur minn kær.

Fríða sagði...

Þetta er þitt blogg og þú átt að skrifa nákvæmlega það sem þér sýnist á þitt blogg. Það er það skemmtilega við persónulegu bloggin, að fólk er það sjálft.

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Takk Fríða fyrir gott innlegg :) Auðvitað er þetta mitt blogg og ég sem ræð því hvað birtist hér. Og já það er víst óhætt að segja að ég sé "ég sjálf" á þessum vettvangi, en stundum vildi ég kannski óska að ég væri öðruvísi (eins vitlaust og það er nú).