þriðjudagur, 23. apríl 2013

Snjór, snjór, snjór ...


Já það er ekkert lát á vetrinum hér norðan heiða og gott ef þessi langi vetur er ekki að verða helsta umræðuefni fólks, bæði í raunheimum og netheimum. Náttúran lætur samt glepjast af tímatalinu að einhverju leyti. Farfuglar tínast óðum til landsins þó fæða sé af skornum skammti, t.d. fyrir gæsirnar. Sumar trjátegundir eru búnar að mynda brum, eins og þessi litli víðir sem sjá má á myndinni. Þrestirnir syngja sinn fagra söng þrátt fyrir kulda og vosbúð.

En já ferðin austur gekk eiginlega vonum framar. Það reyndar byrjaði ekki vel því mamma Vals fékk fyrir hjartað á föstudagskvöldinu og við biðum því átekta og fórum ekki austur fyrr en daginn eftir. Bæði hálf illa sofin þá, enda stressuð yfir þessum fréttum af Gunnu. Þegar við komum austur fór Valur strax á fullt í ákveðið prógramm sem var í gangi. Ég ætlaði að leggja mig en náði ekki að sofna. Svo var kennsla í endurlífgun og ég ákvað að taka þátt í því, enda ein 30 ár síðan ég fór á námskeið í skyndihjálp. Það var gott að rifja upp hjartahnoð (hnoða 30 sinnum - blása tvisvar) og svo var líka kennsla í því hvað á að gera ef aðskotahlutur er í hálsi barna og fullorðinna. Fyrir utan þetta með að banka í bakið og beita Heimlich taki, þá var ég frekar græn í því. Ef t.d. það dugar ekki að banka 5 sinnum í bakið á ungabarni þá á að byrja blástur og hjartahnoð. Það vissi ég ekki.

Eftir síðbúinn hádegismat var áframhaldandi prógramm fyrir starfsfólkið en ég fór inná herbergi og lagði mig. Tókst meira að segja að sofna aðeins fyrir rest og var voða fegin því. Svo var útivera og sumir fóru á gönguskíði en ég rölti bara í rólegheitum um næsta nágrenni með myndavélina. Við skelltum okkur svo í smástund í heitan pott, áður en hafist var handa við eldamennsku. Ég var nú reyndar stikkfrí (eða þóttist vera það) hvað eldamennskuna snertir. Maturinn var hinn ljúffengasti og síðan tóku við skemmtiatriði, söngur og gítarundirspil frameftir nóttu. Við gamla settið vöktum meira að segja til klukkan tvö og það þótti mér nú bara nokkuð gott ;-)

Á sunnudeginum vorum við Valur tilbúin til brottfarar um hádegisbilið en þar sem veðrið var alveg einstaklega fallegt ákváðum við að keyra lengri leiðina heim, eða með viðkomu í Mývatnssveit. Þar voru fáir á ferli en þó mátti sjá einstaka ferðafólk. Við keyptum okkur kjötsúpu í Gamla bænum og satt best að segja mæli ég nú ekkert sérstaklega með þeirri kjötsúpu. Gengum svo niður að vatninu sem var alveg spegilslétt og fallega blátt á litinn enda var heiður himinn og blái liturinn endurkastaðist í vatninu. Eins og sjá má t.d. á þessari mynd hér.


Við stoppuðum ekkert óskaplega lengi í Mývatnssveit en það var samt gaman að hafa komið þangað. Svo ókum við beinustu leið heim og vorum komin heim um þrjúleytið. Það var fínt því þá gat frú gamla þreytta farið beint í sófann (eftir kaffið) og steinsofið þar í eina tvo tíma að minnsta kosti ;-)

Engin ummæli: