fimmtudagur, 11. apríl 2013

Persónuleg orkustjórnun (personal energy management)

Fyrir ekki svo löngu sótti ég mér bók um tímastjórnun á netið. Sem er kannski frekar fyndið í ljósi þess að ég á ekki í neinum vandræðum með að stýra tíma mínum (aðallega vegna þess að ég geri fátt annað en vinna og vera heima hjá mér, en það er nú önnur saga). Nema hvað, í bókinni var talað um hugtakið „orkustjórnun“ og sagt að þetta væri nauðsynlegur þáttur í því að ná hámarks-frammistöðu. Þú þarft að hafa orku til að geta unnið vinnuna þína og nú kemur rúsínan í pylsuendanum: Orkan okkar er ekki jöfn yfir daginn heldur förum við í gegnum mismunandi fasa, svona eins og við förum í gegnum mismunandi stig svefns aftur og aftur yfir nóttina.

Samkvæmt þessum fræðum þá höfum við fulla orku í ca. 90-120 mínútur í senn en þá fer orkan að dala. Við könnumst án efa öll við það að hafa verið niðursokkin í einhverja vinnu en svo skyndilega er orkan búin og við skellum í okkur kaffi eða súkkulaðimola til að fá orku til að halda áfram. Málið er bara að það er vitlaus aðferðafræði. Í stað þess að þrjóskast við og halda áfram þá ættum við að taka okkur smá pásu frá verkefninu sem við erum að vinna. Til dæmis með því að standa upp og teygja úr okkur, gera öndunaræfingar, fá okkur vatn að drekka. Svo getum við líka unnið í smá stund að verkefnum sem eru ekki jafn krefjandi, á meðan við erum að fara í gegnum orku-niðursveifluna. Með því að taka þessa smá hvíld á 90-120 mín. fresti eykst afkastageta okkar.

Þess ber að geta að hvert okkar er með sitt eigið orku-línurit og því þarf hver og einn að finna út hvenær hann/hún er með mesta orku og tímasetja vinnuna sína þannig að sá tími sé notaður í þau verkefni sem eru mest krefjandi.

Ef einhvern langar að lesa meira um þetta efni þá er hér grein úr Harward Business Review sem heitir „Manage Your Energy, Not Your Time“ eftir Tony Schwartz og Catherine McCarthy.
Í greininni er fjallað um fjórar tegundir orku: Líkamlega, tilfinningalega, hugræna og andlega orku og hvernig hægt er að vinna í því að fá aukna orku á öllum þessum sviðum.
Tony hefur skrifað tvær bækur og hægt er að fræðast meira um hann og hans hugmyndir á vefsíðunni theenergyproject.com Þar eru margar flottar greinar sem vert er að lesa.

Á vefsíðunni cravetime.com er umfjöllun um sama efni - á svipuðum nótum en dregið saman í styttri grein. Myndin hér fyrir neðan er fengin að láni þaðan.Ástæða þess að mér finnst þetta svona spennandi efni, er minn stöðugi (og að því er virðist óendanlegi) skortur á orku. Ég áttaði mig reyndar á því við lestur greinarinnar að í stað þess að hvíla mig í smá stund þegar ég er þreytt í vinnunni, þá böðlast ég yfirleitt áfram og fæ mér kaffi og/eða kolvetni til að geta haldið dampi. Ef ég tæki mér í staðinn stutta pásu frá því sem ég er að gera, stæði upp og hreyfði mig aðeins (ef ég sit) eða sest og hvíli mig aðeins (þegar ég er uppistandandi) þá kannski myndi ég ekki keyra jafn harkalega á þreytuvegginn og mér hættir til að gera.

Í dag ákvað ég að prófa þessa nýju taktík. Það byrjaði reyndar ekki vel, því eftir aðeins hálftíma í vinnunni var ég orðin dauðþreytt (vaknaði þreytt í morgun og þó gönguferð, morgunmatur og sturta næðu að hressa mig tímabundið hrundi ég fljótlega eftir að ég kom í vinnuna). En já ég reyndi að hvíla mig með reglulegu millibili í dag og ekki missa mig eins í að „taka upp vörur á fullu, þar til allt er komið uppúr kössunum “. Það gekk þokkalega og þó ég væri lúin í lok vinnudagsins þá var ég ekki úrvinda. Þarf að halda áfram að þróa þessa aðferðafræði og finna leið sem hentar mér.

Svo þarf ég að finna fleiri aðferðir í tengslum við orkustjórnun :-)

Engin ummæli: