sunnudagur, 12. júní 2011

Ég er ekki að fatta að það sé 12. júní í dag

Skil hreinlega ekki hvernig tíminn flýgur áfram! Nú styttist heldur betur í sumarfrí hjá mér. Sunna er í fríi þessa viku og svo fer ég í frí í næstu viku. Markmiðið er að vera í fríi í þrjár vikur (sjúkranuddarinn minn segir reyndar að ég þyrfti helst að fara í 3ja mánaða frí - en það er nú ekki beint í boði ;) Valur er í fimm vikna fríi, svo það er nú bara mjög gott ná þremur vikum saman. Við erum reyndar ekki búin að skipuleggja neinar ferðir, það ræðst svo mikið af því hvernig ástandið á frúnni verður. En eitthvað reynum við nú að fara, það er alveg pottþétt. Svo kemur Hrefna heim í lok júní og stoppar hér á landi í rúmar tvær vikur. Það verður gaman að fá hana heim og kannski hún vilji skreppa í einhverja smá ferð með gamla settinu, það er aldrei að vita. Ísak er kominn á þann aldur að hann nennir ekki lengur að fara með okkur svona innanlands og Andri er að vinna á fullu í sumar.

Nú fór ég allt í einu að spá í það, að kannski væri ég betur að skilja að það sé kominn miður júní, ef veðrið væri betra. Hér hefur jú ekki beint verið sumarveður undanfarið, ef gærdagurinn er undanskilinn. Framan af degi var ótrúlega gott veður, sól og logn, og við sátum úti á palli í hádeginu og borðuðum með Guðjóni bróður Vals, Eddu konunni hans og syni og tengdadóttur þeirra. Þau gistu hjá okkur eina nótt en eru núna farin í veiði í Laxárdal. Valur fer reyndar líka í veiði á morgun, en hann fer í sína elskuðu Mývatnssveit.

Ég gerði aðra tilraun í gær til að taka myndir fyrir sýningu Álfkvenna. Fékk lánaða Sánkti Pálu hjá Dóru á móti og tók myndir af vökvunarkönnunni hennar Ömmu með blóminu. Finnst það ekki heldur vera að gera sig og er að missa þolinmæðina í þessu dæmi öllu saman. Jamm, þolinmæði hefur víst aldrei verið mín sterka hlið... En hér koma þær myndir sem ég hef úr að velja:






Ef einhver hefur hina minnstu skoðun á þessu máli þá má sá hinn sami gjarnan tjá sig - án nokkurra skuldbindinga af minni hálfu ;-)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Neðsta myndin finnst mér mest sjarmerandi. Það hefur kannski með litatónana að gera. Þetta aðeins gula (eða ekki bara í gráum, hvítum og svörtum tónum) Minnir mig líka á gulnuðu ljósmyndirnar frá í gamla daga(Þessar gömlu sem mamma á). En skemmtilegar allar saman. Svo man ég svo vel eftir könnunni :-)
Anna systir

Guðný Pálína sagði...

Takk Anna mín fyrir að segja álit þitt. Það er líka rétt að myndirnar á sýningunni eiga að vera brúntóna (eða í sepia) og ég valdi fyrst alltaf sepia möguleikann í myndvinnsluforritinu, en þá urðu þær eiginlega bara svarthvítar. Þannig að svo fann ég annað sem hét "antique light" eða eitthvað í þá áttina og það er þessi síðasta brúntóna mynd. Svo er þá bara málið hvort ég á að hafa blómið með eða ekki. Finnst það kannski verða svolítið "crowded" á myndinni. En já hm, ég finn eitthvað út úr þessu. Svo er heldur aldrei að marka að sjá myndir á netinu, miðað við útprentaðar.