mánudagur, 13. júní 2011

Óheppni

Valur fór í veiði í dag og ætlaði að vera fram á miðvikudag. Því miður var hann svo óheppinn að slíta vöðva í aftanverðu læri þegar hann hafði einungis veitt í stutta stund, svo hann er kominn heim aftur. Sem betur fer hafði hann þó náð að setja í nokkra fiska þegar þetta gerðist svo ferðin var ekki alveg ónýt að hans mati.

Það hitti þannig á að ég hafði verið búin að elda grænmetissúpu (handa sjálfri mér, enda ekki uppáhaldsmaturinn hans Ísaks og Andri að vinna), þannig að aldrei þessu vant gat ég gefið bóndanum mat þegar hann kom heim. Það var smá sárabót fyrir sjálfa mig að geta boðið uppá súpu, en mér fannst svo hræðilega leiðinlegt hans vegna að lenda í þessu.

Ég fór á hjóli í Hrísalund í dag en hef að öðru leyti haldið mest kyrru fyrir. Fór ekki á Álfkonufund, þar sem verið var að ræða sýninguna sem á víst að setja upp þann 16. ef ég skil rétt. Ég ætla að hafa mynd þar sem kannan er eingöngu og hafa hana stærð A5, í ramma sem er ca. A4 á stærð en þó ekki alveg. Ramminn er nefnilega svo gamall að hann passar ekki inní staðlaðar stærðir nútímans. Því miður veit ég ekkert meira um þennan ramma. Hann er ekki með gleri og er að losna upp á hornunm, svo ég þarf að líma þau. Ég er að spá í að prófa að prenta myndina á mattan pappír og sleppa því að hafa gler. Þetta verður svolítið annar stíll heldur en síðast og markmiðið er jú að formið hæfi myndefninu og tilefninu. Svo má alltaf deila um smekkinn og það hversu vel tekst til.

Engin ummæli: