Við tókum tvo daga í ferðina vestur. Lögðum af stað á þriðjudagskvöldi og gistum að Laugum í Sælingsdal. Daginn eftir héldum við áfram en í miklum rólegheitum og stoppuðum nokkuð lengi bæði í Flókalundi og á Hrafnseyri, auk þess að stoppa til að taka myndir þegar sá gállinn var á okkur. Við skoðuðum nýju sýninguna um Jón Sigurðsson á Hrafnseyri og er alveg hægt að mæla með henni.
Daginn eftir fórum við í túristaskoðunarferð í eyjuna Vigur á Ísafjarðardjúpi og þangað var virkilega gaman að koma. Mikið fuglalíf og við sáum meira að segja tvo seli flatmaga þarna fyrir utan. Það er líka mikið æðarvarp og gaman að sjá endurnar vagga um þarna í túninu. Síðast en ekki síst var boðið uppá kaffi og heimabakað meðlæti í lok skoðunarferðarinnar og veitingarnar voru sko ekkert slor.
Frekari ferðasaga bíður betri tíma.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli