En það átti reyndar ekki að verða umfjöllunarefni þessa pistils, heldur sú staðreynd að ég nenni engu í dag. Ég hef sofið illa tvær síðustu nætur + að ég var á fullu í allan gærdag => núna er ég eins og drusla og bara svoooo löt. Samt svaf ég til níu í morgun, svo það hefði nú átt að vera nóg. En á þessum tveimur og hálfum tíma sem ég hef verið vakandi hef ég ekki gert neitt nema fá mér að borða, lesa blöðin, taka úr uppþvottavélinni, hanga í tölvunni og setja eina skyrtu í þvottavél.
Það sem ég þyrfti að gera er að fara með Ísak í bæinn að kaupa skó á hann, en þeir gömlu hafa dugað í heilt ár að minnsta kosti, en eru nú algjörlega búnir. Það hefur ekki gengið vel að finna tíma í bæjarferð sem hentar drengnum og var pabbi hans margoft búinn að bjóðast til að fara með honum, en aldrei passaði það. Ég þyrfti líka að fara í gestaherbergið, setja lak á rúmið og þurrka af ryk, því við eigum von á næturgestum. Sem er mjög ánægjulegt, svo það sé nú á hreinu. Já og svo þyrfti ég að fara í sturtu og upphugsa einhvern fatnað fyrir vinnuna í dag. Ég bara skil ekki hvað mér finnst orðið erfitt að ákveða í hvaða fötum ég á að vera á daginn. Það er ekki eins og það skipti meginmáli, tja svona fyrir utan það að ég vil líta þokkalega snyrtilega út. En ég dett stundum í það að prófa alls kyns samsetningar og finnast allt ómögulegt - og svo er ég allt í einu að verða alltof sein í vinnuna, bara af því ég er að eyða tíma í þessa vitleysu.
Svo ég tali nú um eitthvað skemmtilegra, þá hittumst við Álfkonur (ljósmyndaklúbburinn minn) í Lystigarðinum í gær. Erindið var að taka mynd af hópnum sem ætlar að vera með á næstu ljósmyndasýningu sem opnar eftir 8 daga. Það var rigning og mér varð skítkalt þrátt fyrir að vera í lopapeysu, en það var samt svo gaman hjá okkur. Það var tekinn urmull af myndum en samt gekk nú illa að finna mynd sem var góð af öllum. Svo voru líka teknar sprell myndir. Hér er "opinbera" útgáfan :-)
og hér er smá sprell
Ef smellt er á myndirnar þá opnast þær stærri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli