sunnudagur, 28. mars 2010

Sunnudagur enn og aftur

Tíminn flýgur og helgin brátt á enda. Ekki er nú hægt að segja að hún hafi reynst mér notadrjúg, a.m.k. ekki enn sem komið er. Ég var sem sagt andvaka alla aðfaranótt laugardagsins og sofnaði ekki fyrr en rúmlega sex í gærmorgun. Þá svaf ég í rúma fjóra tíma og var nú frekar lágt á mér risið í allan gærdag. Samt fór ég í vinnuna til að klára að skrá inn þessar vörur en var nú sem betur fer snögg að því. Eftir kaffi steinsofnaði ég svo og svaf til hálf sjö þegar Valur kallaði á mig í matinn. Við horfðum á mynd með Ísaki í gærkvöldi en svo steinsvaf ég í alla nótt og fór ekki á fætur fyrr en um ellefuleytið. Ennþá dauðþreytt... En ég hresstist nú aðeins við kaffilatté með bóndanum. Og hresstist ennþá meira þegar Ísak tók það upp hjá sjálfum sér að laga til í herberginu sínu. Það gladdi mig ósegjanlega mikið því tiltekt er ekki nokkuð sem mínir synir finna venjulega uppá sjálfir. Andri reyndar átti stórleik á því sviði í haust einhvern tímann, en það hefur víst ekki gerst síðan. Og það að mamman sé að biðja um tiltekt leiðir yfirleitt til öfugs árangurs.

Annars vorum við Valur að tala um það áðan að þetta síþreytukast sem ég er í núna er með þeim lengstu sem við munum eftir, en það hefur staðið frá því í byrjun janúar, bráðum í þrjá mánuði. Á þessum tíma hafa komið 3 eða í mesta lagi 4 dagar þar sem ég hef verið með nokkuð eðlilega orku. Mér finnst nú eiginlega nóg komið, svo ekki sé meira sagt!

Svo dettur maður niður í að lesa um þetta ástand á netinu og þar eru misgáfulegar upplýsingar eins og gengur. Ég var nú reyndar búin að skrifa heilan pistil um þetta mál um daginn og birti hann hér en tók svo aftur í burtu. Finnst alltaf eins og ég eigi ekki að íþyngja öðrum með þessum pælingum öllum - en á sama tíma þá finnst mér líka gott að tjá mig um þetta hér því þá þarf enginn að finna sig knúinn til að svara eða tjá sig um málið. Það er líka svo merkilegt með það að þó læknavísindin geti í fæstum tilvikum læknað þetta ástand, af því sjaldnast er vitað af hverju það stafar, þá er með ótal rannsóknum búið að sýna fram á að þetta er "raunverulegt" og ekki bara eitthvað sálrænt. Það er að segja, það eru alls kyns mælanlegar breytingar á starfsemi líkamans sem ekki lagast við meðferð hjá geðlækni.

Nóg um það í bili. Ég verð samt að vara fólk við... ég á örugglega eftir að tjá mig meira um þetta vandamál á þessum vettvangi og þá er bara eitt ráð fyrir þá sem þola ekki svona veikindatal - að sleppa því að lesa ;)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

þakka þér fyrir að skrifa umvefjagiktina, ég er í sömu stöðu og þú en dálítið eldri. Þetta fór á fulla ferð fyrir 9 árum þegar ég gekk í gegnum mjög erfitt tímabil og það er ekkert sem getur fengið mig til að fá eins mikið sammviskubit og þetta og spurningar eins og afhverju get ég ekki verið eins og annað fólk suða stundum í hausnum á mér :)og eins og þú nenni ég ekki að tala um mína líðan og finnst ég vera á stundum ósköp mikill kramaraumingi. svo takk fyrir skrifin kv.gua

Guðný sagði...

Takk fyrir þetta gua, gott að einhver kann að meta svona "leiðinleg" blogg ;) Leiðinlegt að heyra að þú skulir líka vera í þessum sporum, en því miður er þetta alltof algengt.