mánudagur, 29. mars 2010

Lækkaður standard

Eitt af því sem fylgir síþreytuástandi er stórlega minnkuð geta til að sinna heimilisstörfum. Í og með vegna þess að maður setur á oddinn að geta fúnkerað í vinnunni og reyna að halda andlitinu útávið eins og unnt er. En heimavið þýðir það að maður þarf að lækka kröfurnar varðandi það hversu oft ákveðin verk eru unnin - og það sem verra er - sætta sig við að horfa á rykrottur safnast saman í hornum og fleiri sýnileg merki þessa ástands.

Valur eldar að vísu alltaf matinn og dregur þannig verulega úr álaginu á mig. Það eina sem ég reyni pottþétt að gera á hverjum degi, er að taka úr uppþvottavélinni og laga til í eldhúsinu áður en ég fer í vinnuna, þannig að Valur geti gengið í hreint eldhús og þurfi ekki að byrja á að laga þar til svo hægt sé að elda. Þetta eina verk tekur mjög mislangan tíma eftir því hvernig ástandið er á frúnni hverju sinni. Einstaka sinnum hefur það komið fyrir að ef ég hef farið í ræktina eða sund fyrir vinnu þá hef ég ekki haft orku í að taka úr uppþvottavélinni, en það er sem betur fer ekki oft. En ekki næ ég alltaf að gera þetta eins vel og ég vildi. Nú þyrfti t.d. að þrífa eldavélina betur og sömuleiðis flísarnar á milli bekkjarins og skápanna í eldhúsinnréttingunni - en ég ætla að skilja þetta eftir svo ég klári mig ekki alveg.

Þvottinn sé ég líka um og stundum líður lengra á milli þvotta en æskilegt er. Ráðið við því er að auka magnið af sokkum, nærbuxum og íþróttafötum og bolum hjá karlpeningnum á heimlinu. Ef meira er til skiptir minna máli þó sjaldnar sé þvegið ;)

Jú, svo sé ég líka um að halda kattaklósettinu hreinu, best að reyna nú að muna eftir þessum fáu hlutum sem maður gerir... hehe. Og kaupa kattamat og kattasand. Annað heimilisfólk tekur þátt í að gefa dýrunum að borða og drekka eftir þörfum.

Og auðvitað geri ég nú ýmislegt fleira í heildina séð. Laga til, til dæmis. Og þegar ég á góða daga fer ég á fullt í að gera allt mögulegt sem beðið hefur betri tíma. Svo sem að laga til, fara með dót í endurvinnsluna o.s.frv.

En það sem gengur verst hjá mér er að horfa sanngjörnum augum á sjálfa mig og vera þakklát fyrir það sem ég get þó gert. Sjálfsmyndin fer í mola og niðurrifsseggurinn innra með mér fer á fullt. Hann er voða duglegur að benda mér á hvað ég er ómöguleg á allan hátt. Og það er hægara sagt en gert að taka ekki mark á honum.

En nú er nóg komið af "kellingabloggi" eins og minn heittelskaði kallar svona blogg (án þess að meina nokkuð slæmt með því). Ég er að fara að vinna á eftir og á ennþá eftir að fara í sturtu og græja mig. Þyrfti eiginlega að fá mér að borða líka. Já og svo væri örugglega alveg dásamlegt að labba í vinnuna. En hvort ég næ þessu öllu á þeim tíma sem ég hef... tja það er önnur saga :)

Engin ummæli: