miðvikudagur, 17. mars 2010

Ísak orðinn 15 ára, hvorki meira né minna


Ísak 15 years, originally uploaded by Guðný Pálína.

Hann átti reyndar afmæli á sunnudaginn var, svo það er nú frekar seint í rassinn gripið að blogga um það núna, en seint er betra en aldrei...

Það var því miður ekki mikið gert til að fagna afmælinu hans. Hann sagðist sjálfur ekki vilja halda afmælisveislu, en það gæti nú reyndar átt eftir að breytast. En við keyptum köku í kaffinu og fórum út að borða á Greifann um kvöldið, svo eitthvað var nú gert í tilefni dagsins.

Á laugardagskvöldinu fórum við Valur á árshátíð hjá Læknastofum Akureyrar. Allir áttu að mæta í grímubúningum og var það búið að valda mér svolitlu stressi, svo ekki sé meira sagt. En það lukkaðist að lokum að finna búninga á okkur bæði og árshátíðin var hin skemmtilegasta. Allir í svo góðu skapi og ótrúlega flottir í búningunum sínum.

Framkvæmdirnar í kjallaranum ganga vel. Það er búið að leggja hita í gólfið + steypa og flota. Svo er það rafmagnið og að klæða veggina og loftið og þá fer þetta að verða tilbúið. Valur er farinn að huga að húsgögnum þarna inn og stendur valið m.a. á milli þess að vera með lazy boy stóla eða tveggja sæta sófa. Það þarf náttúrulega að fara vel um mann þegar hlustað er á tónlist :)

Ísak tók leiklist sem val í skólanum og æfir nú á fullu fyrir árshátíð skólans sem fram fer núna á fimmtudag og föstudag. Þetta verða í allt fjórar sýningar hjá krökkunum því salurinn ber svo fáa í einu. Hann er nú bara orðinn hálf þreyttur, enda ekki vanur svona miklum látum utan heimilis (er bara í skólanum og fer aðeins í ræktina með pabba sínum) en gaman er það samt.

Peysan hans Andra er tilbúin og hann er byrjaður að ganga í henni. Hún tókst bara mjög vel og passaði sem betur fer á hann. Ég var nú orðin hálf stressuð yfir því að hún myndi ekki passa því hann er orðinn svo þrekinn (alltaf í ræktinni), en þetta slapp til. Svo er ég byrjuð á peysunni á Ísak, svo það er nóg að gera í prjónaskapnum.

Annars er ég í fríi í dag og var komin með langan lista í huganum yfir hluti sem ég ætlaði að framkvæma. En eftir að hafa farið í ræktina og sund á eftir, var ég bara orðin eitthvað svo voðalega lúin og hef litlu komið í framkvæmd. En dagurinn er nú ungur enn ;)

Engin ummæli: