þriðjudagur, 30. mars 2010

Komin í þriggja daga frí - víhí :)

Það er alltaf gott að fá frí, sama hversu gaman er í vinnunni. Ég er líka að vona að ég nái að safna mér eitthvað saman um páskana, það má alltaf vona. En að vísu þarf ég að færa bókhald því það styttist víst í virðisaukauppgjör þann 5. apríl og ég er ekki byrjuð á bókhaldinu. Að öðru leyti verða þetta tíðindalitlir páskar, að minnsta kosti svona fyrirfram. Eini óvissuþátturinn er sá hvort Valur fer suður að kíkja á eldgosið eða ekki. Hann langar mikið til að skreppa en þar sem þetta er aðeins meira en smá skrepp þá er hann ekki búinn að taka ákvörðun. Svo held ég að hann hafi líka áhyggjur af því að við hin verðum hungurmorða ef hann er ekki heima. Ég vil nú halda því fram að það muni enginn deyja, þó vissulega komist eldamennskan mín ekki í hálfkvist við dásemdirnar sem hann reiðir fram.

Áðan var ég á hárgreiðslustofu og er komin með nýjan kastaníubrúnan/rauðan lit í hárið. Það er alltaf pínu skrítið fyrst þegar breytt er um háralit en svo venst það - og svo dofnar liturinn líka alltaf svo fljótt. Sérstaklega núna þegar þetta er bara skol en ekki fastur litur. En já já, um að gera að prófa eitthvað nýtt samt.

Ég er búin með báðar ermarnar og bolinn á lopapeysunni hans Ísaks, svo næst á dagskrá er að koma öllu klabbinu á sama prjón. Spurning hvort ég nenni að fara í það núna, eða geymi til morguns. Á morgun þarf ég nú líka helst að fara í Bónus því hér eru allir skápar að verða tómir. Og að kaupa málningu fyrir Val svo hann geti byrjað að mála "hellinn" sinn um helgina.

En akkúrat núna er ég hálf heilalaus eitthvað og nenni ekki að skrifa meira...

Engin ummæli: