þriðjudagur, 23. mars 2010

Þá er ég endanlega að spila út...

á því að reyna að finna litasamsetningu á bloggið sem mér líkar. Það gengur illa og nú er ég búin að sitja hér í klukkutíma við þessa tilgangslausu iðju. Ég sem er að fara að vinna eftir klukkutíma og á eftir að borða, baða mig og gera mig bjútífúl. Þessi enskusletta þarna aftast var nú bara svo það væru þrjú "b" í setningunni...

En ég fór sem sagt ekki í sund í morgun og ekki í ræktina. Þangað fór ég í gærmorgun og er með hálfgerða strengi í dag. Þá hefði sennilega verið góður leikur að fara í sund til að mýkja sig, en ég er í tilvistarkreppu með sundið þessa dagana.

Þannig er mál með vexti að árskortið mitt í laugina er búið og ég veit ekki hvort ég á að kaupa nýtt. Ég fæ nefnilega ókeypis aðgang í sundlaugina í gegnum líkamsræktina og finnst þar af leiðandi að ég eigi ekki að eyða peningum í sundkort úr því ég get komist í sund á þann veginn. Vandamálið er bara að þá má ég ekki nota búningsklefann í sundlauginni, heldur þarf að fara í gegnum ræktina. Þar er búningsklefinn afar óspennandi svo ekki sé meira sagt. Vatnið rennur varla í sturtunum og loftræsting er af skornum skammti svo það myndast mikil gufa og hiti í búningsklefanum. Síðast en ekki síst - þá vantar alveg kellurnar sem ég hitti venjulega í sundinu. Það er yfirleitt heilmikið fjör í búningsklefanum þar og þó ég taki mismikinn þátt í spjallinu þá finnst mér voða notalegt að hlusta á þær hinar skvaldra og skella uppúr.
Nú þarf ég að kanna hlutfallslegt verð á 10 tíma sundkortum miðað við árskortum, þar sem ég fer jú sjaldnar í sund eftir að ég byrjaði í ræktinni, og sjá hvað er hagstæðast að gera í málinu. Þetta gengur jú ekki...

Engin ummæli: