miðvikudagur, 31. mars 2010

Fyrir Önnu systur...

Af því ég var að segja henni frá því að við hefðum fengið okkur nýjan skenk í staðinn fyrir gömlu furukommóðuna, þá kemur hér mynd af honum.

þriðjudagur, 30. mars 2010

Komin í þriggja daga frí - víhí :)

Það er alltaf gott að fá frí, sama hversu gaman er í vinnunni. Ég er líka að vona að ég nái að safna mér eitthvað saman um páskana, það má alltaf vona. En að vísu þarf ég að færa bókhald því það styttist víst í virðisaukauppgjör þann 5. apríl og ég er ekki byrjuð á bókhaldinu. Að öðru leyti verða þetta tíðindalitlir páskar, að minnsta kosti svona fyrirfram. Eini óvissuþátturinn er sá hvort Valur fer suður að kíkja á eldgosið eða ekki. Hann langar mikið til að skreppa en þar sem þetta er aðeins meira en smá skrepp þá er hann ekki búinn að taka ákvörðun. Svo held ég að hann hafi líka áhyggjur af því að við hin verðum hungurmorða ef hann er ekki heima. Ég vil nú halda því fram að það muni enginn deyja, þó vissulega komist eldamennskan mín ekki í hálfkvist við dásemdirnar sem hann reiðir fram.

Áðan var ég á hárgreiðslustofu og er komin með nýjan kastaníubrúnan/rauðan lit í hárið. Það er alltaf pínu skrítið fyrst þegar breytt er um háralit en svo venst það - og svo dofnar liturinn líka alltaf svo fljótt. Sérstaklega núna þegar þetta er bara skol en ekki fastur litur. En já já, um að gera að prófa eitthvað nýtt samt.

Ég er búin með báðar ermarnar og bolinn á lopapeysunni hans Ísaks, svo næst á dagskrá er að koma öllu klabbinu á sama prjón. Spurning hvort ég nenni að fara í það núna, eða geymi til morguns. Á morgun þarf ég nú líka helst að fara í Bónus því hér eru allir skápar að verða tómir. Og að kaupa málningu fyrir Val svo hann geti byrjað að mála "hellinn" sinn um helgina.

En akkúrat núna er ég hálf heilalaus eitthvað og nenni ekki að skrifa meira...

mánudagur, 29. mars 2010

Lækkaður standard

Eitt af því sem fylgir síþreytuástandi er stórlega minnkuð geta til að sinna heimilisstörfum. Í og með vegna þess að maður setur á oddinn að geta fúnkerað í vinnunni og reyna að halda andlitinu útávið eins og unnt er. En heimavið þýðir það að maður þarf að lækka kröfurnar varðandi það hversu oft ákveðin verk eru unnin - og það sem verra er - sætta sig við að horfa á rykrottur safnast saman í hornum og fleiri sýnileg merki þessa ástands.

Valur eldar að vísu alltaf matinn og dregur þannig verulega úr álaginu á mig. Það eina sem ég reyni pottþétt að gera á hverjum degi, er að taka úr uppþvottavélinni og laga til í eldhúsinu áður en ég fer í vinnuna, þannig að Valur geti gengið í hreint eldhús og þurfi ekki að byrja á að laga þar til svo hægt sé að elda. Þetta eina verk tekur mjög mislangan tíma eftir því hvernig ástandið er á frúnni hverju sinni. Einstaka sinnum hefur það komið fyrir að ef ég hef farið í ræktina eða sund fyrir vinnu þá hef ég ekki haft orku í að taka úr uppþvottavélinni, en það er sem betur fer ekki oft. En ekki næ ég alltaf að gera þetta eins vel og ég vildi. Nú þyrfti t.d. að þrífa eldavélina betur og sömuleiðis flísarnar á milli bekkjarins og skápanna í eldhúsinnréttingunni - en ég ætla að skilja þetta eftir svo ég klári mig ekki alveg.

Þvottinn sé ég líka um og stundum líður lengra á milli þvotta en æskilegt er. Ráðið við því er að auka magnið af sokkum, nærbuxum og íþróttafötum og bolum hjá karlpeningnum á heimlinu. Ef meira er til skiptir minna máli þó sjaldnar sé þvegið ;)

Jú, svo sé ég líka um að halda kattaklósettinu hreinu, best að reyna nú að muna eftir þessum fáu hlutum sem maður gerir... hehe. Og kaupa kattamat og kattasand. Annað heimilisfólk tekur þátt í að gefa dýrunum að borða og drekka eftir þörfum.

Og auðvitað geri ég nú ýmislegt fleira í heildina séð. Laga til, til dæmis. Og þegar ég á góða daga fer ég á fullt í að gera allt mögulegt sem beðið hefur betri tíma. Svo sem að laga til, fara með dót í endurvinnsluna o.s.frv.

En það sem gengur verst hjá mér er að horfa sanngjörnum augum á sjálfa mig og vera þakklát fyrir það sem ég get þó gert. Sjálfsmyndin fer í mola og niðurrifsseggurinn innra með mér fer á fullt. Hann er voða duglegur að benda mér á hvað ég er ómöguleg á allan hátt. Og það er hægara sagt en gert að taka ekki mark á honum.

En nú er nóg komið af "kellingabloggi" eins og minn heittelskaði kallar svona blogg (án þess að meina nokkuð slæmt með því). Ég er að fara að vinna á eftir og á ennþá eftir að fara í sturtu og græja mig. Þyrfti eiginlega að fá mér að borða líka. Já og svo væri örugglega alveg dásamlegt að labba í vinnuna. En hvort ég næ þessu öllu á þeim tíma sem ég hef... tja það er önnur saga :)

sunnudagur, 28. mars 2010

Seinni ermin á peysunni hans Ísaks

Nú er bara að halda áfram að prjóna. Þurfti bara að fá smá útrás fyrir ljósmyndabakteríuna ;)

Sunnudagur enn og aftur

Tíminn flýgur og helgin brátt á enda. Ekki er nú hægt að segja að hún hafi reynst mér notadrjúg, a.m.k. ekki enn sem komið er. Ég var sem sagt andvaka alla aðfaranótt laugardagsins og sofnaði ekki fyrr en rúmlega sex í gærmorgun. Þá svaf ég í rúma fjóra tíma og var nú frekar lágt á mér risið í allan gærdag. Samt fór ég í vinnuna til að klára að skrá inn þessar vörur en var nú sem betur fer snögg að því. Eftir kaffi steinsofnaði ég svo og svaf til hálf sjö þegar Valur kallaði á mig í matinn. Við horfðum á mynd með Ísaki í gærkvöldi en svo steinsvaf ég í alla nótt og fór ekki á fætur fyrr en um ellefuleytið. Ennþá dauðþreytt... En ég hresstist nú aðeins við kaffilatté með bóndanum. Og hresstist ennþá meira þegar Ísak tók það upp hjá sjálfum sér að laga til í herberginu sínu. Það gladdi mig ósegjanlega mikið því tiltekt er ekki nokkuð sem mínir synir finna venjulega uppá sjálfir. Andri reyndar átti stórleik á því sviði í haust einhvern tímann, en það hefur víst ekki gerst síðan. Og það að mamman sé að biðja um tiltekt leiðir yfirleitt til öfugs árangurs.

Annars vorum við Valur að tala um það áðan að þetta síþreytukast sem ég er í núna er með þeim lengstu sem við munum eftir, en það hefur staðið frá því í byrjun janúar, bráðum í þrjá mánuði. Á þessum tíma hafa komið 3 eða í mesta lagi 4 dagar þar sem ég hef verið með nokkuð eðlilega orku. Mér finnst nú eiginlega nóg komið, svo ekki sé meira sagt!

Svo dettur maður niður í að lesa um þetta ástand á netinu og þar eru misgáfulegar upplýsingar eins og gengur. Ég var nú reyndar búin að skrifa heilan pistil um þetta mál um daginn og birti hann hér en tók svo aftur í burtu. Finnst alltaf eins og ég eigi ekki að íþyngja öðrum með þessum pælingum öllum - en á sama tíma þá finnst mér líka gott að tjá mig um þetta hér því þá þarf enginn að finna sig knúinn til að svara eða tjá sig um málið. Það er líka svo merkilegt með það að þó læknavísindin geti í fæstum tilvikum læknað þetta ástand, af því sjaldnast er vitað af hverju það stafar, þá er með ótal rannsóknum búið að sýna fram á að þetta er "raunverulegt" og ekki bara eitthvað sálrænt. Það er að segja, það eru alls kyns mælanlegar breytingar á starfsemi líkamans sem ekki lagast við meðferð hjá geðlækni.

Nóg um það í bili. Ég verð samt að vara fólk við... ég á örugglega eftir að tjá mig meira um þetta vandamál á þessum vettvangi og þá er bara eitt ráð fyrir þá sem þola ekki svona veikindatal - að sleppa því að lesa ;)

laugardagur, 27. mars 2010

Ísak og fleiri krakkar úr Lundarskóla


P3230055, originally uploaded by Lundarskóli Akureyri.

Ég rakst á þessa mynd á netinu. Ísak var einn þriggja fulltrúa úr sínum árgangi, í rýnihópi nemenda, sem hafði það verkefni að skoða hvað hægt væri að gera svo nemendum líði vel í skólanum. Þessi mynd var inni á Flick'r vef skólans.

Jæja þá er mín andvaka einu sinni enn

Það virðist vera þannig þessa dagana að annað hvort get ég sofið 10 tíma á nóttu, já eða jafnvel meira, ef ég fæ tækifæri til, eða að ég get bara ekkert sofið. Það eru nú kannski ýkjur en ég á að minnsta kosti afar erfitt með að sofna stundum og þá sofna ég yfirleitt ekki fyrr en langt er liðið á nóttina. Nú er ég samt svo heppin að það er laugardagur á morgun og ég í fríi frá vinnu. Reyndar hafði ég hugsað mér að skreppa aðeins í vinnuna og klára að skrá vörur sem komu í gær inn í tölvukerfið. Það var nefnilega svo mikið að gera í dag í vinnunni að ég náði ekki að klára það. Raunar var ótrúlega mikil traffík af fólki þegar ég hugsa um það. Fæstir voru þó að gera einhver stórinnkaup, þetta voru nokkuð margar sölur en flestar í smærri kantinum. Svo var líka rennerí af fólki að skoða. Mikið sem það er skemmtilegra að vera í vinnunni þegar nóg er að gera. Ég hef mjög gaman af samskiptum við fólk og yfirleitt ganga þau vel fyrir sig, sem betur fer.

En já, nú er spurningin, á ég að gera tilraun nr. 3 til að fara að sofa, eða á ég að fara að prjóna? Held að ég hangi a.m.k. ekki meira í tölvunni í bili.

föstudagur, 26. mars 2010

Enn eitt útlitið

Og já, ég er alveg að missa mig í þessu...

Annars bar til þeirra stórtíðinda í gær að til mín kom kona í vinnuna og bauð mér í morgunkaffi til sín í dag. Þvílíkt og annað eins hefur nú bara ekki gerst í mörg ár held ég. Var reyndar töluvert öðruvísi þegar ég var með lítil börn og þekkti fleiri heimavinnandi konur. En já, þannig að ég er bráðum að fara í þetta morgunkaffi og hef ekki tíma til að hringla lengur í þessu bloggi.

Er einhver sem hefur álit á þessu útliti miðað við þetta gráa?

fimmtudagur, 25. mars 2010

Blár heimur


Go with the flow, originally uploaded by Guðný Pálína.

Þessi mynd er tekin í Mývatnssveit, við "bláa lónið" þar. Ég hef ekki hugmynd um hvort þetta kallast eitthvað, verð að viðurkenna það.

Annars er ég á leið í vinnuna, búin að fara í sund og borða morgunmatinn en er í allsherjar leti/þreytukasti og nenni ekki einu sinni að bursta tennur, hvað þá að koma mér af stað í vinnuna. En allt hefst þetta að lokum ;)

þriðjudagur, 23. mars 2010

Södd og sæl

Eða amk södd - og sæl líka, ef matur getur á annað borð gert mig sæla ;) Valur eldaði þetta dýrindis kjúklingapasta í kvöldmatinn og smakkaðist það afar vel með grænu salati og afgangi af rauðvíni frá því um daginn. Má náttúrulega ekki láta rauðvínið fara til spillis, annars er það ekki vani hér að drekka vín með mat í miðri viku. En þetta var nú bara örlítið tár og ekki til að hafa áhyggjur af. Nú er eiginlega markmiðið að fara að prjóna en ég er í letikasti. Nenni akkúrat engu í augnablikinu. Þyrfti samt að setja í þvottavél, þó ekki gerði ég annað en það. Svo er Ísak að bíða eftir lopapeysunni sinni, sem ég byrjaði á í síðustu viku. Þetta er svipað og þegar börnin voru lítil og verið var að keyra til Reykjavíkur. Þegar búið var að keyra í korter var spurt hvort langt væri eftir. Ísak skilur sem sagt ekki alveg hvernig prjónaskapur móður hans virkar. Ég er ekki eina viku með peysuna eins og sumar harðsoðnar prjónakonur. En mér er ekki til setunnar boðið, best að fitja upp á ermi nr. 2 ;)

Þá er ég endanlega að spila út...

á því að reyna að finna litasamsetningu á bloggið sem mér líkar. Það gengur illa og nú er ég búin að sitja hér í klukkutíma við þessa tilgangslausu iðju. Ég sem er að fara að vinna eftir klukkutíma og á eftir að borða, baða mig og gera mig bjútífúl. Þessi enskusletta þarna aftast var nú bara svo það væru þrjú "b" í setningunni...

En ég fór sem sagt ekki í sund í morgun og ekki í ræktina. Þangað fór ég í gærmorgun og er með hálfgerða strengi í dag. Þá hefði sennilega verið góður leikur að fara í sund til að mýkja sig, en ég er í tilvistarkreppu með sundið þessa dagana.

Þannig er mál með vexti að árskortið mitt í laugina er búið og ég veit ekki hvort ég á að kaupa nýtt. Ég fæ nefnilega ókeypis aðgang í sundlaugina í gegnum líkamsræktina og finnst þar af leiðandi að ég eigi ekki að eyða peningum í sundkort úr því ég get komist í sund á þann veginn. Vandamálið er bara að þá má ég ekki nota búningsklefann í sundlauginni, heldur þarf að fara í gegnum ræktina. Þar er búningsklefinn afar óspennandi svo ekki sé meira sagt. Vatnið rennur varla í sturtunum og loftræsting er af skornum skammti svo það myndast mikil gufa og hiti í búningsklefanum. Síðast en ekki síst - þá vantar alveg kellurnar sem ég hitti venjulega í sundinu. Það er yfirleitt heilmikið fjör í búningsklefanum þar og þó ég taki mismikinn þátt í spjallinu þá finnst mér voða notalegt að hlusta á þær hinar skvaldra og skella uppúr.
Nú þarf ég að kanna hlutfallslegt verð á 10 tíma sundkortum miðað við árskortum, þar sem ég fer jú sjaldnar í sund eftir að ég byrjaði í ræktinni, og sjá hvað er hagstæðast að gera í málinu. Þetta gengur jú ekki...

mánudagur, 22. mars 2010

Bara svo það sjáist að það er líf í mér...


Still there..., originally uploaded by Guðný Pálína.

Þá kemur hér enn ein mynd úr Mývatnssveit, eins og kunnugir munu eflaust sjá ;)

Nýtt útlit

Ég var allt í einu orðin eitthvað leið á gamla útlitinu á blogginu mínu, enda hefur það verið óbreytt þessi rúmu fimm ár sem ég hef bloggað. Þannig að ég grautaði eitthvað í öllu saman og útkoman er þessi. Hvort breytingin verður til þess að ég fer að blogga oftar, þori ég hins vegar ekki að segja neitt um. Getur að minnsta kosti varla orðið verra... nema ég hætti alveg - og ég á ekki von á því.

miðvikudagur, 17. mars 2010

Ísak orðinn 15 ára, hvorki meira né minna


Ísak 15 years, originally uploaded by Guðný Pálína.

Hann átti reyndar afmæli á sunnudaginn var, svo það er nú frekar seint í rassinn gripið að blogga um það núna, en seint er betra en aldrei...

Það var því miður ekki mikið gert til að fagna afmælinu hans. Hann sagðist sjálfur ekki vilja halda afmælisveislu, en það gæti nú reyndar átt eftir að breytast. En við keyptum köku í kaffinu og fórum út að borða á Greifann um kvöldið, svo eitthvað var nú gert í tilefni dagsins.

Á laugardagskvöldinu fórum við Valur á árshátíð hjá Læknastofum Akureyrar. Allir áttu að mæta í grímubúningum og var það búið að valda mér svolitlu stressi, svo ekki sé meira sagt. En það lukkaðist að lokum að finna búninga á okkur bæði og árshátíðin var hin skemmtilegasta. Allir í svo góðu skapi og ótrúlega flottir í búningunum sínum.

Framkvæmdirnar í kjallaranum ganga vel. Það er búið að leggja hita í gólfið + steypa og flota. Svo er það rafmagnið og að klæða veggina og loftið og þá fer þetta að verða tilbúið. Valur er farinn að huga að húsgögnum þarna inn og stendur valið m.a. á milli þess að vera með lazy boy stóla eða tveggja sæta sófa. Það þarf náttúrulega að fara vel um mann þegar hlustað er á tónlist :)

Ísak tók leiklist sem val í skólanum og æfir nú á fullu fyrir árshátíð skólans sem fram fer núna á fimmtudag og föstudag. Þetta verða í allt fjórar sýningar hjá krökkunum því salurinn ber svo fáa í einu. Hann er nú bara orðinn hálf þreyttur, enda ekki vanur svona miklum látum utan heimilis (er bara í skólanum og fer aðeins í ræktina með pabba sínum) en gaman er það samt.

Peysan hans Andra er tilbúin og hann er byrjaður að ganga í henni. Hún tókst bara mjög vel og passaði sem betur fer á hann. Ég var nú orðin hálf stressuð yfir því að hún myndi ekki passa því hann er orðinn svo þrekinn (alltaf í ræktinni), en þetta slapp til. Svo er ég byrjuð á peysunni á Ísak, svo það er nóg að gera í prjónaskapnum.

Annars er ég í fríi í dag og var komin með langan lista í huganum yfir hluti sem ég ætlaði að framkvæma. En eftir að hafa farið í ræktina og sund á eftir, var ég bara orðin eitthvað svo voðalega lúin og hef litlu komið í framkvæmd. En dagurinn er nú ungur enn ;)

sunnudagur, 7. mars 2010

Í Mývatnssveit


Sunday stillness, originally uploaded by Guðný Pálína.

Tók þessa síðasta sunnudag þegar við Valur fórum í sólarhringsferð í Mývatnssveit. Á laugardeginum var ekkert sérstakt veður en á sunnudeginum birti til.