sunnudagur, 15. júní 2008
Valur setti blómin í ker
og var það aðeins eitt af sirka þúsund verkum hans í dag. Maðurinn sá þjáist ekki af verkstoli, svo mikið er víst. Helsta afrek mitt í dag var að fara á Glerártorg í þriðja skiptið á jafnmörgum dögum, nokkuð sem ætti ekki að vera í frásögur færandi þar sem þetta er jú vinnustaður minn. En erindið var að finna á mig einhverjar nýjar spjarir, helst sumarlegar og sætar. Fyrst fór ég með Önnu á föstudaginn og keypti þá hvíta peysu í Benetton. Svo af því það var 20% afsláttur af peysum þar um helgina þá fór ég aftur í gær og mátaði fleiri peysur, auk buxna og jakka. Ekkert kom þó út úr þeirri ferð annað ein einn bolur. Helst þarf ég að vera í vissu stuði þegar kemur að því að fara í fataleiðangur því mér finnst afspyrnu leiðinlegt að máta föt og andinn var ekki alveg yfir mér í gær. Eftir að hafa sofið á þessu í nótt ákvað ég að gera enn eina tilraun í dag og fór aftur í Benetton. Þar var afgreiðslustúlkan farin að kannast vel við mig og ekki nema von. Þolinmæðin uppmáluð bar hún í mig hverjar gallabuxurnar á fætur annarri og loks kom að því að einar pössuðu. Svo bætti ég á mig tveimur peysum til viðbótar, einni ljósblárri og annarri röndóttri. Þannig að nú er ég bara nokkuð vel birg af fötum - í bili að minnsta kosti ;-) En fyrir utan að blogga og fara í Benetton þá er ég líka búin að fara í Bónus, þvo 3 vélar af þvotti og flokka heilan helling af plastumbúðum og setja í endurvinnslutunnuna. Lagaði aðeins til í búrinu í leiðinni. Þannig að ég hef nú ekki bara legið í leti í dag, þó ég sé reyndar að því núna. Eða nei, ég er að (reyna) að búa til vinnuplan fyrir næstu vikurnar, tók við keflinu af Sunnu sem er búin að sjá um að gera plan fyrir síðustu vikur. Það er ýmislegt sem fylgir því að reka fyrirtæki og starfsmannahald og allt sem því fylgir (mönnun, skipulag vakta, launaútreikningar o.s.frv.) getur verið ansi krefjandi að mínu mati.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli