laugardagur, 21. júní 2008
Enn einn letidagurinn hjá mér
Ég er í fríi í dag og í stað þess að bretta uppá ermarnar og gera eitthvað gáfulegt þá bara ligg ég í leti. Fór reyndar í sund í morgun eins og lög gera ráð fyrir og svo í nudd klukkan tólf. Nuddarinn tók hressilega á mér og kannski er það ástæðan fyrir því að ég er eins og undin tuska núna. Henni tókst samt að mýkja upp á mér bakið sem var orðið stíft eins og þvottabretti og svo náði ég líka að slaka mjög vel á og veitti eiginlega ekki af því. Er sem sagt ennþá svona rosalega afslöppuð og ligg uppi í sófa en finnst samt að ég ætti að vera að gera eitthvað allt annað. Birta er hins vegar afskaplega sátt við að hafa mig liggjandi hér enda lætur hún fara vel um sig ofan á maganum á mér. Máni liggur til fóta svo þetta er allt saman afar hefðbundið. Valur er sá eini sem er duglegur þessa stundina, hann er úti að slá lóðina og einnig það er hefðbundið, þ.e. að hann sé að springa úr framkvæmdagleði meðan ég móki í letikasti. Æ ég veit það ekki, ég er ekki beint löt, bara hálf tuskuleg. Svo er ég líka að byggja mig upp þessa dagana því það verður nóg að gera næstu vikurnar í vinnunni. Sumarfríin að byrja og helst hefðum við þurft að vera með eina manneskju í viðbót til að dekka þetta. En auðvitað reddast þetta allt saman og ekki spillir það fyrir að mér finnst mjög gaman í vinnunni. Nóg að gera og ótrúlega margir sem eiga leið um Glerártorg á degi hverjum. Það rifjast líka upp fyrir mér hvað ég þekki í raun marga (eða kannast við) og þar sem ég hef gaman af samskiptum við fólk þá er þetta alveg ideal vinna fyrir mig. Þyrfti samt að vera flinkari að pakka inn... ;-) Það hefur aukist svo mikið að fólk spyr hvort við pökkum ekki inn og auðvitað alveg sjálfsagt að verða við því. Að bjóða upp á hærra þjónustustig er jú einu sinni hluti af því að reka sérverslun. En nú er spurningin hvort ég ætti að dröslast á lappir og hjóla einn Skógarlundarhring?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli