fimmtudagur, 5. júní 2008

Og smá pirringur

Já einhverra hluta vegna er ég að drepast úr pirringi í augnablikinu. Hugsanlega hefur það eitthvað með þá staðreynd að gera að ég hef nákvæmlega ekkert gert í allan dag. Tja nema fara í sund og liggja þar eins og slytti í pottinum, og fara á bókasafnið þar sem ég gerði næstum útaf við bakið á mér með því að ganga uppá efri hæðina. Þegar ég kom heim var ég mér svo illt í bakinu að ég tók tvær parkódín og henti mér upp í rúm með reyfara. Ég hef sem sagt ekkert farið í vinnu í 3 daga núna (hm, það er nú ekki alveg rétt, fór á fund í gær og var í búðinni í tvo og hálfan tíma) og er komin með móral yfir því. Veit þó að ég hefði ekki gert mikið gagn þar, það er sennilega ekki mjög traustvekjandi afgreiðslukona sem er öll skökk og skæld með sársaukagrettu í andlitinu. En svo ég reyni nú að segja eitthvað jákvætt þá er ég ekki lengur jafn skökk en mjóbakið er hins vegar jafn ósveigjanlegt og tréspýta. Vonandi tekst hnykkjaranum að gera smá kraftaverk - ekki veitir mér af. Ég hef líklega verið helst til barnaleg í hugmyndum mínum um bakið á mér. Það er að segja, mér batnaði svo vel í bakinu sjálfu eftir aðgerðina að mér fannst bara eins og það væri ekkert að mér lengur og ég gæti gert nánast hvað sem væri. Og mér fannst ég ekki vera að ofgera mér í flutningunum um daginn. Var t.d. ekki að bera neitt rosalega þungt. En líklega hef ég ekki verið búin að ná mér nægilega vel til að þola að standa svona mikið uppá endann og vinna svona mikið eins og við Sunna gerðum í flutningunum. Arg!

Lofa jákvæðari pistli á morgun :-)

Engin ummæli: