fimmtudagur, 26. júní 2008

Hrefna og Erlingur koma á morgun

og verða hér á Fróni í heilar tvær vikur :-) Það verður gaman að fá að knúsa skottuna mína (hehe, þessi börn hætta aldrei að vera börn þó þau séu á 25ta aldursári). Ég hringdi á flugvöllinn í dag og þar voru menn nokkuð bjartsýnir á að beina flugið frá Danmörku myndi ekki riðlast vegna verkfallsins. Ég er reyndar að vinna þegar hún kemur en ég treysti á það að hún komi og kíki á mömmu sína á Glerártorgi.

Það var nú frekar fyndið í morgun, mér tókst að fletta framhjá matarsíðunni í Fréttablaðinu og hélt að umfjöllunin hefði ekki birst í dag. Svo þegar þriðja manneskjan kom og spurði um pitsusteina þá fór ég að leggja saman tvo og tvo og spurði viðkomandi hvort hún hefði séð þetta í Fréttablaðinu. Já bæði þar og á netinu sagði hún, og viti menn það var líka hægt að sjá þetta á visir.is - eins og Nanna benti mér á. Myndin á netinu er eiginlega betri en sú sem birtist í blaðinu ;-)

Annars er bara allt í rólegheitum, Ísak spilaði fótboltaleik í kvöld og tognaði aðeins á læri svo hann fer víst ekki á æfingu í fyrramálið. Þetta er svolítið erfitt fyrir þessa stráka, nú spila þeir á "alvöru" velli með risastór mörk og það eru mikil viðbrigði frá því að spila á hálfum velli með smærri mörk.

Andri er byrjaður að vinna í byggingarvinnu og það eru líka mikil viðbrigði hjá honum að vera allt í einu farinn að vinna á fullu frá hálf átta á morgnana til sex eða sjö á kvöldin. Ekki laust við að þreytu gæti - en það má nú ekki segja það upphátt...

Sunna er farin til Spánar og Anna er á söngferðalagi með Kvennakór Akureyrar í Litháen þannig að við Nanna stöndum vaktina í Pottum og prikum. Reyndar stendur hún mun lengri vaktir en ég - aldeilis flott að hafa eina svona unga, spræka og duglega sér við hlið ;-)

Það styttist í árlega Rússlands-veiðiferð eiginmannsins og vonandi að verkfall flugumferðastjóra nái ekki að setja strik í reikninginn.

Síðast en ekki síst styttist í að Sigurður systursonur minn komi í sína árlegu visitasíu hingað í Vinaminni en hann kemur á sunnudaginn. Sem minnir mig á það að ég á eftir að heyra í henni systur minni og athuga hvenær flugið hans kemur norður. Ef það verður þá á áætlun sökum þessa flugumferðastjóraverkfalls.

Engin ummæli: