Hm, hvað á ég þá að segja?
Já ég fór til hnykkjarans í gær og hef líklega hrætt hann pínulítið með því að vita of mikið um brjósklos, ólíkar kenningar um bakverki o.s.frv. Að minnsta kosti fannst mér hann detta aðeins of mikið í einhvern fyrirlestragír í staðinn fyrir einstaklingsmiðaða meðferð, en hann stakk nú líka í mig einhverjum nálum og hnykkti aðeins á hálsi og efra baki (lét viljandi í friði neðri hluta hryggjarins þar sem aðgerðin var gerð). Ég fer aftur til hans á mánudaginn og þá ætla ég að vera duglegri að spyrja spurninga sem tengjast meira mér og mínu ástandi. Ég var reyndar eins og slytti eftir heimsóknina til hans en fór heim og lá fyrir meira og minna þar til ég fór í vinnu um hálf fjögur leytið.
Í dag var ég svo að vinna frá ellefu til hálf fimm og það gekk í raun ágætlega. Ég var að vísu með töluverða verki þegar ég fór í vinnuna en svo gleymdi ég þeim að mestu leyti í dágóðan tíma. Ég hef gaman af því að umgangast fólk og spjalla og það hentar mér í raun mjög vel að vinna í verslun. Mjög ánægjulegt að hafa fundið vinnu sem ég þrífst í (og nú er ég líklega að hugsa á norsku en það verður bara að hafa það).
Svo kom ég heim og Valur (þessi elska) eldaði herramannsmat handa mér og Andra. Grillaður humar og rækjur voru á matseðlinum, auk spínatsalats og durumbrauðs. Mmmm, ekkert smá gott!
Eftir matinn hringdi ég svo í hana Fíu frænku mína til að þakka henni fyrir sérlega fallega blómaskreytingu sem hún sendi okkur Sunnu um síðustu helgi í tilefni opnunarinnar á Glerártorgi. Ég hafði reyndar reynt að hringja í hana fyrir nákvæmlega einni viku síðan en þá var hún ekki heima. Fyrir þá sem ekki vita hver Fía frænka er þá heitir hún Fríður Leósdóttir og á verslunina Brynju þar sem hinn dásamlegi Brynjuís fæst (því miður er ég með mjólkuróþol og get ekki borðað Brynjuís án þess að fá magaverk en allir aðrir fjölskyldumeðlimir elska ísinn úr Brynju). Töluverður aldursmunur er á okkur frænkum en eftir að ég komst til vits og ára þá skiptir aldurinn engu máli lengur og bara gaman að halda smá sambandi við hana frænku mína (við erum hálf-systikinabörn).
Jamm og jæja, hvað á ég nú að skrifa meira fyrir Hrefnu?
Jú ég get sagt frá því að Anna systir mín er að koma til landsins í næstu viku og ætlar að heiðra okkur með nærveru sinni í einn heilan dag ;-) Bara flott að hún skuli nenna að koma norður fyrir einn dag en ástæða Íslandsferðarinnar er ráðstefna norrænna bókasafnsfræðinga í Reykjavík sem byrjar... eftir næstu helgi?
Og nú stynur Valur í næsta herbergi, þreytustunu, enda búinn að afreka mikið í dag eins og alla aðra daga ársins. Ég vildi að ég hefði þó ekki væri nema 5% af hans orku, þá myndi ég nú áorka mun meiru en ég geri í dag.
These are the results of the Stekkjargerði 7 jury (hm, hljómar þetta ekki alla vega einhvern veginn svona í Eurovision? Hef ekki horft á þá keppni árum saman, þannig að ég man þetta ekki alveg lengur). En hvað um það, ég læt þetta gott heita núna. Bestu kveðjur til Kóngsins Köbenhavn og allra hinna :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli