Ég man ekki hvort ég var búin að blogga um það, en við Valur fórum út á Gáseyri á þriðjudagskvöldið í síðustu viku og tókum nokkrar myndir. Þar var mikið fuglalíf og bæði spóar og kríur á sveimi að reyna að afvegaleiða okkur frá hreiðrum sínum. Þar var líka fullt af ferðafólki í húsbílum sem voru að borða og gera sig klár fyrir nóttina. Þessi mynd sýnir þó hvorki fugla né ferðafólk - heldur bara íslenska náttúru ;-)
sunnudagur, 29. júní 2008
fimmtudagur, 26. júní 2008
Hrefna og Erlingur koma á morgun
Það var nú frekar fyndið í morgun, mér tókst að fletta framhjá matarsíðunni í Fréttablaðinu og hélt að umfjöllunin hefði ekki birst í dag. Svo þegar þriðja manneskjan kom og spurði um pitsusteina þá fór ég að leggja saman tvo og tvo og spurði viðkomandi hvort hún hefði séð þetta í Fréttablaðinu. Já bæði þar og á netinu sagði hún, og viti menn það var líka hægt að sjá þetta á visir.is - eins og Nanna benti mér á. Myndin á netinu er eiginlega betri en sú sem birtist í blaðinu ;-)
Annars er bara allt í rólegheitum, Ísak spilaði fótboltaleik í kvöld og tognaði aðeins á læri svo hann fer víst ekki á æfingu í fyrramálið. Þetta er svolítið erfitt fyrir þessa stráka, nú spila þeir á "alvöru" velli með risastór mörk og það eru mikil viðbrigði frá því að spila á hálfum velli með smærri mörk.
Andri er byrjaður að vinna í byggingarvinnu og það eru líka mikil viðbrigði hjá honum að vera allt í einu farinn að vinna á fullu frá hálf átta á morgnana til sex eða sjö á kvöldin. Ekki laust við að þreytu gæti - en það má nú ekki segja það upphátt...
Sunna er farin til Spánar og Anna er á söngferðalagi með Kvennakór Akureyrar í Litháen þannig að við Nanna stöndum vaktina í Pottum og prikum. Reyndar stendur hún mun lengri vaktir en ég - aldeilis flott að hafa eina svona unga, spræka og duglega sér við hlið ;-)
Það styttist í árlega Rússlands-veiðiferð eiginmannsins og vonandi að verkfall flugumferðastjóra nái ekki að setja strik í reikninginn.
Síðast en ekki síst styttist í að Sigurður systursonur minn komi í sína árlegu visitasíu hingað í Vinaminni en hann kemur á sunnudaginn. Sem minnir mig á það að ég á eftir að heyra í henni systur minni og athuga hvenær flugið hans kemur norður. Ef það verður þá á áætlun sökum þessa flugumferðastjóraverkfalls.
miðvikudagur, 25. júní 2008
Sumt skil ég ekki í sambandi við eigin hegðun
Ég fór til sjúkraþjálfara í gær
mánudagur, 23. júní 2008
sunnudagur, 22. júní 2008
Eitt er svolítið sérstakt við að vinna í verslun
laugardagur, 21. júní 2008
Guðný duglega :-)
Enn einn letidagurinn hjá mér
föstudagur, 20. júní 2008
Í sveitinni
Við Valur skruppum í bíltúr fram í fjörð í kvöld og rákum þar augun í hin ýmsu útilistaverk. Þessir spóar eru eftir Helga Þórsson í Kristnesi (listamannsnafn hans er Gamli elgur) og virðast þeir einna helst ætla að gogga í Val. Það sem sést ekki á myndinni er litli spóaunginn sem athygli þeirra beinist að en hann er niðri á jörðinni. En alla vega, ef þið eigið leið Eyjafjarðarhringinn þá skuluð þið endilega hafa augun opin, það er gaman að þessum listaverkum úti í náttúrunni.
fimmtudagur, 19. júní 2008
Fékk smá sjokk áðan
Birta er búin að leggja undir sig sængina mína
sunnudagur, 15. júní 2008
Valur setti blómin í ker
Smá áfallahjálp væri vel þegin
En nú held ég að Valur sé að koma og ætli sé ekki best að fá hann til að búa til kaffilatté handa mér. Hann fór suður í gær í útskriftarveislu hjá Arnaldi bróðursyni sínum sem var að útskrifast úr lagadeild HÍ. Svo ætla ég að gróðursetja nokkur sumarblóm sem ég keypti í gær :-)
miðvikudagur, 11. júní 2008
Allt á uppleið
Í dag var besti dagurinn minn með bakið síðan allt fór í skrall á mánudaginn í síðustu viku. Ég er búin að fara þrisvar til hnykkjarans og í gær svaf ég til að verða hálf tíu, fór í sund og svo í svæðanudd og lagði mig þegar ég kom heim (algjör prinsessa). Vann bara í þrjá tíma og var alveg þolanleg. Vaknaði svo verkjalaus í morgun!! og var ekkert smá ánægð með það. Þó ég hafi verið með svona smá stingi í dag þá leið mér aldrei eins og það væri verið að bora með hníf í hrygginn á mér - og það er nú ástæða til að fagna því. Svo verð ég bara að halda áfram að passa mig næstu dagana á meðan ég er að ná mér betur. Halda áfram að vera prinsessa aðeins lengur ;-) Finn samt hvað það er rosalega erfitt, ég gleymi mér um leið og verkirnir eru ekki lengur til staðar og minna mig á að vera róleg.
Ég held áfram að pússla sumarfríinu okkar saman. Er komin með flug til Köben og heim, flug til Feneyja, gistingu í Toscana en á eftir að redda gistingu í Feneyjum, bílaleigubíl og flugi frá Pisa til Köben. Það er eitthvað smá vandamál með að fá beint flug frá Pisa á laugardegi en ég er nú ekki alveg hætt að leita. Við gætum hugsanlega flogið til Köben á sunnudeginum, sama dag og við fljúgum til Íslands, en það er kannski óþarfa áhætta að taka.
Svo kemur Anna systir annað kvöld og ætlar að vera á Akureyri á föstudaginn. Það verður voða gaman að fá hana í heimsókn enda ekki nema ca. einu sinni á ári sem við systur hittumst. Uss, þetta er náttúrulega ekki hægt...
Þetta er reyndar hálfgerð skyldmenna-vika hér í Vinaminni því Guðjón bróðir Vals og Óli Valur Guðjónsson eru hér í nótt en fara á morgun í veiði í Laxárdal. Valur skreppur svo á föstudaginn og bleytir færið.
Andri er loksins búinn í prófunum og Ísak er kominn í sumarfrí en kettirnir eru í eilífðarfríi - eða þannig. Þau eru enn einu sinni byrjuð á þeim leiðinda ósið að merkja húsið okkar. Þetta er þriðja sumarið sem þau gera þetta, eigendum sínum til mikils ama. Það þarf að passa að hafa læstar dyrnar inn í stofu og niður í kjallara og fylgjast vel með ákveðnum stöðum sem eru "heitari" en aðrir þegar að merkingum kemur. Þetta er líklega því að kenna að á sumrin koma allir kettir hverfisins í ljós (liggja meira og minna í hýði yfir veturinn) og spranga endalaust í kringum húsið okkar. Birta og Máni þurfa því að láta vita hvar þeirra yfirráðasvæði er og gera það á þennan miður skemmtilega máta. Það er reyndar hægt að kaupa sprey sem gefur frá sér róandi "lykt" (ferómóna) og spreyja á staði sem eru sérlega útsettir og ég þarf víst að drífa í því sem fyrst.
Og nú held ég að ég láti þessum pistli mínum lokið.
sunnudagur, 8. júní 2008
Skógarrjóður
Ég fór út í Kjarnaskóg áðan og gekk einn hring þar. Markmiðið var að koma blóðinu á hreyfingu og þrjóskast við að hreyfa mig þó mér væri illt í bakinu. Líklega hefur markmiðunum verið náð en ég er nú samt að drepast í bakinu, hm veit ekki hvar þetta ætlar að enda. Nenni samt ekki að láta þennan bakverk stjórna lífi mínu - vil helst stjórna því sjálf.
laugardagur, 7. júní 2008
Blogg fyrir Hrefnu sem er í prófalestri
Hm, hvað á ég þá að segja?
Já ég fór til hnykkjarans í gær og hef líklega hrætt hann pínulítið með því að vita of mikið um brjósklos, ólíkar kenningar um bakverki o.s.frv. Að minnsta kosti fannst mér hann detta aðeins of mikið í einhvern fyrirlestragír í staðinn fyrir einstaklingsmiðaða meðferð, en hann stakk nú líka í mig einhverjum nálum og hnykkti aðeins á hálsi og efra baki (lét viljandi í friði neðri hluta hryggjarins þar sem aðgerðin var gerð). Ég fer aftur til hans á mánudaginn og þá ætla ég að vera duglegri að spyrja spurninga sem tengjast meira mér og mínu ástandi. Ég var reyndar eins og slytti eftir heimsóknina til hans en fór heim og lá fyrir meira og minna þar til ég fór í vinnu um hálf fjögur leytið.
Í dag var ég svo að vinna frá ellefu til hálf fimm og það gekk í raun ágætlega. Ég var að vísu með töluverða verki þegar ég fór í vinnuna en svo gleymdi ég þeim að mestu leyti í dágóðan tíma. Ég hef gaman af því að umgangast fólk og spjalla og það hentar mér í raun mjög vel að vinna í verslun. Mjög ánægjulegt að hafa fundið vinnu sem ég þrífst í (og nú er ég líklega að hugsa á norsku en það verður bara að hafa það).
Svo kom ég heim og Valur (þessi elska) eldaði herramannsmat handa mér og Andra. Grillaður humar og rækjur voru á matseðlinum, auk spínatsalats og durumbrauðs. Mmmm, ekkert smá gott!
Eftir matinn hringdi ég svo í hana Fíu frænku mína til að þakka henni fyrir sérlega fallega blómaskreytingu sem hún sendi okkur Sunnu um síðustu helgi í tilefni opnunarinnar á Glerártorgi. Ég hafði reyndar reynt að hringja í hana fyrir nákvæmlega einni viku síðan en þá var hún ekki heima. Fyrir þá sem ekki vita hver Fía frænka er þá heitir hún Fríður Leósdóttir og á verslunina Brynju þar sem hinn dásamlegi Brynjuís fæst (því miður er ég með mjólkuróþol og get ekki borðað Brynjuís án þess að fá magaverk en allir aðrir fjölskyldumeðlimir elska ísinn úr Brynju). Töluverður aldursmunur er á okkur frænkum en eftir að ég komst til vits og ára þá skiptir aldurinn engu máli lengur og bara gaman að halda smá sambandi við hana frænku mína (við erum hálf-systikinabörn).
Jamm og jæja, hvað á ég nú að skrifa meira fyrir Hrefnu?
Jú ég get sagt frá því að Anna systir mín er að koma til landsins í næstu viku og ætlar að heiðra okkur með nærveru sinni í einn heilan dag ;-) Bara flott að hún skuli nenna að koma norður fyrir einn dag en ástæða Íslandsferðarinnar er ráðstefna norrænna bókasafnsfræðinga í Reykjavík sem byrjar... eftir næstu helgi?
Og nú stynur Valur í næsta herbergi, þreytustunu, enda búinn að afreka mikið í dag eins og alla aðra daga ársins. Ég vildi að ég hefði þó ekki væri nema 5% af hans orku, þá myndi ég nú áorka mun meiru en ég geri í dag.
These are the results of the Stekkjargerði 7 jury (hm, hljómar þetta ekki alla vega einhvern veginn svona í Eurovision? Hef ekki horft á þá keppni árum saman, þannig að ég man þetta ekki alveg lengur). En hvað um það, ég læt þetta gott heita núna. Bestu kveðjur til Kóngsins Köbenhavn og allra hinna :-)
fimmtudagur, 5. júní 2008
Og smá pirringur
Lofa jákvæðari pistli á morgun :-)
miðvikudagur, 4. júní 2008
Smá bakslag
Hins vegar er ekkert bakslag á Glerártorgi, það er bara stöðugt rennerí af fólki í nýju búðina og bara gaman að því :-)