En á morgun verð ég að prufukeyra nýju froskalappirnar sem ég pantaði að sunnan og sótti í póstinn í dag. Það verður spennandi að sjá hvaða áhrif það hefur að vera með froskalappir, kannski ég komist þá 40 ferðir á sama tíma og 30 ferðir áður?? Ég hef nefnilega verið að auka við mig upp í 40 ferðir en gallinn er sá að það tekur aðeins of langan tíma (ég er alltaf að miða við að vera búin að öllu - synda, þvo mér, klæða mig, blása hárið, mála mig - á klukkutíma). Vandamálið er bara að mér finnst gott að breyta stöðugt til, synda á víxl skriðsund, bringusund og bakskrið en það er víst heldur hæpið að synda bringusund með froskalappir... þannig að þegar þær eru komnar á, þá er bara mögulegt að synda skrið og bakskrið. En hefur maður ekki bara gott af því að breyta aðeins til, gera hlutina á annan hátt en venjulega?
Þau undur og stórmerki gerðust í gær að píparinn mætti á svæðið, 5-6 vikum eftir áætlaðan komutíma og í dag lauk hann sinni vinnu á baðherberginu (í bili a.m.k.) þannig að nú er allt klárt fyrir múrarann... sem er búinn að lofa að koma á morgun, eins ótrúlegt og það hljómar nú. Smá bjartsýni sakar ekki.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli