fimmtudagur, 11. desember 2014

Hefur skammdegið náð í skottið á mér?

Úff ég er allt í einu orðin svo óskaplega þreytt og þung á mér ... Nenni engu og langar mest að liggja áfram í rúminu á morgnana. Þetta er kunnuglegt ástand og tengist líklega myrkrinu. Ég hef náttúrulega ekki verið nógu dugleg að sitja við dagsbirtulampann eða fara út að ganga þegar bjart er úti. Kosturinn er þó sá að ég veit hvað ég þarf að gera ... svo er bara spurningin um framkvæmdina. 
Ég reyni samt yfirleitt að drífa mig í sund um áttaleytið á morgnana, og gerði það í morgun eftir að hafa mokað aðeins af bílaplaninu svo jeppinn kæmist þaðan út. Það var nú reyndar frekar fyndið að vera í sundinu því ég var eina konan í búningsklefa kvenna og þegar ég svo kom út í laug var bara einn karlmaður að synda þar. Einn var í heita pottinum og annar að synda í hinni lauginni. Já og svo sá ég einn sem var að fara þegar ég kom. Þannig að í voru fjórir aðrir en ég í sundi. En það var nú reyndar sérstakt ástand því bærinn hafði verið ófær í nótt og í morgun og skólahald féll niður í grunnskólum. Hins vegar var búið að moka aðalgötur þegar ég fór í sundið um hálf níuleytið, svo ég átti ekki í neinum vandræðum með að komast þangað. 
Svo spjallaði ég aðeins við Hrefnu og Erik á Skype en það eru pínulítið fyndin samtöl því hann vill helst ná í tölvuna og skilur auðvitað ekkert í því af hverju hann má það ekki. Í dag leyfði mamma hans honum að koma nær og þá datt stærðar slef-slumma niður á lyklaborðið, hehe ;-) 
Á mánudaginn koma þau svo til Íslands í 3ja vikna langt jólafrí. Að vísu munu þau stoppa í tvær nætur fyrir sunnan að heimsækja vini og ættingja áður en þau koma norður. Þannig að 17. des koma þau til Akureyrar og síðan koma Andri og Freyja frá Keflavík 19. des. og þá verður nú aldeilis líf og fjör í Vinaminni.
Eins og sjá má á myndinni hér að ofan var engin skammdegisþreyta í mér þegar ég skrapp til Danmerkur um daginn. Mikið sem ég hlakka til að knúsa þennan litla gaur aftur í næstu viku. 

fimmtudagur, 4. desember 2014

Pínulítið týnd

Það er alveg stórmerkilegt að í hvert sinn sem ég ætla að byrja að skrifa hér inn þá fæ ég frestunaráráttu á háu stigi. Núna hafði ég rétt lokið við að skrifa fyrirsögnina og þá fannst mér ég alveg bráðnauðsynlega þurfa að kíkja aðeins í myndvinnsluforritið mitt ... Ég sá að mér um leið og ég var búin að opna það og ákvað að halda áfram að skrifa. Varla liðu samt nema nokkrar sekúndur og þá þurfti ég að kíkja á facebook ... Skil ekki sjálf hvað er í gangi. Það er ekki eins og ég sé að skrifa þetta undir neinni pressu, heldur fyrst og fremst fyrir sjálfa mig. Og þegar ég hef ekki skrifað neitt í langan tíma þá byggist upp þörf hjá mér, svo maður skyldi nú halda að það væri auðveldast í heimi að fullnægja þeirri þörf.  
Mergurinn málsins er sá að ég er svolítið týnd þessa dagana. Nú er sá árstími sem ég hef undanfarin 7 ár verið alveg á kafi í vinnu, og yfirleitt óskað þess að hafa ekki svona mikið að gera. Nema hvað, núna þegar ég hef „ekkert“ að gera þá sakna ég þess eiginlega að vera ekki í vinnunni minni í Pottum og prikum. Ég sakna reyndar ekki vinnuálagsins sem var alltof mikið fyrir manneskju með vefjagigt, en ég sakna viðskiptavinanna og samskiptanna við þá á þessum árstíma. Það voru allir að kaupa jólagjafir og þrátt fyrir að desember sé álagstími hjá mörgu fólki þá lá gleði og jákvæðni í loftinu. Við Sunna á fullu að panta vörur (smá stress í gangi að reyna að velja vörur sem myndu ná að seljast og ákveða hve mikið magn átti að panta), og svo var endalaust kapphlaup við að taka vörurnar sem fyrst uppúr kössum og koma þeim fyrir í hillunum (aldrei nóg pláss).  
Ef við horfum á björtu hliðarnar þá er ég búin að setja upp jólagardínurnar í eldhúsinu, sennilega þremur vikum fyrr en venjulega. Ég er reyndar ekki byrjuð að baka eða neitt þannig en hef þá að minnsta kosti nægan tíma til þess. Ég get hvílt mig heima þegar ég er í þreytu- og/eða gigtarkasti. Ég er smám saman að styrkjast, þó mér finnist það megi nú alveg gerast hraðar. En t.d. þá hlustaði ég á útvarpið í bílnum alla leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um daginn og það hefði ég aldrei getað þegar ég var sem verst.  
Það er sem sagt að renna betur og betur upp fyrir mér að ég er ekki með vinnu, og svona í framhaldi af því þá skjóta alls kyns hugsanir upp kollinum. Svona eins og HVAÐA starf henti manneskju eins og mér, þ.e.a.s. með þetta lítið starfsþrek. Stundum hef ég velt því fyrir mér að reyna á einhvern hátt að starfa sjálfstætt við að skrifa, en svo geri ég ekkert í því að útfæra það nánar í kollinum á mér. Enda er ég kannski ennþá svolítið í þeim gír að vera að tjasla mér saman eftir margra ára ofþreytu. En samt þá læðist þessi tilfinning að mér, að finnast að ég EIGI nú að vera að gera eitthvað gáfulegt, taka þátt í atvinnulífinu, þéna peninga. Og þegar sú hugsun er komin þá fer mér fljótlega að finnast ég alveg gagnslaus af því ég er „bara heima“.  
En já á sama tíma þá er ég sem sagt alls ekki tilbúin til að fara út á vinnumarkaðinn í venjulega vinnu, svo ég verð að læra að lifa með sjálfri mér í þessum nýju kringumstæðum. Og trúa því að ég finni út úr þessu öllu saman þegar rétti tíminn er kominn :-)

föstudagur, 14. nóvember 2014

Get ekki gert tvennt í einu?

Á þessum tíu árum sem ég hef bloggað, hef ég aldrei nokkurn tímann skrifað jafn sjaldan og í ár, eða einungis 37 sinnum (þetta er færsla nr. 38). Ég hef svolítið verið að velta því fyrir mér hver sé ástæðan fyrir þessu, en get ekki sagt að ég hafi komist að gáfulegri niðurstöðu.
 En í fyrsta lagi þá er ég að taka þátt í ljósmyndaáskorun og tek eina ljósmynd á hverjum degi í heilt ár sem ég birti á Blipfoto vefnum og skrifa yfirleitt eitthvað með myndinni. Þannig að hugsanlega fæ ég útrás fyrir tjáningarþörf mína á þann hátt og þarf því ekki að tjá mig meira ... Eða að ég get hreinlega ekki gert tvennt í einu, að halda úti ljósmyndadagbók og jafnframt að blogga. Finnst það mun líklegri skýring, hehe ;-)

Önnur möguleg ástæða er sú að ég hangi eitthvað svo í lausu lofti þessa dagana / mánuðina / árið ... Og einhverra vegna fæ ég mig ekki til að blogga á meðan ástandið er svona. Sem er verulega skrítið því það kemur oft fyrir að mig langar til þess og ég kannski byrja á færslu en klára hana ekki. Sbr. þessi færsla hér sem ég byrjaði á í síðustu viku held ég. 
En já eftir að hafa hætt með verslunina og síðan fylgt mömmu eftir í hennar veikindatímabili eins og ég hef getað, þá er ég núna mest í því að slappa af og reyna að safna mér aðeins saman. Ég finn að ég er líkamlega aðeins styrkari og ég er að vinna í því að koma kollinum á mér í betra horf en þreytan er enn að plaga mig. Þá hef ég að vísu reynt að horfa á góðu hliðarnar, nefnilega þær að ég þarf þó ekki að mæta í vinnu þegar ég er svona þreytt heldur get bara legið í sófanum og hvílt mig eða lesið þegar ég er sem þreyttust. Svo það er nú jákvætt.

Annars fórum við Valur í alveg dásamlegt frí til Spánar um daginn og ég þarf nú eiginlega að taka saman nokkrar myndir og setja hér inn. 
Og svona rétt í lokin, þá er þessi mynd tekin í Þorvaldsdal núna í haust. Við fórum í þriggja daga síðsumarfrí þar sem við gistum í hjólhýsinu við Húsabakka í Svarfaðardal, og skruppum meðal annars í berjamó.

föstudagur, 19. september 2014

Föstudagsraus

Raus segi ég af því ég hef svo sem ekkert sérstakt fram að færa. Langaði bara að blogga :) Með réttu hefðum við hjónin átt að vera í Reykjavík þegar þetta er skrifað en Fröken Vefjagigt kom í veg fyrir það. Greinilega ekki búin að sleppa af mér hendinni skömmin sú atarna. Nei, eins og Valur segir, vefjagigtarsjúklingum batnar víst aldrei, þeir eiga betri daga og betri tímabil en svo kemur alltaf að skuldadögum. Og eins og hann segir líka (réttilega) þá hef ég verið eins og drusla síðan 30. ágúst en þá fór ég á árgansmót. Þannig að þetta eru orðnar þrjár vikur núna ... Ég hef reyndar verið mis-hress eða öllu heldur mis-léleg en já ekki góð!!  
Síðustu 2-3 vikurnar hef ég líka verið á fullu að leita að haustfríi fyrir okkur Val og það hefur tekið ótrúlega mikið á taugarnar. Byrjaði ósköp sakleysislega samt. Jæja, ef ég byrja alveg á byrjuninni, þá vorum við upphaflega að spá í góða ferð til "Langtíburstistan" eins og t.d. Bali eða Taílands, í tilefni þess að ég verð fimmtug núna í nóvember. Ýmissa hluta vegna hættum við samt við þær fyrirætlanir og ákváðum í staðinn að fara í styttri ferð.  
Þá kom Hrefna með þá hugmynd að við gætum samtvinnað heimsókn til þeirra við fríið okkar og flogið áfram á áfangastað frá Kaupmannahöfn. Sem er náttúrulega hin besta hugmynd því þá fær Valur að sjá bæði nýju íbúðina þeirra og það sem mikilvægara er, að hitta Erik Valdemar Egilsson, son þeirra (og já ég er orðin amma og það á eftir að verða alveg sérstök bloggfærsla um það). Alla vega, þá byrjaði nú fjörið fyrir alvöru, því ekki var það einfaldast í heimi að ákveða með áfangastað. Við vorum að spá í Dubai, Madeira og fleiri staði en flugið þangað tók yfirleitt a.m.k. sex tíma og við vorum ekki að nenna að eyða tveimur heilum dögum í ferðalög. Svo var spurning að fara þá eitthvert einfalt eins og t.d. á sólarströnd í Afríku eða Kanarí ... en nei það var bara einhvern veginn ekki að höfða til okkar. Og sumir áfangastaðir eins og t.d. Lissabon eða Istanbúl voru komnir með of mikla rigningu/kulda á þeim tíma sem við vorum að hugsa um. 
Þannig að ég hélt áfram að hanga á netinu í tíma og ótíma til að skoða þetta og á endanum komst niðurstaða í málið. Við ætlum að fljúga til Malaga á Spáni og taka þar bílaleigubíl og keyra upp í fjöllin í Andalúsíu. Þar erum við búin að panta gistingu í 9 nætur í litlum póstkorta-fallegum bæ sem heitir Gaucin. Bærinn er nálægt öðrum bæ sem heitir Ronda og er samkvæmt Hrund (bróðurdóttur Vals sem bjó á Spáni í nokkur ár og fer þangað stundum sem fararstjóri) mjög skemmtilegur. Það var reyndar henni að þakka að ég pantaði íbúð á þessu svæði og við erum orðin mjög spennt að fara :-) 
Jamm og jæja, þetta föstudagsraus varð bara býsna langt hjá mér, og ég held ég láti gott heita. Þá er bara að finna einhverja fallega mynd til að láta fylgja þessum pistli ... 

miðvikudagur, 10. september 2014

Ferðasaga - Höfn í Hornafirði

Það var ekki fyrr en um miðjan júlí að við Valur komumst loks í fyrstu hjólhýsaferð sumarsins. Það var farið að taka á taugarnar að horfa á hjólhýsið úti á götu vikum saman án þess að geta notað það. En sem sagt, mánudagsmorguninn 14. júlí lögðum við í hann. Reyndar tók smá stund að græja allt sem taka þurfti með, en við vorum komin af stað um hádegisbilið minnir mig. Tókum stefnuna austur á bóginn, enda veðurspáin best þeim megin á landinu. Við stoppuðum á Egilsstöðum og fengum okkur kaffi en ókum síðan yfir Öxi til þess að spara okkur smá tíma, en komumst reyndar að því að það er ekkert sérlega sniðugt að aka með hjólhýsi yfir grófa fjallvegi;).  Enda þurfti að herða lausar skrúfur innan dyra og þvo að hjólhýsið að utanverðu eftir það ævintýri. Og á meðan Valur þvoði þá tók ég nokkrar myndir.


Við ætluðum að gista á Djúpavogi (þar sem myndirnar hér að ofan eru teknar) en þar var þoka og súld, sem var í sjálfu sér í góðu lagi, en tjaldstæðið var svo blautt eftir miklar rigningar að ekki var hægt að fara með hjólhýsið inná það. Þannig að við fengum okkur fisk og franskar í staðarsjoppunni og ókum svo áfram til Hafnar í Hornafirði. Það var svo flott veður á leiðinni, hæfilega þykk þoka og blankalogn, og okkur dauðlangaði að taka myndir en það var ekki hægt að stoppa á þröngum veginum með hjólhýsið í eftirdragi. 
Við gistum 4 nætur á tjaldstæðinu á Höfn. Fyrsta daginn vöknuðum við í þokkalegu veðri og sólin skein meira að segja til að byrja með. Eftir morgunmat drifum við okkur í smá útsýnis-rúnt um bæinn, sem er afskaplega snyrtilegur og umhverfið allt hið fallegasta.

Fljótlega fór samt að rigna og eftir það notuðum við tímann mestmegnis í afslöppun og notalegheit. Við fengum okkur að borða á veitingastað í hádeginu, fórum á listasafn og bókasafnið. Um kvöldið eldaði Valur mat í hjólhýsinu og síðan fórum við í langan göngutúr í rigningunni. Það stytti reyndar upp þegar nær dró miðnætti og þá mátti sjá þessa fallegu fjallasýn frá tjaldstæðinu.
Á miðvikudeginum var mun betra veður og við ókum aftur til baka, á þær slóðir sem okkur hafði fundist svo fallegt á, þegar við vorum á leiðinni milli Djúpavogs og Hafnar. Myndavélarnar voru með í för og við stoppuðum lengi á nokkrum stöðum, nutum útiverunnar og tókum fullt af myndum. Við erum búin að venja okkur á að taka alltaf með nóg af nesti í svona dagsferðir og það er alltaf jafn gott að taka sér nestispásur :-) Eins og ég sagði hér að ofan þá tók ég fullt af myndum og hér kemur smá sýnishorn:








Það blés nú býsna hraustlega á köflum og gott að það varð ekki ennþá hvassara. Einhver lét þó hvorki íslenskan sumar„hita“ né rok hafa áhrif á sig og dreif sig í sjóbað. Ég stóðst ekki mátið að taka mynd af manninum úr fjarska. 
Góður dagur endaði aldeilis vel því um kvöldið eldaði Valur aftur mat, í þetta sinn fjallableikju með glænýjum hornfirskum kartöflum, sem bragðaðist dásamlega. 
Á fimmtudeginum var yndislegt veður, sól og blíða. Við fórum nokkuð snemma af stað og vorum á flakki lungann úr deginum. Mamma er fædd og uppalin að Rauðabergi á Mýrum og við byrjuðum á því að skoða heimaslóðir hennar. Mamma fæddist í torfkofa en einhverjum árum síðar byggði fjölskyldan steinhús, þetta sem sést hér á myndinni. Það er löngu farið í eyði en nýrri bær er rétt við hliðina á því. Þar býr enginn eins og er.




Þarna til hægri má sjá upp að Haukafelli en þar er nú skógrækt mikil og útivistarsvæði. Við fórum ekki þangað, en þegar mamma var ung þá fóru þau á engjar á þetta svæði (ef ég man rétt). Þar til vinstri handar er svo Fláajökull, en hann hefur hopað töluvert frá því sem var þegar mamma var ung. 
Eftir að hafa skoðað Rauðaberg fórum við næst að Jökulsárlóni. Við stoppuðum reyndar á leiðinni á stað sem ég man ekki hvað heitir, en þar var svo fallega grá-blá-lituð jökulá og fallegt umhverfi.

Við Jökulsárlón var margt um manninn eins og við mátti búast. Ég hef ekki komið þangað síðan ég var um tvítugt og mig minnti einhvern veginn að lónið eða umhverfið hefði litið allt öðru vísi út. Skrítið hvernig minnið getur svikið mann. En þarna er mikil ferðamanna-útgerð og nóg að gera við að fara með ferðafólk í siglingar um lónið.



Þetta litla hús til vinstri er eina þjónustuhúsið á svæðinu. Þar er kaffihús og salerni og heil tvö klósett fyrir konur, enda var löng biðröð eftir að komast á klósettið. 
Eftir að hafa skoðað okkur um við Jökulsárlón ókum við aftur í áttina til Hafnar. Fyrst stoppuðum við að Hala í Suðursveit, þar sem nýlega er búið að reisa safn til heiðurs Þórbergi Þórðarsyni. Við vorum svo ókúltiveruð að við slepptum því að skoða safnið, en létum okkur nægja að kaupa okkur kaffi og köku og setjast niður á kaffihúsinu. Safnið er skemmtilega hannað, að minnsta kosti séð utan frá.
Næsta stopp var svo uppi við Fláajökul. Við sáum afleggjara frá aðalveginum og fylgdum honum, nánast alveg upp að jökulbrúninni. Þar er greinilega búið að vinna mikið í að gera svæðið aðgengilegt og skemmtilegt fyrir ferðafólk, og meðal annars merktar gönguleiðir með fræðsluskiltum. Fyrst var þarna ungt par í viðbót við okkur en svo fóru þau og við vorum alein á svæðinu. Það er algjör lúxus í nútíma ferðamennsku að geta verið aleinn einhvers staðar, bara í náttúrunni og heyra ekkert nema hljóðin í vindinum eða einstaka fugli.

Við vorum töluverða stund þarna við jökulinn og borðuðum meðal annars nestið okkar sitjandi í skottinu á jeppanum, því þrátt fyrir sól á köflum þá blés svo hraustlega að það var gott að leggja bílnum upp í vindinn til að hafa skjól meðan við borðuðum.  
Síðasta stopp þennan dag var í Eskey, en það varð mjög stutt þar sem ég var orðin skelfilega þreytt eftir daginn. Meðfylgjandi mynd er tekin þar úti en horft er upp í átt að Mýrunum.
Um kvöldið byrjaði svo að rigna aftur og þar sem það var bara rigning í kortunum þá ákváðum við að fara aftur heim til Akureyrar í stað þess að halda áfram suður á bóginn. Enda kannski eins gott því bensínið var alveg búið á tankinum hjá mér og eftir 5 daga ferðalag þurfti ég 5 daga hvíld og gott betur. 
Jæja þetta varð sannkölluð maraþon-bloggfærsla og kannski ekki skrítið að ég hafi þurft langan tíma í þetta verkefni. Hugsanlega hefði verið gáfulegra að skipta þessu niður í styttri búta, en ég held ég nenni ekki að hugsa um það núna ... ;-)

þriðjudagur, 9. september 2014

Færðist of mikið í fang

Eftir svona langt hlé þá kastar maður greinilega ekki nýjum pistli framúr erminni eins og ekkert sé ;-) Í gær lofaði ég því að í dag kæmi ný bloggfærsla og ég sat með sveittan skallann við að skrifa ferðasögu frá því í sumar, en náði ekki að klára. Var bara orðin þreytt í höfðinu, með vöðvabólgu og öll stíf og ómöguleg, svo ég ákvað að segja þetta gott í bili. Það sem tekur svona langan tíma er að finna myndir og setja á bloggið. Ég tók nefnilega svo margar myndir og þá þarf að velja úr fjöldanum, vinna þær aðeins, flytja þær út úr myndvinnsluforritinu og inná bloggið ... og þetta tekur bara ótrúlega langan tíma allt saman. Þannig að ég bara verð að klára dæmið á morgun. 

mánudagur, 8. september 2014

10 ára bloggafmæli

Í byrjun ágúst voru liðin 10 ár síðan ég byrjaði að blogga. Í tilefni þessara tímamóta - og ekki síður vegna þess hve illa ég hef staðið mig í blogginu á árinu sem er að líða - hef ég ákveðið að hleypa af stokkunum átakinu „Lífi blásið í bloggið“. 
Það verður reyndar að viðurkennast að ég hef ekki alveg hugsað þetta átak til enda, þ.e.a.s. hvernig ég ætla að standa að því, en nú verður tekið á því! 
Hinn möguleikinn hefði verið að hætta alveg að blogga en ég finn að mig langar til að halda þessu áfram. Finn það líka að þegar ég skrifa ekkert á þessum vettvangi þá vantar mig einhvern stað til að tjá mig á. 
Ég veit samt ekki hvað gerðist með mig og bloggið núna á þessu ári. Eins og ég hef í raun þurft á því að halda að skrifa, þá hef ég haldið aftur af mér og einhvern veginn ekki „þorað“ að tjá mig. Sem sagt einhver óútskýranleg hræðsla í gangi. Hugsanlega vegna þess að það hefur svo margt verið að gerast í kringum mig og í kollinum á mér þetta síðasta ár. 
Alla vega, ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra í þetta sinn, en LOFA annarri bloggfærslu á morgun :-)

sunnudagur, 20. júlí 2014

Au natural ...

Í nokkur ár hef ég verið að velta því fyrir mér að hætta að lita á mér hárið. Ég vissi sem var að ég var sífellt að grána meira en satt best að segja hef ég ekki séð minn náttúrulega háralit í ... tja ... nærri 30 ár? Og þar sem ég verð fimmtug núna í haust þá er þetta góður helmingur ævi minnar. Minn eiginlegi háralitur var „músabrúnn“ og ég byrjaði að lita á mér hárið til að fá meira spennandi háralit. Fyrst var þetta bara litaskol sem þvoðist úr í nokkrum þvottum en eftir því sem gráu hárunum fjölgaði breyttist skolið í fastan lit. Svo fór ég að bæta við strípum og prófa hina ýmsu háraliti til gamans. Ég hef verið ljóshærð, rauðhærð, brúnhærð og mjög dökkhærð en aldrei alveg svarthærð reyndar.
Fyrir einu eða tveimur árum fór ég síðan alvarlega að spá í hvort ég væri orðin nógu gráhærð (ekki bara skellótt á litinn) til að leyfa mínum eiginlega háralit að koma í ljós. Að hluta til af því ég sá hvað það fór sumum konum vel að vera gráhærðar og að hluta til af því ég þurfti orðið í litun á 4ra vikna fresti ef vel átti að vera. Þó mér finnist reyndar voða gaman að fara í klippingu og litun til hennar Ernu minnar (við spjöllum svo mikið saman :) þá fannst mér fara býsna mikill tími í þetta. Eins tók ég eftir því að suma daga þegar ég hafði farið á hárgreiðslustofu í klipp+lit, þá var ég mjög þreytt í kjölfarið. Sennilega vegna þess að það er álag að sitja í ca. 2,5 tíma en ég gat jú ekki heldur útilokað að það væri liturinn sjálfur sem ég væri að bregðast svona illa við. 
Þannig að ... eftir að hafa hugsað málið í töluverðan tíma þá ákvað ég að láta slag standa. Það var nú reyndar pínu fyndið, að daginn áður en ég átti pantaðan tíma hjá Ernu í klippingu og litun, þá hringdi hún í mig til að spyrja hvort ég gæti komið þann sama dag til sín, því daginn eftir yrði vatnslaust og þá væri ekki hægt að lita á mér hárið (eða skola litinn úr öllu heldur). Ég ákvað að líta á þetta sem tákn um að nú væri rétti tíminn til að hætta að lita á mér hárið, og sagði henni það sem ég var að hugsa, og við ákváðum að sleppa lit í þetta sinn. Ég var nú með ótal varnagla og sagði að ef mér litist ekkert á þetta þá kæmi ég til hennar í „neyðarlitun“. En já hún klippti hárið býsna stutt en samt var nú töluverður litur í því ennþá. Þannig að fyrsta útgáfa af klippingu leit svona út:

Þarna sést pínu grátt í vöngum en ennþá er hellings litur í hárinu (en Erna sleppti því að lita í rótina). Svo tók nú ekki langan tíma þar til rótin var orðin alltof grá miðað við restina af hárinu, og ég hringdi neyðarhringingu í Ernu og bað um klippingu. Þá tók hún nánast allt hár sem var litað en varð þó að skilja eftir smá brúnt, til að gera mig ekki alveg sköllótta ;-) Þá leit ég svona út:
Hehe hálfgerð fangamynd af mér ;-)  Síðan hefur hárið vaxið aðeins eins og sjá má á þessari mynd hér að neðan, sem sýnir mig og Palla bróður (já hann og Sanne konan hans stoppuðu hér á landi í 10 daga og hjálpuðu meðal annars við flutningana hjá mömmu). 
Ég er bara mjög ánægð með að leyfa gráu hárunum að njóta sín, amk núna í sumar þegar ég er sólbrún ... svo verður bara að koma í ljós hvort ég verð sama sinnis þegar fer að vetra og ég er orðin fölari í framan ... 

sunnudagur, 29. júní 2014

Stutt stopp á Akureyri


Ég, sem varla fór til Reykjavíkur nema einu sinni á ári, er að verða hálfgerður landshornaflakkari. Frekar fyndið eiginlega. En já auðvitað kemur það ekki til af góðu eins og flestir vita. 
Mamma var sem sagt útskrifuð sl. þriðjudag. Hún er nú ósköp þreklítil orðin eftir allar þessar hremmingar og fannst áskorun að aðlagast aftur lífinu heima. Hún var mjög glöð að vera komin heim í rólegheitin í sinni íbúð, en á sama tíma þá var margt sem hún þurfti nánast að læra uppá nýtt, svo þetta tók á. Eins eru hömlur á því hvað hún má gera með tilliti til gerviliðarins, og þarf hún s.s. að nota griptöng til að sækja hluti sem detta í gólfið, nota sessu þegar hún situr og má ekki beygja mjaðmirnar meira en 90° svo dæmi séu nefnd, þannig að það er ýmislegt sem hafa þarf í huga. 
Ég stoppaði hjá henni þar til í gærmorgun og ég verð að viðurkenna að það var með hálfum huga sem ég fór þaðan. En hún verður að fá að prófa að pluma sig sjálf og á meðan ég er þarna þá er hætt við því að ég „þjóni“ henni of mikið í stað þess að láta á það reyna hvort hún getur gert hlutina. Hún var nú að sjóða sér hafragraut og það gekk bærilega. Svo fór ég og verslaði inn helling af mat svo hún yrði ekki matarlaus næstu vikuna. 
Um næstu helgi förum við Valur saman suður og þá á að hjálpa mömmu að flytja milli íbúða. Hún fékk minni (og örlítið ódýrari) íbúð á sömu hæð og það er nú mikill kostur að geta flutt svona stutt. Hugsanlega förum við Valur með hjólhýsið með okkur suður á bóginn og blöndum saman flutningum og sumarfríi (hjá honum, ég er náttúrulega í eilífðarfríi eins og er). Það yrði mjög gaman :) 
Nú er ég hins vegar í smá þreytukasti, sem birtist aðallega í hávaðaóþoli og viðkvæmni fyrir áreiti. Það er pínu fyndið hvað þreytan hefur ólíkar birtingarmyndir og t.d. hávaðaóþolið var orðið mikið betra hjá mér undanfarið, svo það er erfitt þegar það skellur á aftur af fullum þunga. 
OK þetta var bara smá stöðu-uppfærsla. Eins og sjá má þá snýst lífið mikið í kringum mömmu þessa dagana en vonandi hennar vegna fer þetta allt að komast á rétt ról aftur.

miðvikudagur, 25. júní 2014

Í Keflavík enn á ný


Þegar ég skrifaði síðast um mömmu þá hafði hún farið í aðgerð 21. maí þar sem settur var gerviliður í mjöðmina á henni. Allt leit vel út,  ég fór norður viku síðar og stefnt var að því að útskrifa hana í byrjun júní. Það varð þó ekki, því hún fékk sýkingu í skurðsárið og þurfti að vera á sýklalyfjum í æð næsta hálfa mánuðinn. Síðan fékk hún sýklalyf í töfluformi en sárið vill samt ekki gróa og enn er að vessa úr því. Hins vegar var ákveðið að leyfa mömmu að fara heim og heimahjúkrun á að sjá um að skipta á sárinu hér eftir. Ég ætla að stoppa einhverja daga á meðan mamma er að ná áttum eftir þessa löngu sjúkrahúsvist. Annars standa flutningar fyrir dyrum hjá henni. Hún hafði sótt um að komast í minni íbúð eftir að Ásgrímur dó og getur nú fengið 2ja herbergja íbúð sem er hér á sömu hæð, svo það er nú hentugt. 
Anna systir kom tvisvar til Íslands með stuttu millibili. Fyrst til að heimsækja mömmu og svo til að halda uppá 35 ára stúdentsafmælið sitt ásamt öðrum skólafélögum úr MA. Þá kom hún að sjálsögðu norður og gisti hjá okkur, en þrátt fyrir mjög mikil samskipti okkar systra í tengslum við mömmu þá höfum við nánast ekkert hist á þessu ári. Ca. 15 mínútur þegar við Valur vorum á leið til Kaupmannahafnar að vera við útskrift Hrefnu í janúar, og svo tæpan sólarhring þegar Anna kom og leysti mig af eftir að mamma hafði verið útskrifuð af sjúkrahúsinu í lok mars. Þannig að það var kærkomið að ná smá systrasamveru :-) 
Svo kom Hrefna pínu óvænt í heimsókn. Hún hafði reyndar verið búin að nefna það fyrir löngu síðan en ekki getað ákveðið sig en dreif sig svo bara í síðustu viku. Hún kom norður aðfaranótt föstudags og alltaf er nú jafn gott að knúsa krakkana sína eftir aðskilnað, sama hvað þau verða gömul. Að vísu er aðeins erfiðara að komast nær henni núna enda lítill ömmustrákur á leiðinni, en hann á að koma í heiminn í byrjun ágúst. Það verður nú aldeilis gaman fyrir unga parið og alla sem að þeim standa.  
Ég hafði hugsað mér að byrja að vinna í haginn fyrir væntanlega flutninga, s.s. að fara með föt í Rauða krossinn, en hef svo bara verið með höfuðverk í allan dag og ekki nennt neinu gáfulegu. Skrapp samt aðeins á bókasafnið en komst að því að bókasafnskort frá Akureyri dugar ekki hér þrátt fyrir rafrænt kerfi (Gegni). Ekki að það breyti miklu þannig lagað. Gleymdi bara bókunum fyrir norðan sem ég ætlaði að taka með mér. Gleymdi líka prjónadótinu mínu ... Hef tölvuna og þarf auðvitað ekki meira. Áttaði mig reyndar á því að þar sem mamma hefur verið með ódýrustu nettenginguna þá höfum við gestir hennar þessa síðustu mánuði hleypt símreikningnum talsvert upp. Það borgar sig að vera með örlítið dýrari áskrift og fá 10x meira gagnamagn. Við þetta nútímafólk verðum náttúrulega að geta komist á netið ;-) 
Myndin hér að ofan sýnir mömmu borða fyrstu máltíðina eftir heimkomuna, steiktan kjúlla úr Nettó og pepsi með. Henni finnst þetta svo ljómandi góður matur :-)



miðvikudagur, 11. júní 2014

Jákvæð hugartengsl


Á tímabili síðastliðinn vetur/vor urðu orð mér mjög hugleikin. Orð og máttur þeirra. Ég er þess fullviss að orð skipta máli, miklu máli, og þar af leiðandi er mikilvægt að velja vel hvaða orð maður lætur út úr sér. Sbr. ekki tala illa um sjálfan sig né aðra, eða velja óvönduð orð til að lýsa fólki eða atburðum. Ekki að það sé alltaf auðvelt sko ... það er allt annar handleggur. 
En sem sagt þegar mér gekk illa að slaka á og sofna á kvöldin, þá reyndi ég að rifja upp í huganum falleg og jákvæð orð. Ég tók t.d. orð eins og „hjartahlýja“ og sagði það innra með mér og reyndi að finna þau jákvæðu hugartengsl sem þetta orð vakti með mér.  Svo tók ég fyrir næsta orð „gleði“ og gerði slíkt hið sama. 
Þetta róaði mig á tvennan hátt. Í fyrsta lagi þá varð hugurinn upptekinn af því að leita að jákvæðum orðum (og ég gat þá ekki haft áhyggjur á meðan) og í öðru lagi þá tókst mér yfirleitt að lifa mig inn í/ skynja orðin og merkingu þeirra, og leið betur í kjölfarið. 
Mér er eiginlega alveg sama þó aðrir skilji þetta ekki, en ef einhver vill gera tilraun sjálfur, þá koma hér nokkur orð sem hægt er að leika sér með. Loka augunum, segja orðið innra með sér, finna tilfinninguna sem fylgir því. Dvelja um stund í orðinu og finna hvað það gerir fyrir ykkur. Og umfram allt velja orð sem höfðar til ykkar og á erindi við ykkur.
Kærleikur
Hjartahlýja
Væntumþykja
Ást


Hugrekki
Þor
Áræðni


Þrautseigja
Kraftur


Jákvæðni
Gleði
Kátína


Hamingja 
Þakklæti

Von


föstudagur, 30. maí 2014

Ertu svo bara að "chilla" núna?

- Öööö, það fer nú eftir því hvernig á það er litið. Ég er ekki í launaðri vinnu eins og er en hins vegar hef ég nú kannski ekki beint verið að chilla heldur. 
Og svo kemur sagan af því hvernig mamma brotnaði rétt eftir að Pottar og prik hættu starfsemi, og svo framvegis ...  
Það er sennilega ekkert skrítið þó fólk velti því fyrir sér hvað ég sé að fást við þessa dagana og mér finnst svo sem ekkert óþægilegt heldur að fá svona spurningar. En þá fer ég samt aðeins að velta því fyrir mér hvað framtíðin beri í skauti sér. Á sama tíma hef ég ákveðið að vera ekki í neinni atvinnuleit eins og er, þar sem markmiðið var jú að reyna að safna smá orku og komast til betri heilsu. Þannig að þetta er allt dálítið svona „haltu mér - slepptu mér“ dæmi. Ég fékk nú reyndar tilboð um smá atvinnu um daginn, eða verkefni öllu heldur. Það var á vegum Háskólans á Akureyri og hefði í sjálfu sér örugglega getað verið allt í lagi. Hins vegar dreymir okkur Val um að fara eitthvert til útlanda í haust og þá vorum við aðallega að hugsa um októbermánuð og það er einmitt sá mánuður sem aðalþunginn í verkefninu á að vera. Svo ég gaf það bara alveg frá mér.  
Annars eru það nú ekki atvinnumálin sem hvíla þyngst á mér þessa dagana, heldur þetta mál með mömmu allt saman. Ég er að reyna að dvelja í núinu og hafa ekki áhyggjur af öllu en það gengur frekar treglega. Nú er samt allt á uppleið hjá henni, ég komin norður í land í bili og Anna systir kemur jú á morgun og stoppar í Keflavík í 5 daga, svo ég ætti að geta slakað aðeins á. Það breytir því samt ekki að ég hef sofið mjög illa þessar tvær nætur síðan ég kom heim (skil það ekki!) og er eitthvað svo búin á því. Ég skil heldur ekki hvernig mér tókst að halda mér gangandi (eða svona næstum því) í þennan tíma sem ég var í burtu, til þess eins að hrynja svo þegar ég kem heim... Þetta er svona eins og börnin sem eru voða þæg á leikskólanum og taka svo út alla óþægðina heima hjá sér ;-) En já já ég veit jú að þetta líður hjá. Ætti að vera farin að þekkja ferlið. Þreytt, verð pirruð á því að vera þreytt, langar að gera svo margt en líkaminn vill ekki. Ég synti t.d. engar 20 ferðir í morgun, held þær hafi orðið 14. Samt alltaf gott að fara í sund og ég hreinlega elska að fara í sund þegar sólin skín og ég get farið í útiklefann.  
Hm jæja og mín komin með munnræpu ... það kom að því.  
Ljósmyndaklúbburinn minn verður með sýningu í Lystigarðinum þriðja sumarið í röð. Ég tók að vísu ekki þátt í fyrra en ákvað að vera með í ár til að detta nú ekki alveg út úr þessu. Þannig að í gærkvöldi fórum við og settum upp sýninguna. Valur og tveir aðrir eiginmenn/sambýlismenn hjálpuðu til. Erfiðasti hlutinn er yfirleitt að ákveða uppröðun myndanna og sýnist hverjum sitt, en allt hefst þetta þó að lokum. Þemað í ár er „Óður til fánans“ í tilefni af 70 ára lýðveldisafmæli Íslands. Þannig að myndirnar eru í fánalitunum. Ég valdi mynd sem er í rauðum litum (sjá hér að ofan) en flestar hinna voru með hvíta og bláa litinn sem aðalliti. Blár himinn eða sjór og hvít fjöll. Ég átti líka meira af þannig myndum og var meira að segja búin að taka mynd með bláum aðallit til að hafa á sýningunni, en ákvað svo að hafa rauðu myndina því það var eiginlega meiri skortur á rauðum lit. Rauða myndin er líka hlýrri og vekur kannski upp jákvæðari tengingar hjá þeim sem á horfa. Mér finnst þessi bláa samt svolítið skemmtileg líka ;)



mánudagur, 26. maí 2014

Bloggáskorun?


Það eru endalausar áskoranir um allt mögulegt sem ganga á facebook þessa dagana. Það þýðir ekki að skora á mig með neitt svoleiðis - en ég er hins vegar að spá í að skora á sjálfa mig að blogga einu sinni á dag í 10 daga. Hvernig lýst fólki á það? Einhverra hluta vegna hef ég nánast dregið sjálfa mig inn í einhverja skel síðan mamma datt og brotnaði, veit ekki hvers vegna, og ein afleiðing þess er að ég er nánast hætt að blogga. Reyndar hef ég haldið áfram að taka mynd á dag og birta á blippinu/ljósmyndadagbókinni svo ég er ekki alveg dauð úr öllum æðum. En ljósmyndaklúbburinn minn er að fara að halda sýningu og ég er með mynd en hef ekki tekið neinn þátt í undirbúningnum ... og er með smá móral vegna þess. Ekki hef ég hitt konuklúbbinn minn heillengi og nánast engar vinkonur heldur. En jæja nóg um það. 
Hvað mömmu varðar þá voru erfiðleikar hennar því miður ekki á enda eftir aðgerðina sem gerð var á FSA. Við komum suður á mánudegi 12. maí og þar sem ég hafði fengið þá skyndihugdettu að heimsækja Hrefnu dóttur mína í Köben skrapp ég þangað og var frá 13. - 16. maí. Það var reyndar mjög gaman að kíkja aðeins á unga parið í nýju íbúðinni og sjá Hrefnu með kúlu (ég á von á ömmustrák í heiminn 6. ágúst ;-) Svo kom ég á sjúkrahúsið að heimsækja mömmu á laugardeginum og fékk þá að vita að röntgenmynd sýndi að ekki væri í lagi með neglingu nr. 2 og því væri ekki um annað að ræða en fara í þriðju aðgerðina og í þetta sinn að setja gervilið í mjöðmina. Úff! Ég hafði ætlað að stoppa yfir helgina og fara svo norður en þetta kollvarpaði þeim áformum. 
Mamma fór svo í aðgerð miðvikudaginn 21. maí og fyrstu dagarnir á eftir voru nokkuð erfiðir ýmissa hluta vegna. Valur kom reyndar suður á fimmtudeginum og ég var voða glöð að fá að hafa hann yfir helgina. Svo þegar hann var farinn þá reyndar vaknaði ég í morgun og var eiginlega ekki að nenna að vera lengur hér í Keflavík, enda búin að vera tvær vikur í burtu. Vildi samt ekki panta flug fyrr en ég sæi hvort mamma væri ekki örugglega á réttri leið, og það sá ég svo sannarlega þegar ég heimsótti hana í dag. Hún gekk eins og herforingi eftir ganginum, bein í baki og tók stór skref. Enda eins loksins orðin verkjalaus eftir allar þessar vikur með verki (frá 5. mars til ca. 23 maí). Hún var reyndar mun skárri af verkjunum eftir aðgerðina fyrir norðan, en ekki laus við þá. Þetta er þvílíkur munur fyrir hana. Nú þarf bara að þjálfa upp þrek og styrk að nýju, og vonandi nær hún að komast aftur heim í sína íbúð og lífið kemst í samt lag aftur. Allir þessir verkir og verkjalyf hafa hins vegar haft mikil áhrif á hana og ekki undarlegt að það taki smá tíma að jafna sig.   
Annars ætlaði ég að vera svo dugleg að gera allt mögulegt þennan tíma sem ég væri ein hér í Keflavík en hef ekki gert neitt af því. Var búin að skrá mig á námskeið á netinu (tja tvö námskeið meira að segja) og hélt ég hefði nægan tíma til að sinna þeim, sem ég hef jú, en það dugar ekki til. Að vísu var ég nokkuð dugleg að fara út að ganga og eins að fara í sund í síðustu viku. Já og það er kannski stærsta afrekið hingað til, ég er loks búin að ná upp aðeins betra sundþreki og er farin að synda 20 ferðir, eða 500 metra. Hef ekki synt þetta langt í einhver ár. Þetta hafa verið frá 6 upp í 16 ferðir fram að þessu, svo ég er bara nokkuð ánægð með mig :)

miðvikudagur, 7. maí 2014

Er ekki kominn tími til að tengja?


Eða með öðrum orðum, er ekki kominn tími á bloggfærslu? Ég held ég hafi sett persónulegt met með því að blogga aðeins einu sinni í síðasta mánuði.  
Síðasta hálfa árið hefur reynt býsna mikið á mig. Ég man ekki hvort það var í október eða nóvember sem við Sunna ákváðum að loka Pottum og prikum á nýju ári. Í hönd fór síðan jólavertíðin með öllu sínu annríki og andlega séð fannst mér það mjög erfitt að halda haus, panta vörur og afgreiða viðskiptavini, vitandi það að búðin væri að hætta. Á sama tíma var Ásgrímur maðurinn hennar mömmu orðinn mjög veikur af magakrabbameini, og ljóst að það myndi bara enda á einn veg.  
Í byrjun janúar var dreginn úr mér endajaxl og ég var ansi lengi að jafna mig eftir það. Á sama tíma var vörutalning í búðinni en eftir hana fór ég suður að heimsækja mömmu og Ásgrím, og var mjög fegin því en tæpri viku síðar var hann látinn. Seinni partinn í janúar auglýstum við svo að Pottar og prik væru að loka, og við tóku við hálf brjálaðar tvær vikur, þar sem við náðum að selja nánast allt úr búðinni. Það voru langir og mjög erilsamir dagar fyrst eftir að auglýsingin birtist, og ég var því orðin mjög þreytt þegar við Valur fórum til Danmerkur í lok mánaðarins til þess að vera við útskrift Hrefnu úr læknadeildinni.  
Febrúarmánuður fór í að hnýta alls kyns lausa enda í tengslum við lokin á rekstrinum + bókhaldsvinnu hjá mér. Ég reyndi líka að hugsa aðeins um sjálfa mig, lesa bækur og taka myndir, því þreytan ætlaði mig lifandi að drepa eins og svo oft áður ... Í lok febrúar fórum við Valur suður í smá frí. Gistum í orlofsíbúð, hittum ættingjana og fórum með Andra og Freyju út að borða í tilefni þess að Andri var að klára atvinnuflugmanninn. Við komum heim á þriðjudegi og á miðvikudegi hringdi Dísa tengdadóttir Ásgríms með þær fréttir að mamma hefði dottið og mjaðmarbrotnað. Þetta var 5 mars.  
Síðustu átta vikurnar hafa verið mjög erfiðar. Fyrst var ég hjá mömmu í tæpa viku eftir aðgerðina, kom heim og var í massívu gigtarkasti í hálfan mánuð, fór svo aftur suður þegar mamma útskrifaðist af sjúkrahúsinu og var hjá henni í viku. Sú vika var ansi strembin því mömmu leið alls ekki vel. Svaf illa á nóttunni og fékk slæm verkjaköst í tvígang. En svo kom Anna systir og tók við keflinu í eina viku, sem reyndar endaði á því að mamma var lögð inn vegna verkja og átti að verkjastilla hana.  
Þegar hér var komið sögu hafði Anna reyndar látið vita að henni litist ekkert á að mamma gæti séð um sig sjálf þegar hún (Anna) færi aftur til Noregs. Við Valur ákváðum þá að bjóða mömmu að koma norður til okkar, amk yfir páskana og eitthvað lengur. Daginn áður en hún átti að útskrifast var síðan tekin röntgenmynd af mjöðminni, sem sýndi hreyfingu á naglanum sem festur hafði verið í mjaðmakúluna. Hér var komin skýring á þessum verkjaköstum sem mamma hafði verið að fá. Hins vegar var á þessum tímapunkti ákveðið að sjá til hvort þetta myndi lagast af sjálfu sér (beinið að gróa og naglinn festast).  
Mamma kom því norður á skírdag og má það heita hálfgert kraftaverk. Dísa sótti hana á sjúkrahúsið í Keflavík, ók henni til Reykjavíkur og kom henni í flug. Ég var rosalega fegin því þá slapp ég við að fara enn eina ferðina suður. Hins vegar kom fljótt í ljós að ekki var nú gott ástandið á konunni. Fyrst héldum við að hún væri kannski svona eftir sig eftir ferðalagið en að liðnum tveimur sólarhringum sáum við að það var meira en svo. Það kom reyndar einn þokkalegur dagur þar sem hún var skárri af verkjunum en síðan byrjaði ballið aftur og fimmti og sjötti sólarhringurinn voru skelfilegir. Hún náði aldrei verkjalausri hvíld í meira en 15 mín. og svaf mjög illa sökum þess. Valur hafði verið búinn að ráðfæra sig við bæklunarlækni og á sjötta degi ákvað Valur að ekki væri hægt að una við þetta lengur og í kjölfarið var mamma lögð inn á Bæklunardeildina hér á Akureyri.  
Bæklunarlæknarnir vildu samt enn bíða og sjá hvort ástandið myndi lagast og það þurfti sífellt að gefa mömmu meiri verkjalyf því henni bara versnaði. Sem leiddi til þess að fimm dögum síðar var hún orðin afskaplega þrekuð, bæði andlega og líkamlega, og okkur var alveg hætt að lítast á blikuna. En þá var líka ákveðið að hún færi í aðra aðgerð þar sem „gamli“ naglinn væri fjarlægður og nýr settur í staðinn. Okkur létti mikið við þetta og 30. apríl fór mamma loks í aðra aðgerð. Nú miðar henni aftur í rétta átt og er mun skárri af verkjunum, sem betur fer. Við höldum bara áfram að vona allt hið besta.  
Í dag 7. maí var svo tekin röntgenmynd sem sýnir að allt lítur vel út (amk enn sem komið er) með þessa nýju neglingu. Í framhaldinu var ákveðið að mamma hefði ekkert lengur að gera á Bæklunardeildinni, og þar sem ekki er laust pláss fyrir hana í endurhæfingu á Kristnesi, mun hún verða send aftur til Keflavíkur. Þá vitum við það ... Það var talað um að hún yrði útskrifuð héðan í kringum næstu helgi en þótti líklegra að það yrði á mánudaginn. Byrjar þá ballið aftur ... Nei ég segi svona. Það sem ég á við er að enn eitt óvissutímabilið byrjar, þ.e.a.s. ekki vitað fyrirfram hversu lengi mamma mun vera á sjúkrahúsinu, hvernig ástandið á henni verður þegar hún mun útskrifast o.s.frv. Ég er bara dauðfegin að vera ekki í vinnu, segi ekki meir... 
Jæja þetta var nú aldeilis langloka. Spurning hvort ég dett aftur í blogg-gírinn við þetta ;-)

laugardagur, 12. apríl 2014

Go with the flow

Lífið tekur stundum óvæntum breytingum, hvort sem við viljum það eða ekki. Ef satt skal segja þá kann ég yfir höfuð ekkert sérlega vel við óvæntar breytingar. Ég er hálfgerður öryggis-fíkill, vil bara hafa hlutina óbreytta og lifa lífinu inni í minni þægilegu öruggu kúlu. 
Á sama tíma veit ég að það er mun meira þroskandi að fara stundum út fyrir rammann og takast á við nýja hluti, en hin síðari ár er ég að verða algjör hræðslupúki hvað það varðar. Hvað um það, síðasta hálfa árið eða svo þá hefur lífið varpað mér inn í ýmsar nýjar aðstæður, sem mér gengur misvel að vinna úr. 
Núna síðast eru það veikindi mömmu. Alveg frá því hún datt og brotnaði hef ég fundið fyrir því hversu mikið mig langar að hafa stjórn á atburðarásinni. 
  • Ég vildi vita fyrirfram hversu lengi hún þyrfti að liggja á sjúkrahúsinu. 
  • Ég vildi að hún fyndi ekki fyrir miklum verkjum eftir aðgerðina. 
  • Ég vildi að hún sjálf væri bjartsýn á góðan bata. 
  • Ég vildi að hún myndi styrkjast jafnt og þétt.
  • Ég vildi að hún gæti séð um sig sjálf þegar Anna fer til Noregs á mánudaginn. 
  • Ég óskaði þess að henni litist vel á dagvistunina sem henni stendur til boða.
Það er skemmst frá að segja að ég hafði ekki stjórn á neinum af þessum atriðum. Auðvitað var engin leið að segja fyrir um það hve lengi mamma þurfti að vera á sjúkrahúsinu. Hún hefur verið afskaplega slæm af verkjum þessar vikur sem liðnar eru frá aðgerð. Hana skortir meiri bjartsýni á bata. Vissulega hefur hún styrkst en þetta eru svona “tvö skref áfram og eitt afturábak“. Hvorki Anna né Dísa treysta henni til að sjá um sig sjálf þegar Anna fer. Þær fóru allar að skoða dagvistun í gær en mömmu leist ekkert á sig þar. 
Þannig að eins og staðan er í dag, lítur allt úr fyrir að mamma komi norður og verði hér í 2-3 vikur, á meðan hún styrkist meira. Gamla herbergið hans Ísaks er laust, þarf bara að þrífa það og henda alls konar dóti þaðan út. Svo verður bara að koma í ljós hvernig framhaldið verður.
Ég held ég sé búin að læra mína lexíu varðandi það, að maður getur ekki stjórnað hlutum, nema þá að vissu marki. Þannig að ég verð bara að slaka á og „go with the flow“. Treysta því að allt sé eins og það á að vera og hætta öllum þessum endalausu fyrirfram áhyggjum.  

mánudagur, 31. mars 2014

Í Keflavík

Það er eiginlega frekar fyndið að ég hafði aldrei komið til Keflavíkur áður en mamma giftist Ásgrími og flutti hingað. Núna er ég farin að rata þokkalega um bæinn (OK kannski ekki sérlega flókið) og finnst þetta bara ágætis staður. Hér hefur greinilega átt sér stað heilmikil uppbygging síðustu árin /áratuginn en því miður á ennþá eftir að peppa gamla miðbæinn meira upp. Þar eru mörg húsanna orðin ansi ósjáleg og í sárri þörf fyrir endurbætur. Hins vegar er heldur betur búið að skvera þennan gamla vatnstank upp, eins og sjá má. Ég fann hann í gær þegar mig vantaði myndefni fyrir ljósmynd dagsins.

En já sem sagt... Við Valur ókum hingað suður eftir vinnu hjá honum á föstudaginn. Kíktum til mömmu um kvöldið þegar við komum, en á laugardeginum fórum við smá rúnt inn til Reykjavíkur með Andra og Freyju. Það er meiningin að kaupa úr handa Andra í útskriftargjöf og það tekur smá tíma að finna „það eina rétta“. Við stoppuðum ekki lengi í höfuðborginni því Andri átti að mæta í flug um kaffileytið. Eftir kaffi fórum við Valur svo aftur í heimsókn til mömmu en um kvöldið fórum við út að borða í Duus húsi. Í gærmorgun brunaði Valur svo aftur af stað norður, svo ekki var þetta langt stopp hjá honum en gaman samt fyrir mömmu að ná að hitta hann aðeins.  
Í dag var svo komið að útskrift hjá mömmu. Ég reyndi að sjæna íbúðina aðeins til í morgun, moppaði gólfin og þreif klósettið svo þetta yrði nú allt eins fínt og á yrði kosið þegar mamma kæmi heim. Um hálf tólf fór ég og sótti Andra sem kom með mér að sækja hana á sjúkrahúsið. Við biðum í smá stund eftir að hitta hjúkrunarfræðing en síðan fengum við hjólastól til að keyra mömmu út í bílinn. Heima á Nesvöllum beið svo Dísa og hafði fengið lánaðan hjólastól í dagvistuninni til að aka mömmu frá bílnum og upp í íbúðina. Það var ágætt að vera ekki að reyna alltof mikið á sig svona fyrsta daginn heima. Andri hjálpaði mér svo að hækka rúmið hennar mömmu upp, með því að setja dýnuna hans Ásgríms ofan á dýnuna hennar, og þá er mamma orðin eins og prinsessan á bauninni, því efst er svo eggjabakkadýna. En hún var náttúrulega búin að venjast rúminu á sjúkrahúsinu og þarf að venjast sínu rúmi uppá nýtt. Ég hringdi svo í Securitas og pantaði öryggishnapp og á von á því að maður frá þeim komi á morgun. Heimahjúkrun mun svo líka hafa samband fljótlega.  
Annars hefur þetta verið tíðindalítill dagur. Mamma náði að sofna aðeins og ég var að prjóna á meðan. Svo hringdi Anna systir á Skype og núna er ég að elda matinn. Ég reyndar klikkaði aðeins á því að mamma á ekki sama úrval af kryddum eins og við heima, svo þetta verður aðeins bragðdaufara og „öðruvísi“ spaghetti bolognese en venjulega. Já svo er ekkert spaghetti heldur ...  
Hér koma svo nokkrar svipmyndir frá laugardeginum, og ein sem Dísa tók af mér og mömmu fyrr í dag. Ég tók reyndar líka mynd af mömmu og Dísu, en brást eitthvað bogalistin í ljósmynduninni og myndin varð eiginlega ekki nógu góð til að birta hana.