miðvikudagur, 25. júní 2014

Í Keflavík enn á ný


Þegar ég skrifaði síðast um mömmu þá hafði hún farið í aðgerð 21. maí þar sem settur var gerviliður í mjöðmina á henni. Allt leit vel út,  ég fór norður viku síðar og stefnt var að því að útskrifa hana í byrjun júní. Það varð þó ekki, því hún fékk sýkingu í skurðsárið og þurfti að vera á sýklalyfjum í æð næsta hálfa mánuðinn. Síðan fékk hún sýklalyf í töfluformi en sárið vill samt ekki gróa og enn er að vessa úr því. Hins vegar var ákveðið að leyfa mömmu að fara heim og heimahjúkrun á að sjá um að skipta á sárinu hér eftir. Ég ætla að stoppa einhverja daga á meðan mamma er að ná áttum eftir þessa löngu sjúkrahúsvist. Annars standa flutningar fyrir dyrum hjá henni. Hún hafði sótt um að komast í minni íbúð eftir að Ásgrímur dó og getur nú fengið 2ja herbergja íbúð sem er hér á sömu hæð, svo það er nú hentugt. 
Anna systir kom tvisvar til Íslands með stuttu millibili. Fyrst til að heimsækja mömmu og svo til að halda uppá 35 ára stúdentsafmælið sitt ásamt öðrum skólafélögum úr MA. Þá kom hún að sjálsögðu norður og gisti hjá okkur, en þrátt fyrir mjög mikil samskipti okkar systra í tengslum við mömmu þá höfum við nánast ekkert hist á þessu ári. Ca. 15 mínútur þegar við Valur vorum á leið til Kaupmannahafnar að vera við útskrift Hrefnu í janúar, og svo tæpan sólarhring þegar Anna kom og leysti mig af eftir að mamma hafði verið útskrifuð af sjúkrahúsinu í lok mars. Þannig að það var kærkomið að ná smá systrasamveru :-) 
Svo kom Hrefna pínu óvænt í heimsókn. Hún hafði reyndar verið búin að nefna það fyrir löngu síðan en ekki getað ákveðið sig en dreif sig svo bara í síðustu viku. Hún kom norður aðfaranótt föstudags og alltaf er nú jafn gott að knúsa krakkana sína eftir aðskilnað, sama hvað þau verða gömul. Að vísu er aðeins erfiðara að komast nær henni núna enda lítill ömmustrákur á leiðinni, en hann á að koma í heiminn í byrjun ágúst. Það verður nú aldeilis gaman fyrir unga parið og alla sem að þeim standa.  
Ég hafði hugsað mér að byrja að vinna í haginn fyrir væntanlega flutninga, s.s. að fara með föt í Rauða krossinn, en hef svo bara verið með höfuðverk í allan dag og ekki nennt neinu gáfulegu. Skrapp samt aðeins á bókasafnið en komst að því að bókasafnskort frá Akureyri dugar ekki hér þrátt fyrir rafrænt kerfi (Gegni). Ekki að það breyti miklu þannig lagað. Gleymdi bara bókunum fyrir norðan sem ég ætlaði að taka með mér. Gleymdi líka prjónadótinu mínu ... Hef tölvuna og þarf auðvitað ekki meira. Áttaði mig reyndar á því að þar sem mamma hefur verið með ódýrustu nettenginguna þá höfum við gestir hennar þessa síðustu mánuði hleypt símreikningnum talsvert upp. Það borgar sig að vera með örlítið dýrari áskrift og fá 10x meira gagnamagn. Við þetta nútímafólk verðum náttúrulega að geta komist á netið ;-) 
Myndin hér að ofan sýnir mömmu borða fyrstu máltíðina eftir heimkomuna, steiktan kjúlla úr Nettó og pepsi með. Henni finnst þetta svo ljómandi góður matur :-)



Engin ummæli: