föstudagur, 19. september 2014

Föstudagsraus

Raus segi ég af því ég hef svo sem ekkert sérstakt fram að færa. Langaði bara að blogga :) Með réttu hefðum við hjónin átt að vera í Reykjavík þegar þetta er skrifað en Fröken Vefjagigt kom í veg fyrir það. Greinilega ekki búin að sleppa af mér hendinni skömmin sú atarna. Nei, eins og Valur segir, vefjagigtarsjúklingum batnar víst aldrei, þeir eiga betri daga og betri tímabil en svo kemur alltaf að skuldadögum. Og eins og hann segir líka (réttilega) þá hef ég verið eins og drusla síðan 30. ágúst en þá fór ég á árgansmót. Þannig að þetta eru orðnar þrjár vikur núna ... Ég hef reyndar verið mis-hress eða öllu heldur mis-léleg en já ekki góð!!  
Síðustu 2-3 vikurnar hef ég líka verið á fullu að leita að haustfríi fyrir okkur Val og það hefur tekið ótrúlega mikið á taugarnar. Byrjaði ósköp sakleysislega samt. Jæja, ef ég byrja alveg á byrjuninni, þá vorum við upphaflega að spá í góða ferð til "Langtíburstistan" eins og t.d. Bali eða Taílands, í tilefni þess að ég verð fimmtug núna í nóvember. Ýmissa hluta vegna hættum við samt við þær fyrirætlanir og ákváðum í staðinn að fara í styttri ferð.  
Þá kom Hrefna með þá hugmynd að við gætum samtvinnað heimsókn til þeirra við fríið okkar og flogið áfram á áfangastað frá Kaupmannahöfn. Sem er náttúrulega hin besta hugmynd því þá fær Valur að sjá bæði nýju íbúðina þeirra og það sem mikilvægara er, að hitta Erik Valdemar Egilsson, son þeirra (og já ég er orðin amma og það á eftir að verða alveg sérstök bloggfærsla um það). Alla vega, þá byrjaði nú fjörið fyrir alvöru, því ekki var það einfaldast í heimi að ákveða með áfangastað. Við vorum að spá í Dubai, Madeira og fleiri staði en flugið þangað tók yfirleitt a.m.k. sex tíma og við vorum ekki að nenna að eyða tveimur heilum dögum í ferðalög. Svo var spurning að fara þá eitthvert einfalt eins og t.d. á sólarströnd í Afríku eða Kanarí ... en nei það var bara einhvern veginn ekki að höfða til okkar. Og sumir áfangastaðir eins og t.d. Lissabon eða Istanbúl voru komnir með of mikla rigningu/kulda á þeim tíma sem við vorum að hugsa um. 
Þannig að ég hélt áfram að hanga á netinu í tíma og ótíma til að skoða þetta og á endanum komst niðurstaða í málið. Við ætlum að fljúga til Malaga á Spáni og taka þar bílaleigubíl og keyra upp í fjöllin í Andalúsíu. Þar erum við búin að panta gistingu í 9 nætur í litlum póstkorta-fallegum bæ sem heitir Gaucin. Bærinn er nálægt öðrum bæ sem heitir Ronda og er samkvæmt Hrund (bróðurdóttur Vals sem bjó á Spáni í nokkur ár og fer þangað stundum sem fararstjóri) mjög skemmtilegur. Það var reyndar henni að þakka að ég pantaði íbúð á þessu svæði og við erum orðin mjög spennt að fara :-) 
Jamm og jæja, þetta föstudagsraus varð bara býsna langt hjá mér, og ég held ég láti gott heita. Þá er bara að finna einhverja fallega mynd til að láta fylgja þessum pistli ... 

5 ummæli:

Kristín Björk sagði...

Spennandi ferðalag framundan, njóttu vel :) Veistu til þess að það sé starfandi einhver vefjagigtarhópur á Akureyri? ( sem hittist og spjallar)

Anna sagði...

Já mér líst mjög vel á þessi ferðaplön!! :-) Anna systir

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Nei Kristín Björk, ég veit ekki til þess. Það væri kannski ráð að spyrja hana Eydísi Valgarðsdóttur hvort hún viti um einhvern hóp, hún er það mikið inni í þessu. Og takk takk :)

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Já er það ekki bara, þetta hafðist fyrir rest :)

Mariusz sagði...

Interesting photos, your blog is about your world!
Photos watch with pleasure,
Happy New Year !!!