Stutt stopp á Akureyri
Ég, sem varla fór til Reykjavíkur nema einu sinni á ári, er að verða hálfgerður landshornaflakkari. Frekar fyndið eiginlega. En já auðvitað kemur það ekki til af góðu eins og flestir vita.
Mamma var sem sagt útskrifuð sl. þriðjudag. Hún er nú ósköp þreklítil orðin eftir allar þessar hremmingar og fannst áskorun að aðlagast aftur lífinu heima. Hún var mjög glöð að vera komin heim í rólegheitin í sinni íbúð, en á sama tíma þá var margt sem hún þurfti nánast að læra uppá nýtt, svo þetta tók á. Eins eru hömlur á því hvað hún má gera með tilliti til gerviliðarins, og þarf hún s.s. að nota griptöng til að sækja hluti sem detta í gólfið, nota sessu þegar hún situr og má ekki beygja mjaðmirnar meira en 90° svo dæmi séu nefnd, þannig að það er ýmislegt sem hafa þarf í huga.
Ég stoppaði hjá henni þar til í gærmorgun og ég verð að viðurkenna að það var með hálfum huga sem ég fór þaðan. En hún verður að fá að prófa að pluma sig sjálf og á meðan ég er þarna þá er hætt við því að ég „þjóni“ henni of mikið í stað þess að láta á það reyna hvort hún getur gert hlutina. Hún var nú að sjóða sér hafragraut og það gekk bærilega. Svo fór ég og verslaði inn helling af mat svo hún yrði ekki matarlaus næstu vikuna.
Um næstu helgi förum við Valur saman suður og þá á að hjálpa mömmu að flytja milli íbúða. Hún fékk minni (og örlítið ódýrari) íbúð á sömu hæð og það er nú mikill kostur að geta flutt svona stutt. Hugsanlega förum við Valur með hjólhýsið með okkur suður á bóginn og blöndum saman flutningum og sumarfríi (hjá honum, ég er náttúrulega í eilífðarfríi eins og er). Það yrði mjög gaman :)
Nú er ég hins vegar í smá þreytukasti, sem birtist aðallega í hávaðaóþoli og viðkvæmni fyrir áreiti. Það er pínu fyndið hvað þreytan hefur ólíkar birtingarmyndir og t.d. hávaðaóþolið var orðið mikið betra hjá mér undanfarið, svo það er erfitt þegar það skellur á aftur af fullum þunga.
OK þetta var bara smá stöðu-uppfærsla. Eins og sjá má þá snýst lífið mikið í kringum mömmu þessa dagana en vonandi hennar vegna fer þetta allt að komast á rétt ról aftur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli