fimmtudagur, 11. desember 2014

Hefur skammdegið náð í skottið á mér?

Úff ég er allt í einu orðin svo óskaplega þreytt og þung á mér ... Nenni engu og langar mest að liggja áfram í rúminu á morgnana. Þetta er kunnuglegt ástand og tengist líklega myrkrinu. Ég hef náttúrulega ekki verið nógu dugleg að sitja við dagsbirtulampann eða fara út að ganga þegar bjart er úti. Kosturinn er þó sá að ég veit hvað ég þarf að gera ... svo er bara spurningin um framkvæmdina. 
Ég reyni samt yfirleitt að drífa mig í sund um áttaleytið á morgnana, og gerði það í morgun eftir að hafa mokað aðeins af bílaplaninu svo jeppinn kæmist þaðan út. Það var nú reyndar frekar fyndið að vera í sundinu því ég var eina konan í búningsklefa kvenna og þegar ég svo kom út í laug var bara einn karlmaður að synda þar. Einn var í heita pottinum og annar að synda í hinni lauginni. Já og svo sá ég einn sem var að fara þegar ég kom. Þannig að í voru fjórir aðrir en ég í sundi. En það var nú reyndar sérstakt ástand því bærinn hafði verið ófær í nótt og í morgun og skólahald féll niður í grunnskólum. Hins vegar var búið að moka aðalgötur þegar ég fór í sundið um hálf níuleytið, svo ég átti ekki í neinum vandræðum með að komast þangað. 
Svo spjallaði ég aðeins við Hrefnu og Erik á Skype en það eru pínulítið fyndin samtöl því hann vill helst ná í tölvuna og skilur auðvitað ekkert í því af hverju hann má það ekki. Í dag leyfði mamma hans honum að koma nær og þá datt stærðar slef-slumma niður á lyklaborðið, hehe ;-) 
Á mánudaginn koma þau svo til Íslands í 3ja vikna langt jólafrí. Að vísu munu þau stoppa í tvær nætur fyrir sunnan að heimsækja vini og ættingja áður en þau koma norður. Þannig að 17. des koma þau til Akureyrar og síðan koma Andri og Freyja frá Keflavík 19. des. og þá verður nú aldeilis líf og fjör í Vinaminni.
Eins og sjá má á myndinni hér að ofan var engin skammdegisþreyta í mér þegar ég skrapp til Danmerkur um daginn. Mikið sem ég hlakka til að knúsa þennan litla gaur aftur í næstu viku. 

2 ummæli:

Elín Kjartansdóttir sagði...

Bráðfallegt og glaðlegt barn.

Mirabili Vestium sagði...

Adooooooorable!!!!:)))