Það eru endalausar áskoranir um allt mögulegt sem ganga á facebook þessa dagana. Það þýðir ekki að skora á mig með neitt svoleiðis - en ég er hins vegar að spá í að skora á sjálfa mig að blogga einu sinni á dag í 10 daga. Hvernig lýst fólki á það? Einhverra hluta vegna hef ég nánast dregið sjálfa mig inn í einhverja skel síðan mamma datt og brotnaði, veit ekki hvers vegna, og ein afleiðing þess er að ég er nánast hætt að blogga. Reyndar hef ég haldið áfram að taka mynd á dag og birta á
blippinu/ljósmyndadagbókinni svo ég er ekki alveg dauð úr öllum æðum. En ljósmyndaklúbburinn minn er að fara að halda sýningu og ég er með mynd en hef ekki tekið neinn þátt í undirbúningnum ... og er með smá móral vegna þess. Ekki hef ég hitt konuklúbbinn minn heillengi og nánast engar vinkonur heldur. En jæja nóg um það.
Hvað mömmu varðar þá voru erfiðleikar hennar því miður ekki á enda eftir aðgerðina sem gerð var á FSA. Við komum suður á mánudegi 12. maí og þar sem ég hafði fengið þá skyndihugdettu að heimsækja Hrefnu dóttur mína í Köben skrapp ég þangað og var frá 13. - 16. maí. Það var reyndar mjög gaman að kíkja aðeins á unga parið í nýju íbúðinni og sjá Hrefnu með kúlu (ég á von á ömmustrák í heiminn 6. ágúst ;-) Svo kom ég á sjúkrahúsið að heimsækja mömmu á laugardeginum og fékk þá að vita að röntgenmynd sýndi að ekki væri í lagi með neglingu nr. 2 og því væri ekki um annað að ræða en fara í þriðju aðgerðina og í þetta sinn að setja gervilið í mjöðmina. Úff! Ég hafði ætlað að stoppa yfir helgina og fara svo norður en þetta kollvarpaði þeim áformum.
Mamma fór svo í aðgerð miðvikudaginn 21. maí og fyrstu dagarnir á eftir voru nokkuð erfiðir ýmissa hluta vegna. Valur kom reyndar suður á fimmtudeginum og ég var voða glöð að fá að hafa hann yfir helgina. Svo þegar hann var farinn þá reyndar vaknaði ég í morgun og var eiginlega ekki að nenna að vera lengur hér í Keflavík, enda búin að vera tvær vikur í burtu. Vildi samt ekki panta flug fyrr en ég sæi hvort mamma væri ekki örugglega á réttri leið, og það sá ég svo sannarlega þegar ég heimsótti hana í dag. Hún gekk eins og herforingi eftir ganginum, bein í baki og tók stór skref. Enda eins loksins orðin verkjalaus eftir allar þessar vikur með verki (frá 5. mars til ca. 23 maí). Hún var reyndar mun skárri af verkjunum eftir aðgerðina fyrir norðan, en ekki laus við þá. Þetta er þvílíkur munur fyrir hana. Nú þarf bara að þjálfa upp þrek og styrk að nýju, og vonandi nær hún að komast aftur heim í sína íbúð og lífið kemst í samt lag aftur. Allir þessir verkir og verkjalyf hafa hins vegar haft mikil áhrif á hana og ekki undarlegt að það taki smá tíma að jafna sig.
Annars ætlaði ég að vera svo dugleg að gera allt mögulegt þennan tíma sem ég væri ein hér í Keflavík en hef ekki gert neitt af því. Var búin að skrá mig á námskeið á netinu (tja tvö námskeið meira að segja) og hélt ég hefði nægan tíma til að sinna þeim, sem ég hef jú, en það dugar ekki til. Að vísu var ég nokkuð dugleg að fara út að ganga og eins að fara í sund í síðustu viku. Já og það er kannski stærsta afrekið hingað til, ég er loks búin að ná upp aðeins betra sundþreki og er farin að synda 20 ferðir, eða 500 metra. Hef ekki synt þetta langt í einhver ár. Þetta hafa verið frá 6 upp í 16 ferðir fram að þessu, svo ég er bara nokkuð ánægð með mig :)
4 ummæli:
Ég ætlaði að segja í gær, að auðvitað tekurðu þessari áskorun frá sjálfri þér!! Hef einmitt saknað þess að lesa bloggið þitt þótt við höfum verið í nánast daglegu sambandi upp á síðkastið ! :-)
Gott að heyra, bæði af mömmunni og þrekinu.
Mér sem fannst þetta svo fín áskorun hjá þér, en svo er bara komin ein færsla síðan þú skrifaðir þessa.
Já uss, klikkaði alveg á þessu ... veit ekki hvað er eiginlega í gangi með mig og bloggið. Og ég sem á 10 ára bloggafmæli síðar í ár, verð nú að herða mig!
Skrifa ummæli