laugardagur, 9. nóvember 2013

Vetrarsól, þreyta, streita og slökunarviðbragðið


Veturinn hefur aldrei verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér en það hefur samt mikið lagast eftir að ljósmyndun varð áhugamál hjá mér. Það er pínulítið eins og að eiga hund (gæti ég ímyndað mér), að því leyti að það verður aukinn hvati að því að fara út og hreyfa sig í leiðinni. Stundum er ég drulluþreytt og nenni engu, en ef ég sé að veðrið úti býður upp á tækifæri til ljósmyndunar, þá drattast ég af stað með myndavélina. Þreytt í fyrstu en gleymi svo stund og stað og næ að njóta þess að lifa í augnablikinu. Þegar það gerist næ ég góðri slökun og það er svo hollt og gott eins og allir vita. Sérstaklega þegar streita er að fara illa með fólk þá er svo mikilvægt að ná þessari djúpu slökun. Ég las einhvers staðar að það væri forsenda þess að líkaminn gæti náð að slökkva á streitu-viðbragðinu (fight og flight response) og byggja sig upp þegar þörf er á (vegna álags, sjúkdóma etc.). Dr. Herbert Benson setti fram hugtakið „relaxation response“ til að lýsa því hvernig hægt er að vinna gegn streitu með slökun. Lissa Rankin, höfundur bókarinnar Mind over medicine, tekur undir með Dr. Herbert Benson og skv. henni hjálpa eftirfarandi athafnir við að virkja þetta slökunarviðbragð:
 • Hlátur
 • Að leika sér við dýr
 • Hugleiðsla
 • Dans
 • Að vera örlát/ur á tíma sinn eða gefa gjafir
 • Nudd
 • Að gera eitthvað skapandi
 • Viðhafa þakklæti (practicing gratitude)
 • Snerting
 • Óhefðbundnar lækningar
 • Hlusta á tónlist
Málið er að samkvæmt Lissu, þá erum við sífellt að framkalla streituviðbrögð í líkamanum. Til þess að lifa af þá er nauðsynlegt að líkaminn bregðist fljótt og örugglega við hættuástandi, sem og hann gerir, án þess að við fáum nokkru um það ráðið. Hér áður fyrr var gerðist það hins vegar mun sjaldnar (eða svo telja menn) og fólk náði fljótt fyrri ró. Hins vegar hafa nútíma lifnaðarhættir gert það að verkum að við erum oft í stöðugu streituástandi og náum ekki að róa okkur niður. Segjum t.d. að þú vaknir of seint að morgni, missir af strætó, komir of seint í vinnuna, hellir kaffi niður á þig, yfirmaðurinn skammar þig fyrir að vera ekki búin að skila skýrslu ... o.s.frv. Svo þegar þú kemur heim þá taka heimilisstörfin við, þú horfir á sjónvarpsfréttir sem skýra frá því að heimurinn sé á heljarþröm ... Já ég læt staðar numið hér. 

En málið er, að við getum hjálpað heilanum okkar að skilja á milli þess hvenær streita er réttlætanleg/nauðsynleg og hvenær ekki. Ég t.d. prófaði aðferð sem Lissa mælir með núna nýlega. Þannig var að ég var á leið í vinnuna og hugurinn var kominn eitthvert allt annað heldur en hann átti að vera. Athyglin var sem sagt ekki lengur á akstrinum en það breyttist skyndilega þegar ég var komin alltof nálægt bílnum fyrir framan mig, sem hafði hægt ferðina til að beygja. Og af því mér brá svo mikið við að uppgötva þetta, þá sá ég ekki að bíllinn gaf stefnuljós til vinstri, en gerði ósjálfrátt ráð fyrir því að hann ætlaði til hægri. Ákvað að fara yfir á vinstri vegarhelming (til að komast fram úr bílnum) en á sama tíma byrjaði hann jú að beygja til vinstri og ég sá að ég yrði að færa mig yfir á hægri vegarhelming ef ég ætlaði ekki að lenda í hliðinni á honum. Það var fljúgandi hálka þegar þetta var og í smá stund hélt ég að allt færi í klessu. En þökk sé stöðugleikakerfinu í bílnum okkar þá tókst mér að sveigja aftur yfir á hægri vegarhelming og forðast árekstur. 

Streituviðbragðið fór á fullt hjá mér og mér leist ekkert á að byrja vinnudaginn svona stressuð. Þannig að ég fór markvisst í að láta heilann á mér vita að þetta væri allt í lagi. Andaði djúpt nokkrum sinnum og blés hægt frá mér aftur. Talaði við sjálfa mig (í hljóði ;) og sagði að þetta væri allt í lagi. Vissulega hefði hurð skollið nærri hælum en allt hefði endað vel og ég gæti bara verið þakklát fyrir það. Nú ætlaði ég ekki að hugsa um þetta meira í bili. Og þetta tókst! Ég fann hvernig það slaknaði á öllum vöðvum og þegar ég var komin í vinnuna var ég ekkert að hugsa um þetta meira.  

Lissa talar líka um það í bók sinni að það sé mikilvægt fyrir lækna að róa sjúklingana sína niður eftir að hafa fært þeim slæmar fréttir (koma t.d. með eitthvað jákvætt o.s.frv.), til þess að vinna markvisst með það að draga úr streituviðbragðinu og auðvelda líkamanum þannig að heila sjálfan sig.

En já nú læt ég þetta gott heita ... Ég sem ætlaði bara að skrifa örlítið um hollustu þess að fara út í sólina/birtuna á köldum vetrardegi :-)

P.S. Ég gleymdi mér alveg í þessu tali um streitu- og slökunarviðbragð en ætlaði að minnast á það að við Valur fórum út að ganga í morgun. Ég sem sagt drattaðist út þrátt fyrir þreytu, og það var svo yndislegt að fara aðeins út í sólina þrátt fyrir 12 stiga frost. Myndirnar hér að ofan eru sem sagt teknar við Naustaborgir, hér í útjaðri Akureyrar.

4 ummæli:

HH sagði...

Enn einu sinni gagnlegar hugleiðingar; það mundi hjálpa mörgum að fara eftir, þótt ekki væri nema sumu, er þú nefnir hér og áður og er ég þar ekki undan skilinn...........
HH

Fríða sagði...

Það mætti nú líka nefna það sem fight/flight response er í rauninni búið til fyrir, þ.e. hreyfingu. Mikla hreyfingu í stuttan tíma. Þannig að maður mæðist.

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Já einmitt Fríða, góður punktur!

Guðný Pálína Sæmundsdóttir sagði...

Já svo er bara málið að muna að fara eftir þessu, hehe ;)