Ég heyrði nýtt orð í sundi í morgun. Þannig var að þegar ég kom að búningsklefanum tók ég eftir því að það voru óvenju fáir skór í skóhillunni (og það sem meira var, allir svartir, mínir þar með taldir, en það er nú önnur saga). Þegar ég kom svo inn í búningsklefann var þar fyrir ein önnur kona og eftir að hafa boðið góðan daginn, nefndi ég hve fáir væru í sundi í dag.
„Já, sagði hún, en það kom samt ekki í veg fyrir að einhver tæki skápinn minn, einhver skápadólgur.“Ég hváði, enda hafði ég aldrei heyrt þetta orð áður. Hún sagðist hafa heyrt þetta í sumar og fannst tilvalið að nota það í dag, þar sem hún fékk ekki skápinn „sinn“. Svo hlógum við báðar, enda ekki annað hægt.
Þetta með að eiga skápana í sundlauginni er auðvitað bara fyndið, en það verður ósjálfrátt þannig að þegar maður kemur í sund á hverjum degi (tja eða næstum því ...) þá eignar maður sér ákveðinn skáp. Í mínu tilfelli þá var það nú aðallega vegna tillitssemi við aðrar konur (eða ég tel sjálfri mér a.m.k. trú um það). Á sínum tíma þegar ég byrjaði að synda þá var ég alltaf óvart að fara í skáp sem einhver önnur kona átti og fékk nú stundum að heyra það. Eftir nokkurn tíma var ég búin að kortleggja skápana og eigendur þeirra, og fann lausan skáp þar sem ég var ekki að troða neinum um tær. Hann er alla vega laus á þeim tíma sem ég syndi yfirleitt. Ég veit um konu sem mætir yfirleitt um sjöleytið á morgnana og notar sama skáp, en hún er alltaf farin þegar ég kem. Síðan gerist það stundum um helgar eða á sumrin að við mætum á sama eða svipuðum tíma og þá eru slagsmál um skápinn ... hehe nei nei, ég er að grínast.
Mér er nú nokk sama þó ég fái ekki akkúrat minn skáp, en held mig þá reyndar yfirleitt svona nokkurn veginn á sama svæðinu. Ég er nefnilega hornamanneskja (eins og í blakinu) og finnst ekkert þægilegt að vera í skáparöðinni miðri. En það er fræg saga af manni sem átti heima nálægt sundlauginni hér áður fyrr, og mætti víst stundum á morgunsloppnum í sund, hann átti það til að fara bara heim aftur ef skápurinn hans var ekki laus;-)
Annars á ég afmæli í dag. Ég hef einhvern veginn ekki vanist á það að gera mikið úr afmælinu mínu, en verandi á facebook þá fæ ég alla vega margar kveðjur. Það er eingöngu letinni í sjálfri mér að kenna að ég geri ekki meira úr afmælisdeginum. Nenni ekki að baka og stússast. Og af því ég baka ekki þá býð ég engum í kaffi. Hér áður fyrr fannst mér stundum leiðinlegt ef það var of lítið að gerast á afmælisdeginum mínum, en í dag er ég alveg sátt við það. Finnst bara gaman ef fólk man eftir að senda mér kveðju en ætlast ekki til neins meira. Kannski fer ég einhvern tímann seinna að vera duglegri að gera mér dagamun en þetta er bara í góðu lagi svona núna. Sko, þarna hringdi einmitt ein vinkona mín og það var nú aldeilis gaman :)
P.S. Myndin tengist umfjöllunarefni dagsins ekki beint ... a.m.k. ekki skápadólgnum ...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli