Valur notar mikið samlíkingar til að leggja áherslu á það sem hann er að segja. Stundum kemst hann nokkuð vel að orði, eins og t.d. í dag þegar við vorum að tala saman. Ég var að segja honum hvað næstu tveir mánuðir í vinnunni vaxa mér í augum, enda ein allsherjar vinnutörn framundan, og ég ekki með fullt vinnuþrek. Í dag var ég þar að auki þreytt eftir fimm daga í Dublin + fimm daga vinnu eftir að við komum heim. Valur var að reyna að setja sig í mín spor, og sagði að þetta væri ábyggilega eins og að vera bensínlaus í eyðimörk. Og já þetta er líklega ekki ósvipað. Að þurfa að komast á leiðarenda en vera með tóman tank og engin bensínstöð í nágrenninu. Ég er líka orðin dálítið brennd af þeirri staðreynd að það tekur mig 6-8 mánuði að jafna mig eftir jólatörnina, eða hefur a.m.k. gert það síðustu árin. Það má samt vona að í ár verði ástandið betra á frúnni ;-)
Annars er ég búin að átta mig á því að þegar ég er þreytt þá verð ég kvíðin. Og þreytt og kvíðin manneskja sér hlutina ekki alltaf í réttu ljósi. Engu að síður þá er smá ljós í myrkrinu:
- Ég sef betur á nóttunni síðan við fengum okkur Earthing lakið í rúmið
- Ég fæ mun sjaldnar svima núna en ég gerði á tímabili
- Ég fæ sjaldnar hjartsláttaróreglu/þungan hjartslátt
- Ég lifði af 5 daga borgarferð til Dublin og er ekki dottin í þreytu-breakdown
- Ég get unnið í bókhaldinu jafnt og þétt, svo það verði ekki jafn mikið álag á mér í kringum 5. desember (þá eru virðisaukaskil)
- Ég get verið duglegri að hugleiða (finn að það gerir mér gott)
- Ég get hreyft mig (farið í leikfimi, út að ganga, synt)
- Ég get farið út með myndavélina (hefur góð áhrif á mig)
- Ég gæti jafnvel fitjað uppá einhverju á prjónana (finnst róandi að prjóna)
- Við gætum keypt jólagjafirnar tímanlega (hehe á nú eftir að sjá það)
Annars er þessi jólatörn í vinnunni hjá mér líka mikill álagstími hjá Val, bæði af því hann þarf að gera nánast allt hér heima, en einnig vegna þess að honum finnst svo erfitt að horfa uppá mig örmagna af þreytu. Þannig að ég vona bara að okkur takist báðum að halda haus, njóta þess að vera til og gera eitthvað skemmtilegt líka þessa næstu tvo mánuði :-)
P.S. Bara svo það sé nú alveg á hreinu þá er ég ekki að gleyma henni Sunnu þegar ég tala svona mikið um sjálfa mig í tengslum við jólatörnina í búðinni. Fókusinn er bara á mig af því ég er á mörkunum að ráða við þetta, þrátt fyrir að við séum tvær sem deilum með okkur vinnunni og höfum þar að auki fleira starfsfólk okkur til aðstoðar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli