Þá er enn einn -langar að gera eitthvað en er of þreytt- laugardagurinn runninn upp. Áður en ég væli meira þá get ég hins vegar glaðst yfir því að í raun átti ég að vera að vinna í dag, en skipti við Önnu af því hún bað mig um það. Það þýðir reyndar að þá mun ég vinna 6 daga í röð næstu vinnuviku og fá bara einn frídag ... sem er ekki nóg fyrir mig. En koma tímar koma ráð, ég gæti hugsanlega fengið aðra „helgar-stelpuna“ til að vinna fyrir mig einn eftirmiðdag. Sé til hvernig staðan verður á mér. Ég skil samt eiginlega ekki af hverju ég er svona óskaplega þreytt í dag. Var í fríi á miðvikudaginn og gerði nánast ekkert annað en hvíla mig þann dag. Á miðvikudagskvöldinu var ég samt ógurlega þreytt og mér hefur einhvern veginn ekki tekist að hrista þá þreytu af mér enn. Það var að vísu brjálað að gera í vinnunni í gær, aðallega við að afgreiða viðskiptavini en svo vorum við líka að klára að taka upp vörur. Ég komst hvorki í að borða né fara á klósettið allan tímann sem ég var í vinnunni og það var eins með Sunnu veit ég, enda fór hún ekki heim fyrr en kl. 17 í stað 15/16 eins og vanalega. Það er samt gaman og gott að hafa nóg að gera, manni leiðist þá ekki á meðan ;-)
Annars er ég búin að gera mér lista yfir hluti sem ég veit að gera mér gott, og markmiðið er að gera a.m.k. eitt atriði á listanum á hverjum degi. Þetta er hugsað sem varnarleikur hjá mér núna í jólavertíðinni í búðinni. Það er ótrúlega fyndið, en bara það að skrifa þessi atriði niður, gerir það að verkum að ég verð meðvitaðri um þau og stend mig betur í að framkvæma þau. Svona er listinn minn:
- Nota dagsbirtulampann
- Gera mér grænan hristing
- Dvelja við jákvæð augnablik
- Fara út að ganga
- Nota frauð-rúlluna (geri t.d. þessa æfingu hér f. hálsinn)
- Skrifa „My morning pages“ - helst á hverjum degi
- Vera þakklát fyrir það sem ég hef
- Sýna sjálfri mér væntumþykju og skilning (self-compassion)
- Taka ljósmyndir
- Skrifa eitthvað, t.d. blogga eða skrifa smásögur
- Fara í nudd / höfuðbeina- og spjaldhryggjarjöfnun eða eitthvað álíka
- Borða mat sem fer vel í mig og gefur mér orku
- Nota Lumosity forritið til að þjálfa heilann
- Hugleiða / slaka á
Það væri ábyggilega auðvelt að setja fleiri atriði á listann en svona lítur hann út í dag. Ég hef verið misdugleg að framkvæma þessi atriði, hef t.d. ekki gert mér einn einasta græna hristing og ekki farið í Lumosity langa lengi. Held ég hafi gert mest af því að fara út með myndavélina og finn hvað það gerir mér rosalega gott þessa dimmu vetrardaga, ef ég bara kemst aðeins út þegar bjart er. Svo er birtan alveg hreint dásamlega falleg og síbreytileg, eins og sjá má á þessari myndasamsetningu hér að ofan. Neðri myndina tók ég í gær kl. 10:57 en þá efri í dag kl. 10:54. Í gær var mistur og dulúð lá í loftinu, en í dag var tærleiki og kraftur. Myndirnar tók ég úti við Krossanes. Þar er gott útsýni til Kaldbaks í norðri og vá hvað hlýtur að vera gaman að búa þar sem maður hefur þetta stórbrotna útsýni. Tja það er a.m.k. stórbrotið í aðra áttina ... ekki eins spennandi að horfa á Becromal verksmiðjuna þarna rétt neðan og sunnan við ...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli