miðvikudagur, 6. nóvember 2013

Það er stuð á mér núna ...


Ég var reyndar búin að skrifa aðra fyrirsögn - þar sem orðið „andlaus“ kom fyrir en ákvað þá að gera smá könnun. Sló orðinu andlaus inn í leitardálkinn hérna uppi til vinstri á síðunni, og komst að því að þetta orð kemur fyrir í samtals 19 bloggfærslum. Sem er kannski ekki stórt hlutfall þegar haft er í huga að ég hef skrifað 1570 færslur í allt. En ég ákvað að taka út þessa andleysis-fyrirsögn engu að síður.

Það er svona ástand á mér þar sem ekkert er í rauninni að (nema það að ég er lúin og leið) og í sjálfu sér engin ástæða til að vera eitthvað niðurdregin. Sem ég er reyndar ekki beint ... hehe flókið mál ha? Þess vegna finnst mér andleysi svo gott orð, það nær yfir þessa óáþreifanlegu tilfinningu þar sem maður er einhvern veginn ekki nægur sjálfum sér, án þess þó að geta bent á neina sérstaka ástæðu fyrir því.

Hins vegar get ég alveg fundið ástæður fyrir því að ég ætti að vera glöð og í góðu skapi:
  1. Ég fór út með myndavélina í gærmorgun. Það var frost en virkilega fallegt veður og ég átti voða góða stund með sjálfri mér og myndavélinni. Myndin hér að ofan er tekin við Eyjafjarðará.
  2. Ég var í fríi í dag (hehe var varla búin að skrifa þetta þegar ég mundi að ég var reyndar að vinna í bókhaldi í rúman klukkutíma hér heima í morgun).
  3. Ég fór í klippingu og litun til Ernu, hárgreiðslukonu og vinkonu minnar. Það er alltaf jafn notalegt að koma til hennar því þetta er lítil stofa og við spjöllum svo mikið saman. Að vísu er ég reyndar að verða hundleið á því að lita á mér hárið. Er í fúlustu alvöru að hugsa um að prófa að leyfa gráa hárinu að njóta sín næsta sumar. Nú ef mér líst ekkert á, þá get ég bara byrjað aftur að lita það.
  4. Ég spjallaði við Hrefnu á Skype í dag. Það er alltaf svo gaman að heyra í henni og nú styttist í að hún klári læknisfræðina. Nánar tiltekið í lok janúar á næsta ári. Þá hefst nýr kafli í hennar lífi, kandídatsárið.
  5. Andri og Freyja kærastan hans ætla að koma norður um helgina. Það verður voða gaman að fá þau í heimsókn, enda höfum við ekki séð Andra síðan í ágúst. Blindflugs-námið hefur farið seint af stað hjá honum en vonandi kemst hann á fullt núna og getur klárað það á réttum tíma. Svo er hann jafnvel að spá í að bæta við sig flugkennara-námi en það kemur bara í ljós.
  6. Valur eldaði ljúffengan kvöldmat (eins og alltaf) og ég sit hér pakksödd, enda búin að borða alltof mikið. 
Og nú man ég ekki eftir fleiru. Held ég segi þetta bara gott í bili. Verð vonandi hress og kát næst ;-)

Engin ummæli: