Ég hef verið að reyna að skrifa „morning pages“ undanfarið en markmiðið með þeim er að losa sig við alls konar „rusl“ sem fyllir hugann og kemur í veg fyrir að fólk nái að einbeita sér að verkefnum dagsins. Það var Julia Cameron sem setti fram hugmyndina um að skrifa morgunblaðsíður í bók sinni "The artist's way" en bókin sú á að vera leiðarvísir fyrir fólk sem vill örva sköpunargáfuna skilst mér. Ég hef ekki lesið bókina, las bara umfjöllun um morgublaðsíður einhvers staðar og fannst þetta sniðug hugmynd. Að byrja daginn á því að hreinsa hugann af öllu því sem er að angra mann. Það geta verið litlir hlutir, stórir hlutir, eitthvað mikilvægt eða bara einfaldlega hugsanir um allt sem liggur fyrir þann daginn eða vikuna. Markmiðið er bara að skrifa viðstöðulaust án þess að gagnrýna, án þess að velta því of mikið fyrir sér. Eins og ég sagði þá fannst mér þetta góð hugmynd og ákvað að prófa. Fór og keypti mér skrifblokk því Julia leggur áherslu á að það eigi að handskrifa þessar þrjár blaðsíður. Og já þær eiga að vera nákvæmlega þrjár. Sem sagt, handskrifa þrjár blaðsíður, og ef þér dettur ekkert í hug þá skrifar þú bara „mér dettur ekkert í hug“ alveg þar til einhver önnur hugsun kemur í kollinn á þér. Þegar þrjár blaðsíður eru komnar þá lokar þú blokkinni án þess að lesa yfir það sem þú hefur skrifað. Ég er ekki frá því að þetta sé bara ansi sniðugt, og bætist þar í hóp ótal margra annarra sem hafa vanið sig á að byrja daginn á þessu. Hm.. já eða þannig, myndi kannski ekki segja að þetta væri orðinn vani hjá mér ennþá. Og það sem stendur í veginum fyrir því er hægri hendin á mér en hún vill ekki taka þátt í handskrift þessa dagana. Ég reyndar hef þá skrifað á bilinu 1-3 bls. en ákvað að hvíla hendina í dag og blogga í staðinn.
Og núna hringdi Hrefna í mig á Skype. Hún hafði aldeilis átt ævintýralegan morgunn, svo vægt sé til orða tekið. Á dagskrá dagsins hjá henni var munnlegt próf í læknisfræði. Prófstaðurinn er langt í burtu frá heimili hennar og þegar hún kom á staðinn, uppgötvaði hún að hún hafði gleymt stúdentaskírteininu sínu heima. Það er ekki leyfilegt að taka próf án þess að sýna skírteinið en starfsfólk á prófstaðnum ræddi samt sín á milli í töluverðan tíma og höfðu hug á að hleypa henni í prófið, þar til ákvörðun var tekin um að hún yrði að vera með skírteinið til að hafa próftökurétt. Henni var sagt að ef henni tækist að sækja það og koma aftur innan þess tíma sem prófin stæðu, og ef einhver myndi ekki mæta, þá gæti hún fengið að taka prófið. Hún fór því aftur heim, og þurfti að taka bæði lest og strætó og hlaupa og svo aftur að hlaupa og síðan taka leigubíl og var komin á prófstað rétt áður en próftímanum lauk. Þá var hún svo heppin að einhver stelpa hafði ekki mætt og hún fékk plássið hennar og gat tekið prófið. Ég er mjög stolt af henni, því henni tókst að halda haus í gegnum allt þetta stress og fékk meira að segja mjög góða einkunn í prófinu.
En já nú þýðir víst ekki að drolla lengur, það er langur dagur framundan hjá mér. Miðnæturopnun á Glerártorgi (opið í dag frá 10-24) og ég byrja að vinna kl. 14. Kemst nú vonandi eitthvað heim um kvöldmatarleytið samt, enda 10 tíma vinnudagur ekki efst á lista yfir það sem er gáfulegt fyrir mig að gera. Vonandi samt verður nóg að gera og við í Pottum og prikum verðum með 10% afslátt af öllum vörum og fullt af öðrum góðum tilboðum í gangi. Sem sagt... kominn tími til að standa upp, fara í sturtu og kannski stuttan göngutúr, fá sér að borða og svo í vinnuna!