fimmtudagur, 28. nóvember 2013

Morgunblogg og miðnæturopnun


Ég hef verið að reyna að skrifa „morning pages“ undanfarið en markmiðið með þeim er að losa sig við alls konar „rusl“ sem fyllir hugann og kemur í veg fyrir að fólk nái að einbeita sér að verkefnum dagsins. Það var Julia Cameron sem setti fram hugmyndina um að skrifa morgunblaðsíður í bók sinni "The artist's way" en bókin sú á að vera leiðarvísir fyrir fólk sem vill örva sköpunargáfuna skilst mér. Ég hef ekki lesið bókina, las bara umfjöllun um morgublaðsíður einhvers staðar og fannst þetta sniðug hugmynd. Að byrja daginn á því að hreinsa hugann af öllu því sem er að angra mann. Það geta verið litlir hlutir, stórir hlutir, eitthvað mikilvægt eða bara einfaldlega hugsanir um allt sem liggur fyrir þann daginn eða vikuna. Markmiðið er bara að skrifa viðstöðulaust án þess að gagnrýna, án þess að velta því of mikið fyrir sér.  Eins og ég sagði þá fannst mér þetta góð hugmynd og ákvað að prófa. Fór og keypti mér skrifblokk því Julia leggur áherslu á að það eigi að handskrifa þessar þrjár blaðsíður. Og já þær eiga að vera nákvæmlega þrjár. Sem sagt, handskrifa þrjár blaðsíður, og ef þér dettur ekkert í hug þá skrifar þú bara „mér dettur ekkert í hug“ alveg þar til einhver önnur hugsun kemur í kollinn á þér. Þegar þrjár blaðsíður eru komnar þá lokar þú blokkinni án þess að lesa yfir það sem þú hefur skrifað. Ég er ekki frá því að þetta sé bara ansi sniðugt, og bætist þar í hóp ótal margra annarra sem hafa vanið sig á að byrja daginn á þessu. Hm.. já eða þannig, myndi kannski ekki segja að þetta væri orðinn vani hjá mér ennþá. Og það sem stendur í veginum fyrir því er hægri hendin á mér en hún vill ekki taka þátt í handskrift þessa dagana. Ég reyndar hef þá skrifað á bilinu 1-3 bls. en ákvað að hvíla hendina í dag og blogga í staðinn.

Og núna hringdi Hrefna í mig á Skype. Hún hafði aldeilis átt ævintýralegan morgunn, svo vægt sé til orða tekið. Á dagskrá dagsins hjá henni var munnlegt próf í læknisfræði. Prófstaðurinn er langt í burtu frá heimili hennar og þegar hún kom á staðinn, uppgötvaði hún að hún hafði gleymt stúdentaskírteininu sínu heima. Það er ekki leyfilegt að taka próf án þess að sýna skírteinið en starfsfólk á prófstaðnum ræddi samt sín á milli í töluverðan tíma og höfðu hug á að hleypa henni í prófið, þar til ákvörðun var tekin um að hún yrði að vera með skírteinið til að hafa próftökurétt. Henni var sagt að ef henni tækist að sækja það og koma aftur innan þess tíma sem prófin stæðu, og ef einhver myndi ekki mæta, þá gæti hún fengið að taka prófið. Hún fór því aftur heim, og þurfti að taka bæði lest og strætó og hlaupa og svo aftur að hlaupa og síðan taka leigubíl og var komin á prófstað rétt áður en próftímanum lauk. Þá var hún svo heppin að einhver stelpa hafði ekki mætt og hún fékk plássið hennar og gat tekið prófið. Ég er mjög stolt af henni, því henni tókst að halda haus í gegnum allt þetta stress og fékk meira að segja mjög góða einkunn í prófinu.

En já nú þýðir víst ekki að drolla lengur, það er langur dagur framundan hjá mér. Miðnæturopnun á Glerártorgi (opið í dag frá 10-24) og ég byrja að vinna kl. 14. Kemst nú vonandi eitthvað heim um kvöldmatarleytið samt, enda 10 tíma vinnudagur ekki efst á lista yfir það sem er gáfulegt fyrir mig að gera. Vonandi samt verður nóg að gera og við í Pottum og prikum verðum með 10% afslátt af öllum vörum og fullt af öðrum góðum tilboðum í gangi. Sem sagt... kominn tími til að standa upp, fara í sturtu og kannski stuttan göngutúr, fá sér að borða og svo í vinnuna!

sunnudagur, 24. nóvember 2013

Bein útsending úr sófanum

Er búin að eiga hálfgerða hörmungar helgi, undirlögð af verkjum og þreytu. Svona er þetta bara stundum. Er óendanlega þakklát fyrir að hafa verið í fríi. En ég hef fátt gert annað en liggja í sófanum og væflast milli herbergja. Eða jú ég setti mína heimatilbúnu jólakransa í gluggana og afrekaði að taka mynd núna áðan með símanum, liggjandi flöt í sófanum. Svo kryddaði ég myndina með einhverju myndvinnsluforriti, og bloggaði, allt með símanum. Já mikill er máttur nútímatækninnar.   



P.S. Finnst ykkur ekki heimilislegt að sjá reiðhjólið hans Vals inni í stofu? ;-) Ég hef a.m.k. lúmskt gaman af því.

Talandi um Val þá hefur hann ekki slegið slöku við um helgina, frekar en fyrri daginn. Fyrir utan að vera á vaktinni þá er hann búinn að sjá til þess að við Ísak deyjum ekki hungurdauða, og þar fyrir utan þá þreif hann sjónvarpsherbergið hátt og lágt í dag. Já svo fór hann í Bónus, gerði eina aðgerð í gær og aðra í dag ... og örugglega eitthvað fleira sem ég man ekki. 

laugardagur, 23. nóvember 2013

Laugardags-limbó


Þá er enn einn -langar að gera eitthvað en er of þreytt- laugardagurinn runninn upp. Áður en ég væli meira þá get ég hins vegar glaðst yfir því að í raun átti ég að vera að vinna í dag, en skipti við Önnu af því hún bað mig um það. Það þýðir reyndar að þá mun ég vinna 6 daga í röð næstu vinnuviku og fá bara einn frídag ... sem er ekki nóg fyrir mig. En koma tímar koma ráð, ég gæti hugsanlega fengið aðra „helgar-stelpuna“ til að vinna fyrir mig einn eftirmiðdag. Sé til hvernig staðan verður á mér. Ég skil samt eiginlega ekki af hverju ég er svona óskaplega þreytt í dag. Var í fríi á miðvikudaginn og gerði nánast ekkert annað en hvíla mig þann dag. Á miðvikudagskvöldinu var ég samt ógurlega þreytt og mér hefur einhvern veginn ekki tekist að hrista þá þreytu af mér enn. Það var að vísu brjálað að gera í vinnunni í gær, aðallega við að afgreiða viðskiptavini en svo vorum við líka að klára að taka upp vörur. Ég komst hvorki í að borða né fara á klósettið allan tímann sem ég var í vinnunni og það var eins með Sunnu veit ég, enda fór hún ekki heim fyrr en kl. 17 í stað 15/16 eins og vanalega. Það er samt gaman og gott að hafa nóg að gera, manni leiðist þá ekki á meðan ;-)

Annars er ég búin að gera mér lista yfir hluti sem ég veit að gera mér gott, og markmiðið er að gera a.m.k. eitt atriði á listanum á hverjum degi. Þetta er hugsað sem varnarleikur hjá mér núna í jólavertíðinni í búðinni. Það er ótrúlega fyndið, en bara það að skrifa þessi atriði niður, gerir það að verkum að ég verð meðvitaðri um þau og stend mig betur í að framkvæma þau. Svona er listinn minn:

  • Nota dagsbirtulampann 
  • Gera mér grænan hristing
  • Dvelja við jákvæð augnablik 
  • Fara út að ganga
  • Nota frauð-rúlluna (geri t.d. þessa æfingu hér f. hálsinn)
  • Skrifa „My morning pages“ - helst á hverjum degi
  • Vera þakklát fyrir það sem ég hef
  • Sýna sjálfri mér væntumþykju og skilning (self-compassion)
  • Taka ljósmyndir
  • Skrifa eitthvað, t.d. blogga eða skrifa smásögur
  • Fara í nudd / höfuðbeina- og spjaldhryggjarjöfnun eða eitthvað álíka
  • Borða mat sem fer vel í mig og gefur mér orku
  • Nota Lumosity forritið til að þjálfa heilann
  • Hugleiða / slaka á
Það væri ábyggilega auðvelt að setja fleiri atriði á listann en svona lítur hann út í dag. Ég hef verið misdugleg að framkvæma þessi atriði, hef t.d. ekki gert mér einn einasta græna hristing og ekki farið í Lumosity langa lengi. Held ég hafi gert mest af því að fara út með myndavélina og finn hvað það gerir mér rosalega gott þessa dimmu vetrardaga, ef ég bara kemst aðeins út þegar bjart er. Svo er birtan alveg hreint dásamlega falleg og síbreytileg, eins og sjá má á þessari myndasamsetningu hér að ofan. Neðri myndina tók ég í gær kl. 10:57 en þá efri í dag kl. 10:54. Í gær var mistur og dulúð lá í loftinu, en í dag var tærleiki og kraftur. Myndirnar tók ég úti við Krossanes. Þar er gott útsýni til Kaldbaks í norðri og vá hvað hlýtur að vera gaman að búa þar sem maður hefur þetta stórbrotna útsýni. Tja það er a.m.k. stórbrotið í aðra áttina ... ekki eins spennandi að horfa á Becromal verksmiðjuna þarna rétt neðan og sunnan við ... 


mánudagur, 18. nóvember 2013

Góð helgi að baki

Eftir fimm daga vinnuviku var ég alveg hoppandi glöð að fá helgarfrí ;-) Það munar alveg svakalega um það fyrir mig að hafa tvo daga til að jafna mig eftir vinnuvikuna og ná svona ca. að núllstilla mig fyrir komandi viku, þó ég kannski nái ekki að safna mikilli orku á þessum tveimur dögum.

Fyrir utan vinnu, hafði ég líka verið óvanalega virk í vikunni, fór út að borða í tilefni afmælisins míns á þriðjudagskvöldi, og mætti í ljósmyndaklúbb á miðvikudagskvöldinu og konuklúbb á föstudagseftirmiðdegi.

Enda var ég frekar lúin þegar ég vaknaði á laugardagsmorgninum og tók því rólega til að byrja með. En síðan fór sólin að skína og þá dreif Valur mig með sér út. Við ókum út á Svalbarðseyri, lögðum bílnum og röltum um með myndavélarnar. Mér tókst nú reyndar að fljúga á hausinn þegar ég steig ofan á eitthvað plaststykki sem lá falið meðal fjörusteinanna og sást ekki fyrir snjónum. Fótunum var bókstaflega kippt undan mér og ég féll við. Reyndi að passa uppá myndavélina sem ég hélt á í hægri hönd, og bar fyrir mig vinstri hendina þegar ég datt. Fékk hnykk á bakið og smá verk í vinstri úlnliðinn og vinstri ökklann en slapp annars ótrúlega vel, sem betur fer. Við vorum úti í ca. klukkutíma og það er alveg passlegur tími fyrir mig.


Á laugardagskvöldinu fórum við svo á tónleika með Lay Low í Hofi. Sunnu datt það snjallræði í hug að gefa mér „upplifun“ í afmælisgjöf og tónleikarnir voru sem sagt afmælisgjöfin. Svo komu Valur og Kiddi með okkur og þetta var bara mjög fínt kvöld. Sem breyttist nánast í uppistand á tímabili, þegar Lay Low gat ómögulega munað textann við eitt síðasta lagið. Það var alveg sama hvað hún reyndi, textinn var gjörsamlega horfinn úr kollinum á henni. Þetta hlýtur að vera martröð allra tónlistarmanna, en henni tókst nú að halda haus og hlægja að þessu. Svo mikið reyndar að hún fékk smá hláturskast (skiljanlega því salurinn hló jú með henni) og þá var enn erfiðara að ætla að syngja. Þessi litla uppákoma gerði tónleikana bara ennþá eftirminnanlegri, svo mikið er víst og enginn tók það nærri sér þó hún gleymdi textanum.


Á sunnudagsmorgni vaknaði ég ótrúlega hress og dró Val með mér í sund um hálf tíu leytið. Það voru engir í sundi nema nokkrir fastagestir og við áttum notalega stund í lauginni og eimbaðinu. Svo um eða eftir hádegið var sólin aftur farin að skína og þá datt okkur í hug að skella okkur út á Hjalteyri, enda orðið nokkuð um liðið síðan við fórum þangað síðast. Það var reyndar ótrúlega napurt, enda norðanátt og hafgola/vindur, en virkilega hressandi samt. Ég datt nú ekkert á hausinn í þeirri ferð ... ;o)











En já við vorum þarna í kuldanum í um klukkutíma og það var gott að komast heim í hlýtt hús aftur. Svo var nú bara slakað á það sem eftir lifði dags. Í gærkvöldi var ég reyndar orðin svo þreytt eftir allan þennan helgar-hasar að ég lagðist í sófann, en Valur „stóð vaktina“ og gerði deig í frækex fyrir mig.  Ég er enn og aftur að reyna að standa mig betur í mataræðinu. Var farin að vera alltof lin með glúten og jafnvel mjólkurvörur, að ekki sé minnst á sykurinn ... En ég sá fyrirlestra um daginn á netinu um glútenóþol og það er bara ekkert í lagi að borða glúten annað slagið ef maður er með óþol fyrir því... enda leið mér mun betur fyrstu mánuðina haustið 2010 þegar ég var algjörlega ströng varðandi mataræðið. Held að mér líði allra best ef ég sleppi öllu kornmeti og sykri, en það er þrautin þyngri ... Nóg um það í bili.


þriðjudagur, 12. nóvember 2013

Skápadólgur


Ég heyrði nýtt orð í sundi í morgun. Þannig var að þegar ég kom að búningsklefanum tók ég eftir því að það voru óvenju fáir skór í skóhillunni (og það sem meira var, allir svartir, mínir þar með taldir, en það er nú önnur saga). Þegar ég kom svo inn í búningsklefann var þar fyrir ein önnur kona og eftir að hafa boðið góðan daginn, nefndi ég hve fáir væru í sundi í dag.
„Já, sagði hún, en það kom samt ekki í veg fyrir að einhver tæki skápinn minn, einhver skápadólgur.“
Ég hváði, enda hafði ég aldrei heyrt þetta orð áður. Hún sagðist hafa heyrt þetta í sumar og fannst tilvalið að nota það í dag, þar sem hún fékk ekki skápinn „sinn“. Svo hlógum við báðar, enda ekki annað hægt.

Þetta með að eiga skápana í sundlauginni er auðvitað bara fyndið, en það verður ósjálfrátt þannig að þegar maður kemur í sund á hverjum degi (tja eða næstum því ...) þá eignar maður sér ákveðinn skáp. Í mínu tilfelli þá var það nú aðallega vegna tillitssemi við aðrar konur (eða ég tel sjálfri mér a.m.k. trú um það). Á sínum tíma þegar ég byrjaði að synda þá var ég alltaf óvart að fara í skáp sem einhver önnur kona átti og fékk nú stundum að heyra það. Eftir nokkurn tíma var ég búin að kortleggja skápana og eigendur þeirra, og fann lausan skáp þar sem ég var ekki að troða neinum um tær. Hann er alla vega laus á þeim tíma sem ég syndi yfirleitt. Ég veit um konu sem mætir yfirleitt um sjöleytið á morgnana og notar sama skáp, en hún er alltaf farin þegar ég kem. Síðan gerist það stundum um helgar eða á sumrin að við mætum á sama eða svipuðum tíma og þá eru slagsmál um skápinn ... hehe nei nei, ég er að grínast.

Mér er nú nokk sama þó ég fái ekki akkúrat minn skáp, en held mig þá reyndar yfirleitt svona nokkurn veginn á sama svæðinu. Ég er nefnilega hornamanneskja (eins og í blakinu) og finnst ekkert þægilegt að vera í skáparöðinni miðri. En það er fræg saga af manni sem átti heima nálægt sundlauginni hér áður fyrr, og mætti víst stundum á morgunsloppnum í sund, hann átti það til að fara bara heim aftur ef skápurinn hans var ekki laus;-)

Annars á ég afmæli í dag. Ég hef einhvern veginn ekki vanist á það að gera mikið úr afmælinu mínu, en verandi á facebook þá fæ ég alla vega margar kveðjur. Það er eingöngu letinni í sjálfri mér að kenna að ég geri ekki meira úr afmælisdeginum. Nenni ekki að baka og stússast. Og af því ég baka ekki þá býð ég engum í kaffi. Hér áður fyrr fannst mér stundum leiðinlegt ef það var of lítið að gerast á afmælisdeginum mínum, en í dag er ég alveg sátt við það. Finnst bara gaman ef fólk man eftir að senda mér kveðju en ætlast ekki til neins meira. Kannski fer ég einhvern tímann seinna að vera duglegri að gera mér dagamun en þetta er bara í góðu lagi svona núna. Sko, þarna hringdi einmitt ein vinkona mín og það var nú aldeilis gaman :)

P.S. Myndin tengist umfjöllunarefni dagsins ekki beint ... a.m.k. ekki skápadólgnum ...

laugardagur, 9. nóvember 2013

Vetrarsól, þreyta, streita og slökunarviðbragðið


Veturinn hefur aldrei verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér en það hefur samt mikið lagast eftir að ljósmyndun varð áhugamál hjá mér. Það er pínulítið eins og að eiga hund (gæti ég ímyndað mér), að því leyti að það verður aukinn hvati að því að fara út og hreyfa sig í leiðinni. Stundum er ég drulluþreytt og nenni engu, en ef ég sé að veðrið úti býður upp á tækifæri til ljósmyndunar, þá drattast ég af stað með myndavélina. Þreytt í fyrstu en gleymi svo stund og stað og næ að njóta þess að lifa í augnablikinu. Þegar það gerist næ ég góðri slökun og það er svo hollt og gott eins og allir vita. Sérstaklega þegar streita er að fara illa með fólk þá er svo mikilvægt að ná þessari djúpu slökun. Ég las einhvers staðar að það væri forsenda þess að líkaminn gæti náð að slökkva á streitu-viðbragðinu (fight og flight response) og byggja sig upp þegar þörf er á (vegna álags, sjúkdóma etc.). Dr. Herbert Benson setti fram hugtakið „relaxation response“ til að lýsa því hvernig hægt er að vinna gegn streitu með slökun. Lissa Rankin, höfundur bókarinnar Mind over medicine, tekur undir með Dr. Herbert Benson og skv. henni hjálpa eftirfarandi athafnir við að virkja þetta slökunarviðbragð:
  • Hlátur
  • Að leika sér við dýr
  • Hugleiðsla
  • Dans
  • Að vera örlát/ur á tíma sinn eða gefa gjafir
  • Nudd
  • Að gera eitthvað skapandi
  • Viðhafa þakklæti (practicing gratitude)
  • Snerting
  • Óhefðbundnar lækningar
  • Hlusta á tónlist
Málið er að samkvæmt Lissu, þá erum við sífellt að framkalla streituviðbrögð í líkamanum. Til þess að lifa af þá er nauðsynlegt að líkaminn bregðist fljótt og örugglega við hættuástandi, sem og hann gerir, án þess að við fáum nokkru um það ráðið. Hér áður fyrr var gerðist það hins vegar mun sjaldnar (eða svo telja menn) og fólk náði fljótt fyrri ró. Hins vegar hafa nútíma lifnaðarhættir gert það að verkum að við erum oft í stöðugu streituástandi og náum ekki að róa okkur niður. Segjum t.d. að þú vaknir of seint að morgni, missir af strætó, komir of seint í vinnuna, hellir kaffi niður á þig, yfirmaðurinn skammar þig fyrir að vera ekki búin að skila skýrslu ... o.s.frv. Svo þegar þú kemur heim þá taka heimilisstörfin við, þú horfir á sjónvarpsfréttir sem skýra frá því að heimurinn sé á heljarþröm ... Já ég læt staðar numið hér. 

En málið er, að við getum hjálpað heilanum okkar að skilja á milli þess hvenær streita er réttlætanleg/nauðsynleg og hvenær ekki. Ég t.d. prófaði aðferð sem Lissa mælir með núna nýlega. Þannig var að ég var á leið í vinnuna og hugurinn var kominn eitthvert allt annað heldur en hann átti að vera. Athyglin var sem sagt ekki lengur á akstrinum en það breyttist skyndilega þegar ég var komin alltof nálægt bílnum fyrir framan mig, sem hafði hægt ferðina til að beygja. Og af því mér brá svo mikið við að uppgötva þetta, þá sá ég ekki að bíllinn gaf stefnuljós til vinstri, en gerði ósjálfrátt ráð fyrir því að hann ætlaði til hægri. Ákvað að fara yfir á vinstri vegarhelming (til að komast fram úr bílnum) en á sama tíma byrjaði hann jú að beygja til vinstri og ég sá að ég yrði að færa mig yfir á hægri vegarhelming ef ég ætlaði ekki að lenda í hliðinni á honum. Það var fljúgandi hálka þegar þetta var og í smá stund hélt ég að allt færi í klessu. En þökk sé stöðugleikakerfinu í bílnum okkar þá tókst mér að sveigja aftur yfir á hægri vegarhelming og forðast árekstur. 

Streituviðbragðið fór á fullt hjá mér og mér leist ekkert á að byrja vinnudaginn svona stressuð. Þannig að ég fór markvisst í að láta heilann á mér vita að þetta væri allt í lagi. Andaði djúpt nokkrum sinnum og blés hægt frá mér aftur. Talaði við sjálfa mig (í hljóði ;) og sagði að þetta væri allt í lagi. Vissulega hefði hurð skollið nærri hælum en allt hefði endað vel og ég gæti bara verið þakklát fyrir það. Nú ætlaði ég ekki að hugsa um þetta meira í bili. Og þetta tókst! Ég fann hvernig það slaknaði á öllum vöðvum og þegar ég var komin í vinnuna var ég ekkert að hugsa um þetta meira.  

Lissa talar líka um það í bók sinni að það sé mikilvægt fyrir lækna að róa sjúklingana sína niður eftir að hafa fært þeim slæmar fréttir (koma t.d. með eitthvað jákvætt o.s.frv.), til þess að vinna markvisst með það að draga úr streituviðbragðinu og auðvelda líkamanum þannig að heila sjálfan sig.

En já nú læt ég þetta gott heita ... Ég sem ætlaði bara að skrifa örlítið um hollustu þess að fara út í sólina/birtuna á köldum vetrardegi :-)

P.S. Ég gleymdi mér alveg í þessu tali um streitu- og slökunarviðbragð en ætlaði að minnast á það að við Valur fórum út að ganga í morgun. Ég sem sagt drattaðist út þrátt fyrir þreytu, og það var svo yndislegt að fara aðeins út í sólina þrátt fyrir 12 stiga frost. Myndirnar hér að ofan eru sem sagt teknar við Naustaborgir, hér í útjaðri Akureyrar.

fimmtudagur, 7. nóvember 2013

Léttara yfir mér í dag



Kannski af því ég fór loks í leikfimi eftir alltof langa fjarveru, kannski af því ég fór í sund í morgun, kannski af því ég var dugleg að taka upp vörur í vinnunni í dag, kannski af því ég er komin á fulla fart í bókhaldinu, kannski af því ég heyrði í mömmu í dag og henni líður betur?

Ekki er það af því ég er svo vel sofin, svo mikið er víst ... Ég hef greinilega verið í einhverju stresskasti undanfarið því mér hefur gengið svo illa að sofna á kvöldin og vakna mun oftar á nóttunni. Vonandi tekst mér sem allra fyrst að komast á betra ról með svefninn. Það hlýtur alla vega að hjálpa til að ég er komin vel á veg með bókhaldið, svo þá verður einu streitu-efninu færra. 

Annars hef ég svo sem ekkert gáfulegt að segja. Datt bara í hug að skrifa nokkrar línur, enda á það jú að vera svo hollt ;-) Margar rannsóknir hafa sýnt fram á kosti þess að skrifa (t.d. í dagbók) en ég er reyndar ekki með neina rannsókn við hendina núna til að vísa í... kannski seinna. 

Tja á meðan ég man, þá las ég einu sinni áhugaverða grein um að skrifa svokallaðar „morning pages“ en þá byrjar maður daginn á að skrifa 3 bls. um það sem er manni efst í huga þá stundina, til að hreinsa hugann, svo hægt sé að einbeita sér að verkefnum dagsins að þessu loknu. Þetta er reyndar mjög flott grein og ef einhver hefur áhuga þá er hana að finna hér. Ég prófaði þetta um sinn en gleymdi því svo aftur. Spurning að gera aðra tilraun núna í nóvember og desember og sjá hvort það hefur góð áhrif?

P.S. Myndina af mér tók Valur á nútímalistasafninu í Dublin.



miðvikudagur, 6. nóvember 2013

Það er stuð á mér núna ...


Ég var reyndar búin að skrifa aðra fyrirsögn - þar sem orðið „andlaus“ kom fyrir en ákvað þá að gera smá könnun. Sló orðinu andlaus inn í leitardálkinn hérna uppi til vinstri á síðunni, og komst að því að þetta orð kemur fyrir í samtals 19 bloggfærslum. Sem er kannski ekki stórt hlutfall þegar haft er í huga að ég hef skrifað 1570 færslur í allt. En ég ákvað að taka út þessa andleysis-fyrirsögn engu að síður.

Það er svona ástand á mér þar sem ekkert er í rauninni að (nema það að ég er lúin og leið) og í sjálfu sér engin ástæða til að vera eitthvað niðurdregin. Sem ég er reyndar ekki beint ... hehe flókið mál ha? Þess vegna finnst mér andleysi svo gott orð, það nær yfir þessa óáþreifanlegu tilfinningu þar sem maður er einhvern veginn ekki nægur sjálfum sér, án þess þó að geta bent á neina sérstaka ástæðu fyrir því.

Hins vegar get ég alveg fundið ástæður fyrir því að ég ætti að vera glöð og í góðu skapi:
  1. Ég fór út með myndavélina í gærmorgun. Það var frost en virkilega fallegt veður og ég átti voða góða stund með sjálfri mér og myndavélinni. Myndin hér að ofan er tekin við Eyjafjarðará.
  2. Ég var í fríi í dag (hehe var varla búin að skrifa þetta þegar ég mundi að ég var reyndar að vinna í bókhaldi í rúman klukkutíma hér heima í morgun).
  3. Ég fór í klippingu og litun til Ernu, hárgreiðslukonu og vinkonu minnar. Það er alltaf jafn notalegt að koma til hennar því þetta er lítil stofa og við spjöllum svo mikið saman. Að vísu er ég reyndar að verða hundleið á því að lita á mér hárið. Er í fúlustu alvöru að hugsa um að prófa að leyfa gráa hárinu að njóta sín næsta sumar. Nú ef mér líst ekkert á, þá get ég bara byrjað aftur að lita það.
  4. Ég spjallaði við Hrefnu á Skype í dag. Það er alltaf svo gaman að heyra í henni og nú styttist í að hún klári læknisfræðina. Nánar tiltekið í lok janúar á næsta ári. Þá hefst nýr kafli í hennar lífi, kandídatsárið.
  5. Andri og Freyja kærastan hans ætla að koma norður um helgina. Það verður voða gaman að fá þau í heimsókn, enda höfum við ekki séð Andra síðan í ágúst. Blindflugs-námið hefur farið seint af stað hjá honum en vonandi kemst hann á fullt núna og getur klárað það á réttum tíma. Svo er hann jafnvel að spá í að bæta við sig flugkennara-námi en það kemur bara í ljós.
  6. Valur eldaði ljúffengan kvöldmat (eins og alltaf) og ég sit hér pakksödd, enda búin að borða alltof mikið. 
Og nú man ég ekki eftir fleiru. Held ég segi þetta bara gott í bili. Verð vonandi hress og kát næst ;-)

þriðjudagur, 5. nóvember 2013

Enn eitt listaverkið í boði náttúrunnar


Kannski ekki öllum sem finnst þetta fallegt listaverk samt ... en hvað skyldi þetta vera? Einhver sem vill giska? ;-)


sunnudagur, 3. nóvember 2013

Bensínlaus í eyðimörkinni?



Valur notar mikið samlíkingar til að leggja áherslu á það sem hann er að segja. Stundum kemst hann nokkuð vel að orði, eins og t.d. í dag þegar við vorum að tala saman. Ég var að segja honum hvað næstu tveir mánuðir í vinnunni vaxa mér í augum, enda ein allsherjar vinnutörn framundan, og ég ekki með fullt vinnuþrek. Í dag var ég þar að auki þreytt eftir fimm daga í Dublin + fimm daga vinnu eftir að við komum heim. Valur var að reyna að setja sig í mín spor, og sagði að þetta væri ábyggilega eins og að vera bensínlaus í eyðimörk. Og já þetta er líklega ekki ósvipað. Að þurfa að komast á leiðarenda en vera með tóman tank og engin bensínstöð í nágrenninu. Ég er líka orðin dálítið brennd af þeirri staðreynd að það tekur mig 6-8 mánuði að jafna mig eftir jólatörnina, eða hefur a.m.k. gert það síðustu árin. Það má samt vona að í ár verði ástandið betra á frúnni ;-)

Annars er ég búin að átta mig á því að þegar ég er þreytt þá verð ég kvíðin. Og þreytt og kvíðin manneskja sér hlutina ekki alltaf í réttu ljósi. Engu að síður þá er smá ljós í myrkrinu: 
  • Ég sef betur á nóttunni síðan við fengum okkur Earthing lakið í rúmið
  • Ég fæ mun sjaldnar svima núna en ég gerði á tímabili
  • Ég fæ sjaldnar hjartsláttaróreglu/þungan hjartslátt 
  • Ég lifði af 5 daga borgarferð til Dublin og er ekki dottin í þreytu-breakdown
  • Ég get unnið í bókhaldinu jafnt og þétt, svo það verði ekki jafn mikið álag á mér í kringum 5. desember (þá eru virðisaukaskil)
  • Ég get verið duglegri að hugleiða (finn að það gerir mér gott)
  • Ég get hreyft mig (farið í leikfimi, út að ganga, synt)
  • Ég get farið út með myndavélina (hefur góð áhrif á mig)
  • Ég gæti jafnvel fitjað uppá einhverju á prjónana (finnst róandi að prjóna)
  • Við gætum keypt jólagjafirnar tímanlega (hehe á nú eftir að sjá það)
Annars er þessi jólatörn í vinnunni hjá mér líka mikill álagstími hjá Val, bæði af því hann þarf að gera nánast allt hér heima, en einnig vegna þess að honum finnst svo erfitt að horfa uppá mig örmagna af þreytu. Þannig að ég vona bara að okkur takist báðum að halda haus, njóta þess að vera til og gera eitthvað skemmtilegt líka þessa næstu tvo mánuði :-)

P.S. Bara svo það sé nú alveg á hreinu þá er ég ekki að gleyma henni Sunnu þegar ég tala svona mikið um sjálfa mig í tengslum við jólatörnina í búðinni. Fókusinn er bara á mig af því ég er á mörkunum að ráða við þetta, þrátt fyrir að við séum tvær sem deilum með okkur vinnunni og höfum þar að auki fleira starfsfólk okkur til aðstoðar.