fimmtudagur, 25. apríl 2013

Gleðilegt sumar :-)




Já þrátt fyrir að vera snjóamynd, þá er eiginlega sumarlegra um að litast á þessari ljósmynd, heldur en fyrir utan gluggann hjá mér í augnablikinu. Það bara kyngir niður snjó, enn og aftur.

Andri kom heim í gær og stoppar einhverja daga. Það kom nú reyndar ekki til af góðu, því hann er að fara jarðarför, en samt notalegt að sjá aðeins framan í hann. Það er alltaf vellíðunartilfinning sem fylgir því að hitta börnin sín. Svo styttist í próf hjá honum, fyrst skólapróf og svo flugmálastjórnarpróf. Sem sagt nóg að gera hjá honum á næstunni.

Ég setti persónulegt met í vikunni. Fór og hitti vinkonur mínar á kaffihúsi í fyrradag (við hittumst síðast í lok nóvember svo það var nú kominn tími til) og í gærdag hittist svo kvennaklúbburinn minn á Icelandair hotel. Það var reyndar of mikið af því góða fyrir mig að standa í svona „útstáelsi“ tvo daga í röð. Ég var eiginlega búin með orkukvótann minn eftir klukkutíma í bæði skiptin en hélt út í tvo tíma, af því ég er svo leið á því að rjúka alltaf í burtu eftir ca. 1,5 tíma eins og t.d. á fundum í ljósmyndaklúbbnum. En það sem ég græddi á því í gær var bara að verða yfir mig þreytt, enda var mikið skvaldur og hávaði seinni klukkutímann á hótelinu.

En já það er samt gaman að „þykjast“ stundum vera frísk og sitja eins og venjuleg manneskja innan um annað fólk.

Afleiðingin var hins vegar sú að ég gat ekki sofnað í gærkvöldi af því mér leið bara of illa. Verkjaði í allan skrokkinn, og heilinn á mér var í yfirvinnu eftir allt áreitið, þannig að ég náði engan veginn að slaka á. Ég hef sennilega ekki verið sofnuð fyrr en um tvöleytið en vaknaði svo klukkan fjögur og vakti í nærri klukkutíma. Meira ruglið á frúnni!

Í gærmorgun gerðust hins vegar þau undur og stórmerki að ég fór í sund!! Var farin að sakna þess all verulega að hitta ekki fólkið sem maður hittir alla jafna í morgunsundinu. Ein eldri kona hrópaði næstum upp yfir sig þegar hún sá mig, var svo hissa á því hvað var langt síðan ég kom síðast. Hélt að ég hefði kannski fengið aftur brjósklos, en sem betur fer var það nú ekki raunin.

Í sundinu hitti ég líka konu sem var með mér á rithöfunda námskeiðinu og hópurinn er búinn að ákveða að halda áfram að hittast og reyna hvert og eitt að skrifa í 15 mínútur á dag. Það er ágætlega raunhæft markmið finnst mér, að minnsta kosti svona til að byrja með. Það er bara þetta með að standa við það ...

þriðjudagur, 23. apríl 2013

Snjór, snjór, snjór ...


Já það er ekkert lát á vetrinum hér norðan heiða og gott ef þessi langi vetur er ekki að verða helsta umræðuefni fólks, bæði í raunheimum og netheimum. Náttúran lætur samt glepjast af tímatalinu að einhverju leyti. Farfuglar tínast óðum til landsins þó fæða sé af skornum skammti, t.d. fyrir gæsirnar. Sumar trjátegundir eru búnar að mynda brum, eins og þessi litli víðir sem sjá má á myndinni. Þrestirnir syngja sinn fagra söng þrátt fyrir kulda og vosbúð.

En já ferðin austur gekk eiginlega vonum framar. Það reyndar byrjaði ekki vel því mamma Vals fékk fyrir hjartað á föstudagskvöldinu og við biðum því átekta og fórum ekki austur fyrr en daginn eftir. Bæði hálf illa sofin þá, enda stressuð yfir þessum fréttum af Gunnu. Þegar við komum austur fór Valur strax á fullt í ákveðið prógramm sem var í gangi. Ég ætlaði að leggja mig en náði ekki að sofna. Svo var kennsla í endurlífgun og ég ákvað að taka þátt í því, enda ein 30 ár síðan ég fór á námskeið í skyndihjálp. Það var gott að rifja upp hjartahnoð (hnoða 30 sinnum - blása tvisvar) og svo var líka kennsla í því hvað á að gera ef aðskotahlutur er í hálsi barna og fullorðinna. Fyrir utan þetta með að banka í bakið og beita Heimlich taki, þá var ég frekar græn í því. Ef t.d. það dugar ekki að banka 5 sinnum í bakið á ungabarni þá á að byrja blástur og hjartahnoð. Það vissi ég ekki.

Eftir síðbúinn hádegismat var áframhaldandi prógramm fyrir starfsfólkið en ég fór inná herbergi og lagði mig. Tókst meira að segja að sofna aðeins fyrir rest og var voða fegin því. Svo var útivera og sumir fóru á gönguskíði en ég rölti bara í rólegheitum um næsta nágrenni með myndavélina. Við skelltum okkur svo í smástund í heitan pott, áður en hafist var handa við eldamennsku. Ég var nú reyndar stikkfrí (eða þóttist vera það) hvað eldamennskuna snertir. Maturinn var hinn ljúffengasti og síðan tóku við skemmtiatriði, söngur og gítarundirspil frameftir nóttu. Við gamla settið vöktum meira að segja til klukkan tvö og það þótti mér nú bara nokkuð gott ;-)

Á sunnudeginum vorum við Valur tilbúin til brottfarar um hádegisbilið en þar sem veðrið var alveg einstaklega fallegt ákváðum við að keyra lengri leiðina heim, eða með viðkomu í Mývatnssveit. Þar voru fáir á ferli en þó mátti sjá einstaka ferðafólk. Við keyptum okkur kjötsúpu í Gamla bænum og satt best að segja mæli ég nú ekkert sérstaklega með þeirri kjötsúpu. Gengum svo niður að vatninu sem var alveg spegilslétt og fallega blátt á litinn enda var heiður himinn og blái liturinn endurkastaðist í vatninu. Eins og sjá má t.d. á þessari mynd hér.


Við stoppuðum ekkert óskaplega lengi í Mývatnssveit en það var samt gaman að hafa komið þangað. Svo ókum við beinustu leið heim og vorum komin heim um þrjúleytið. Það var fínt því þá gat frú gamla þreytta farið beint í sófann (eftir kaffið) og steinsofið þar í eina tvo tíma að minnsta kosti ;-)

fimmtudagur, 18. apríl 2013

Allt og ekkert

Stundum langar mig að setjast niður og blogga en hef ekkert sérstakt að segja. Það er bara þessi þörf sem ég hef fyrir að skrifa. Eins og það byggist upp einhver þörf sem ég verð að fá útrás fyrir.

Þá væri náttúrulega upplagt að skrifa eins og eina senu eða einn kafla í „sögunni minni“ (þessari sem ég byrjaði að skrifa á námskeiðinu) en mér ætlar að ganga illa að halda áfram að skrifa hana. Það kallast víst framhaldskvíði skilst mér. Eina ráðið við honum er að setjast niður fyrir framan tölvuna og láta vaða - en ég hef ekki enn látið verða af því. Er samt að melta sögupersónurnar með mér, finnst einhvern veginn að ég þurfi að átta mig aðeins betur á þeim áður en lengra er haldið. En ég held að ég verði að lofa sjálfri mér því að gera eitthvað með þetta efni, helst fyrr en síðar.

Annars er fyrirhuguð helgarferð í Þingeyjarsýslu ofarlega í huga mér. Það byggist upp eitthvað stress tengt ferðinni, sem ég þarf að vinda ofan af. Ég er orðin svo óvön því að gera eitthvað með öðrum en Val, og þegar við erum tvö ein á ferð þá er jú hægt að haga hlutunum eftir sínu höfði en það er erfiðara í stórum hópi. Kosturinn er samt sá að ég get þá alltaf dregið mig í hlé inná herbergi ef ég er alveg að gefa upp öndina ;-) Nú svo má alltaf vona að ég verði bara þokkalega hress og kát :-)

Ég hef verið með svona „veikinda-tilfinningu“ alveg síðan um páska en misslæm eftir dögum. Það er klassískt vefjagigtareinkenni, þessi dagamunur. Í gær var ég t.d. ekki með þessa „mér líður eins og ég sé með hita“ tilfinningu, en hún er komin aftur í dag. Einhvern tímann var ég að tala um það við eina vinkonu mína að þetta væri svo skrítin líðan, að upplifa sig eins og með hita, en vera samt hitalaus. Þá sagðist hún alltaf sjá það á augunum í mér því þau verða „glær“ svona eins og hjá fólki með hita. Og það er alveg rétt hjá henni.

Kosturinn við að eiga betri dag í gær, var sá að ég drattaðist loks á fund í ljósmyndaklúbbnum mínum. Hef sleppt a.m.k. síðustu tveimur fundum. Við vorum að spjalla um fyrirhugaða sýningu í menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Þar ætlum við að sýna sömu myndir og við vorum með í safnaðarheimili Akureyrarkirkju, þannig að það er nú ágætt. Líklega mun sýningin opna í kringum mánaðamótin apríl-maí. Svo horfðum við á þátt í seríunni um Ljósmyndakeppni Íslands en í þetta sinn var þemað auglýsingar. Okkur sýndist sitt hvað, bæði um myndir keppendanna og eins umsagnir dómaranna. Mín skoðun er sú að líklega hafa keppendur ekki lesið nógu vel leiðbeiningarnar sem þeir fengu, og eins þá hafa þeir ekki áttað sig nóg vel á því að þegar um auglýsingu er að ræða, þá er það varan sjálf sem er aðalatriðið og mikilvægt að sýna hana í réttum kringumstæðum.

Jamm og jæja, ætli sé ekki best að koma sér út úr húsi og labba einn lítinn hring. Svo er það hádegismatur, sturta og vinna. Í kvöld þarf ég að gera við eina peysu, baka brauð og græja morgunmat til að taka með mér í ferðina.

Til að lífga aðeins uppá allt þetta skrifaða orð þá koma hér nokkrar myndir úr ljósmynda-göngunni okkar Vals frá því um daginn. Það var dálítið áberandi þarna á Eyrinni að bílar/bílhræ og hjólhýsi voru víða sýnileg - og myndirnar þannig lagað séð kannski ekki þær „fallegustu“ en það er líka gaman að sýna hlutina eins og þeir eru. Valur er reyndar miklu betri en ég í þessari tegund ljósmyndunar. Hann hefur alveg sérstakt auga og er næmur á allt þetta venjulega og hversdagslega sem fólk tekur oft ekki eftir, eða tekur a.m.k. sjaldan myndir af.







mánudagur, 15. apríl 2013

Akureyri weather report



Fólk hér norðan heiða er flest að verða býsna þreytt á snjó og vetri. Svona var veðrið þegar ég fór í gönguferð í gærmorgun og það var svipað í dag. Hm, í dag fór ég hins vegar ekkert út að ganga. Vaknaði ekki nógu snemma til að fara fyrir vinnu og eftir vinnu var ég svo lúin að ég gerði ekkert af viti.

Á morgun er ég svo að fara á hárgreiðslustofu kl. 12 og að vinna kl. 14-18:30, svo það verður frekar langur dagur, svona á minn mælikvarða. En ég áttaði mig allt í einu á því að við Valur erum að fara á árshátíð um helgina og það gengur náttúrulega ekki að mæta þangað með gráa rót ...

Árshátíðin sjálf er tilhlökkunarefni en fyrirkvíðanleg á sama tíma. Hún er haldin í veiðiheimili í Þingeyjarsýslu og líklega munum við fara austur á föstudagskvöldinu og vera fram á sunnudag. Hinn möguleikinn er að fara austur snemma á laugardegi, en sennilega er bara betra að vera komin á staðinn strax á föstudegi og reyna að hvíla sig framan af laugardegi. Það er að segja, ég að hvíla mig, ekki Valur, hann verður í einhverju prógrammi fram eftir degi.

Það verður gaman að komast aðeins að heiman og breyta um umhverfi en á sama tíma þá er jú alltaf spurningin hvernig formið á frúnni verður. Mun ég ná að njóta þess að vera þarna, eða verð ég þreytt og óupplögð? Það má alltaf vona að hið fyrrnefnda verði uppi á teningnum. Sakar ekki að láta sig dreyma ...

P.S. Myndin er tekin á klöppunum norðan Háagerðis. Þetta er passlega langur göngutúr fyrir mig (fram og til baka þ.e.a.s) og ekki spillir fyrir að á góðum degi er þarna fallegt útsýni út fjörðinn.

sunnudagur, 14. apríl 2013

Göngutúr í blíðviðri á Eyrinni



Laugardagur - frídagur - gott veður úti. Ég úrvinda af þreytu, með verki í augum, kverkaskít, hálfgerðan höfuðverk og bara allsherjar slöpp og sljó. Á sama tíma alveg hrikalega pirruð yfir ástandinu á mér. Langar út í góða veðrið.

Um tvöleytið safna ég mér nógu mikið saman til að fara í snögga sturtu og svo förum við Valur út. Hann segir mér að þetta sé í fyrsta skipti í langan tíma sem við gerum eitthvað saman um helgi. Ég minni hann á að við fórum reyndar á listasýningar og kaffihús einn sunnudag fyrir ekki svo löngu síðan (sem eru reyndar 5 vikur...). Annars hefur hann rétt fyrir sér, við gerum sjaldan eitthvað skemmtilegt saman, þar sem ég er jú í þreytu-hruni allar helgar.

Við veltum okkur samt ekki meira uppúr því að sinni. Röltum bara í rólegheitum um Eyrina hvort með sína myndavél og tökum myndir af því sem á vegi okkar verður. Afslöppuð og í góðu skapi. Þar til mér er orðið kalt og búin með orkukvótann. Á sama tíma klárast rafhlaðan í myndavélinni hans, svo það passar vel að hætta núna. Gerum tilraun til að fara í Pennann/Te og kaffi en þar er allt stappfullt svo við förum bara heim, þar sem sófinn bíður mín enn á ný.

              -------------------------------------------------------------------------------------------

P.S. Forritið sem ég notaði til að gera þetta myndasafn (collage) heitir Photo collage og það er ókeypis á netinu. Ég var að nota það í fyrsta skipti núna en það eru margir spennandi möguleikar í þessu forriti. Hægt að gera boðskort og margt fleira, auk svona myndasafna.


föstudagur, 12. apríl 2013

Fótspor ljósmyndara ...




eru hlykkjótt ... Það er ekki séns að ganga beina leið með myndavél í höndunum. Maður er alltaf að stoppa og snúa sér í allar áttir í leit að myndefni.

fimmtudagur, 11. apríl 2013

Persónuleg orkustjórnun (personal energy management)

Fyrir ekki svo löngu sótti ég mér bók um tímastjórnun á netið. Sem er kannski frekar fyndið í ljósi þess að ég á ekki í neinum vandræðum með að stýra tíma mínum (aðallega vegna þess að ég geri fátt annað en vinna og vera heima hjá mér, en það er nú önnur saga). Nema hvað, í bókinni var talað um hugtakið „orkustjórnun“ og sagt að þetta væri nauðsynlegur þáttur í því að ná hámarks-frammistöðu. Þú þarft að hafa orku til að geta unnið vinnuna þína og nú kemur rúsínan í pylsuendanum: Orkan okkar er ekki jöfn yfir daginn heldur förum við í gegnum mismunandi fasa, svona eins og við förum í gegnum mismunandi stig svefns aftur og aftur yfir nóttina.

Samkvæmt þessum fræðum þá höfum við fulla orku í ca. 90-120 mínútur í senn en þá fer orkan að dala. Við könnumst án efa öll við það að hafa verið niðursokkin í einhverja vinnu en svo skyndilega er orkan búin og við skellum í okkur kaffi eða súkkulaðimola til að fá orku til að halda áfram. Málið er bara að það er vitlaus aðferðafræði. Í stað þess að þrjóskast við og halda áfram þá ættum við að taka okkur smá pásu frá verkefninu sem við erum að vinna. Til dæmis með því að standa upp og teygja úr okkur, gera öndunaræfingar, fá okkur vatn að drekka. Svo getum við líka unnið í smá stund að verkefnum sem eru ekki jafn krefjandi, á meðan við erum að fara í gegnum orku-niðursveifluna. Með því að taka þessa smá hvíld á 90-120 mín. fresti eykst afkastageta okkar.

Þess ber að geta að hvert okkar er með sitt eigið orku-línurit og því þarf hver og einn að finna út hvenær hann/hún er með mesta orku og tímasetja vinnuna sína þannig að sá tími sé notaður í þau verkefni sem eru mest krefjandi.

Ef einhvern langar að lesa meira um þetta efni þá er hér grein úr Harward Business Review sem heitir „Manage Your Energy, Not Your Time“ eftir Tony Schwartz og Catherine McCarthy.
Í greininni er fjallað um fjórar tegundir orku: Líkamlega, tilfinningalega, hugræna og andlega orku og hvernig hægt er að vinna í því að fá aukna orku á öllum þessum sviðum.
Tony hefur skrifað tvær bækur og hægt er að fræðast meira um hann og hans hugmyndir á vefsíðunni theenergyproject.com Þar eru margar flottar greinar sem vert er að lesa.

Á vefsíðunni cravetime.com er umfjöllun um sama efni - á svipuðum nótum en dregið saman í styttri grein. Myndin hér fyrir neðan er fengin að láni þaðan.



Ástæða þess að mér finnst þetta svona spennandi efni, er minn stöðugi (og að því er virðist óendanlegi) skortur á orku. Ég áttaði mig reyndar á því við lestur greinarinnar að í stað þess að hvíla mig í smá stund þegar ég er þreytt í vinnunni, þá böðlast ég yfirleitt áfram og fæ mér kaffi og/eða kolvetni til að geta haldið dampi. Ef ég tæki mér í staðinn stutta pásu frá því sem ég er að gera, stæði upp og hreyfði mig aðeins (ef ég sit) eða sest og hvíli mig aðeins (þegar ég er uppistandandi) þá kannski myndi ég ekki keyra jafn harkalega á þreytuvegginn og mér hættir til að gera.

Í dag ákvað ég að prófa þessa nýju taktík. Það byrjaði reyndar ekki vel, því eftir aðeins hálftíma í vinnunni var ég orðin dauðþreytt (vaknaði þreytt í morgun og þó gönguferð, morgunmatur og sturta næðu að hressa mig tímabundið hrundi ég fljótlega eftir að ég kom í vinnuna). En já ég reyndi að hvíla mig með reglulegu millibili í dag og ekki missa mig eins í að „taka upp vörur á fullu, þar til allt er komið uppúr kössunum “. Það gekk þokkalega og þó ég væri lúin í lok vinnudagsins þá var ég ekki úrvinda. Þarf að halda áfram að þróa þessa aðferðafræði og finna leið sem hentar mér.

Svo þarf ég að finna fleiri aðferðir í tengslum við orkustjórnun :-)

sunnudagur, 7. apríl 2013

Fögur fyrirheit



Ég er eins og alkarnir sem ætla alltaf að hætta að drekka daginn eftir síðasta fyllerí. Í hvert sinn sem ég hef vælt hér á blogginu um þreytu og vanlíðan, þá fæ ég heljarinnar samviskubit yfir því að geta ekki haldið aftur af mér, og heiti því að gera þetta „aldrei aftur“. Úff púff, já þetta er ekki einfalt líf ;-)

Það liggur reyndar í hlutarins eðli að persónulegt blogg eins og mitt er alltaf sjálfhverft að miklu leyti, öfugt við t.d. blogg sem fjalla um afmörkuð málefni s.s. hönnun, matargerð, ljósmyndun eða stjórnmál svo dæmi séu nefnd. Svo verður að segjast eins og er að frá því um áramótin 2008-2009 hefur síþreytan haft það mikil áhrif á mitt daglega líf að ég get ekki látið eins og hún sé ekki þarna. Stundum finnst mér jafnvel eins og ég hafi breytt um persónuleika á þessu tímabili, eins og gamla Guðný sé horfin og einhver manneskja komin í hennar stað sem ég hef ekki náð að kynnast til fulls ennþá.

Ég er náttúrulega hvorki fyrsta né síðasta manneskjan til að blogga um eigin sjúkdóm. Hjá mörgum verður þetta leið til þess að hafa samskipti við fólk í svipuðum sporum, já og kannski samskipti við umheiminn yfirleitt, því sumt fólk er jú bundið heima. Það er náttúrulega ekki tilfellið hvað mig snertir, sem betur fer, og er ég óskaplega þakklát fyrir að hafa þó þá heilsu sem ég hef.

Málið er bara að þegar þreytan verður svona ofboðsleg þá gegnsýrir hún alla mína hugsun og allt mitt líf, og lítið atriði eins og að mæta í vinnuna á laugardegi verður að risavöxnu vandamáli. Samt langar mig alls ekki að hætta að vinna.

Jamm og jæja, það eru endalausar spurningar í höfðinu á mér en fátt um svör.

Ég á ábyggilega eftir að missa mig oftar í að kvarta og kveina hér á blogginu en mig langar að leggja meiri áherslu á eitthvað uppbyggilegt. Enda á ég auðvelt með að vera bjartsýn, þá daga sem ég er ekki í andarslitrunum af þreytu.




laugardagur, 6. apríl 2013

20 mínútna ljósmynda-úthald

Ljósmynda-úthald já ... hehe mér datt ekki í hug neitt íslenskt orð yfir enska orðið „session“ en sem sagt ég fór í ljósmyndaferð í morgun og ók út að brúnni yfir Hörgá sem tók rúmar 10 mínútur. Þar stoppaði ég, fór út úr bílnum og klöngraðist niður að ánni, og staldraði við í heilar 20 mínútur og tók myndir. Að þessum tuttugu mínútum liðnum var öll orkan búin og ég er ekki að grínast, ég staulaðist með harmkvælum aftur upp á veg og inn í bíl. Verkjaði í allan skrokkinn, með hjartslátt og bara alveg búin á því.

Það var reyndar alveg hægt að sjá þetta fyrir, því  ég var svo þreytt eftir vinnu í gær en gerði þau reginmistök að fara samt á stúfana og kíkja í Benetton og Levis búðina, bara svona til að tékka á því hvort ég sæi eitthvað eigulegt, enda 20% afsláttur þar núna um helgina. Í báðum verslunum var tónlistin að æra mig en ég fletti engu að síður samviskusamlega í gegnum allar fataslárnar - bara til að komast að því að það er ótrúlega asnalegt snið á flest öllum flíkunum frá Benetton núna. Vítt pokasnið sem klæðir mig engan veginn. Eftir þetta fór ég svo í Bónus en stoppaði bara stutt þar. Var nánast veik af þreytu í kringum kvöldmatarleytið og þó ég hafi sofið svefni hinna réttlátu í alla nótt þá hafði ég ekki verið nema ca 30 mínútur á fótum í morgun þegar þreytan ætlaði að yfirbuga mig enn á ný.

En eins og pabbi sagði forðum, það er til ráð við öllu nema ráðaleysi, svo ég fékk mér espresso eftir morgunmatinn (vitandi að það myndi hressa mig við um stundarsakir a.m.k.). Síðan skellti Valur sér á skíði en mér fannst að ég yrði nú bara að koma mér eitthvað út úr húsi þar sem ég var jú að fara að vinna kl. eitt. Þannig að ég greip myndavélina, klæddi mig í vetrargallann og brunaði af stað á bílnum um tíuleytið.

Við Hörgá átti ég ca. 15 mínútur í góðum gír með sjálfri mér, þar sem mér tókst að gleyma stund og stað, sorg og sút - og bara var upptekin af því að hugsa um sjónarhorn, myndefni, ljósop og hraða. En fyrr en varði voru áhrifin af kaffinu gufuð upp úr kerfinu og raunveruleikinn skall á mér. Blóðsykurfall og lamandi þreyta. Ég dreif mig aftur heim og þar tók tölvan við að stríða mér og fraus þrisvar sinnum á meðan ég var að reyna að koma myndunum inn í hana. Það tókst þó fyrir rest og afrakstur myndatökunnar má sjá hér.










Eftir að hafa farið í sturtu og borðað afgang af kjötbollum dreif ég mig svo í vinnuna. Það var nú frekar rólegt framan af og ég skrapp í Mössubúð að skoða skó (líka 20% afsláttur þar núna um helgina) án þess þó að kaupa neitt, og fór svo og keypti mér UNA andlitskrem í apótekinu  .... haldið ykkur .... með 20% afslætti, en leyfði svo Köru að fara heim ca. korter yfir þrjú. Það var áfram frekar rólegt til rúmlega fjögur en samt alltaf eitthvað fólk á ferðinni. En svo rétt um hálf fimm kom smá sprengja og þá voru allt í einu nokkrir í biðröð á kassanum hjá mér, posinn fraus ítrekað, já og ég þurfti að pakka inn gjöf - allt á sama tíma.

Þetta bjargaðist þó allt en það var óskaplega föl og þreytt kona sem kom heim úr vinnunni í dag. Heima beið Valur með alveg frábæran mat og hvítvín með. Þetta var ofnbakaður þorskur með pistasíusalsa, sætkartöflumús og sojasmjörsósu.
Mæli svo sannarlega með þessum rétti, hann var ótrúlega gómsætur en Valur notaði reyndar saltfisk-hnakka og það kom mjög vel út.

Og nú er ekkert eftir nema henda sér í sjónvarpssófann og taka lífinu með ró það sem eftir lifir kvölds.

föstudagur, 5. apríl 2013

Hellisbúabrauð




Brauð er eitt af því sem ég hef saknað síðan ég byrjaði að borða mat án glúteins, mjólkur og eggja. Við keyptum okkur reyndar þurrkofn og ég hef bakað (þurrkað) mikið af frækexi en það er mjög ólíkt tilfinningunni sem fylgir því að borða nýbakað brauð. Svo þegar ég verð inn á milli leið á frækexinu, þá kaupi ég glútenlaust brauð sem fæst í Heilsuhúsinu á Glerártorgi á föstudögum. Það brauð er bakað í bakaríinu í Grímsbæ og er alveg ágætt en mér finnst samt eins og það fari ekki alveg nógu vel í mig, a.m.k. er ekki gott að borða mikið af því. 

Um daginn var ég svo að vafra á netinu og fann þessa líka flottu brauðuppskrift. Hún inniheldur ekkert hveiti, ekkert ger, engin egg og engar mjólkurvörur. Þetta var næstum því of gott til að geta verið satt ... Ég vistaði uppskriftina í skjal niðri í vinnu og hélt að ég hefði prentað hana út og tekið með heim, en svo þegar ég ætlaði að fara að baka þetta um páskana fann ég hana ekki. Og þar sem ég var ekki uppá mitt besta heilsufarslega séð (og gigtin hefur áhrif á heilastarfsemina) þá var ekki séns að ég gæti munað af hvaða bloggsíðu ég sótti uppskriftina. En þegar ég hresstist rifjaðist það upp fyrir mér að brauðið hefði verið kallað Hellisbúabrauð og þegar ég „gúgglaði“ það orð fann ég rétta bloggið. 

Svo á miðvikudagsmorguninn áður en ég fór í vinnuna skellti ég öllum innihaldsefnunum í silikon-brauðform (snilldarform sem fást í Pottum og prikum, en ekki hvað) og lét deigið bíða á meðan ég var í vinnunni. Bakaði svo brauðið þegar ég kom heim og JEJ það var svona líka bragðgott. Hm, ég reyndar átti ekki psyllum husk og sleppti því þar af leiðandi í þetta sinn. Psyllum husk (eða fiber husk) er stundum blandað í vatn og drukkið til að auðvelda meltinguna, en hér gegnir það hlutverki bindiefnis. Ég jók aðeins magnið af chia fræjum í staðinn en það dugði greinilega ekki alveg til, þannig að brauðið er ansi laust í sér. En þetta er „alvöru“ brauð og mjög bragðgott og náttúrulega afskaplega hollt, þannig að ég á pottþétt eftir að baka það oftar. 

Uppskriftina sótti ég hingað og unga konan sem birti hana á blogginu sínu hafði aftur á móti sótt sína uppskrift þangað. Það eru nú eiginlega flottari myndir af brauðinu á báðum þessum bloggum en ég gat náttúrulega ekki annað en birt mynd líka ;-)

fimmtudagur, 4. apríl 2013

Tilraunastarfsemi

Að undanförnu hef ég lent í vandræðum með ótrúlega mikið magn af rusl-athugasemdum hér á blogginu. Ég var aldrei með athugasemdakerfið lokað og leiðist sjálfri óskaplega að þurfa að skrifa einhver staðfestingarorð til að geta gert athugasemdir á öðrum bloggsíðum. En síðan þetta rusl byrjaði að flæða inná síðuna mína þá þurfti ég að breyta um aðferðafræði. Upp á síðkastið hefur athugasemdakerfið verið hálf lokað, eða öllu heldur þá hef ég þurft að samþykkja allar athugasemdir áður en þær birtast. Því miður þá dugar þetta aðeins að því leyti að ruslið birtist ekki á síðunni, en kemur í tölvupóstinn min í staðinn, þar sem ég get valið að eyða því. Hins vegar hættir það ekki að koma.

Þannig að mér datt í hug að prófa annað athugasemdakerfi og sjá hvort það virkar eitthvað betur að þessu leyti. Þetta nýja kerfi heitir Disqus  og það er hugsanlega notendavænna, þar sem hægt er að nota facebook aðganginn sinn til að "skrá sig inn" og þar af leiðandi þarf fólk ekki að vera með sérstakan Disqus aðgang. Eini gallinn er sá að allar gömlu athugasemdirnar hurfu þegar ég ræsti nýja kerfið, en ég bað um að þær yrðu fluttar yfir og vonandi gengur það eftir.

En sem sagt, ef þetta er ómögulegt kerfi þá hætti ég bara í því og fer aftur í Blogger kerfið. Það væri gaman að fá að heyra hvað mínum tryggu lesendum finnst um þetta.

miðvikudagur, 3. apríl 2013

Smá lífsmark ...

Mér tókst að krækja mér í einhverja pesti um páskana, tja eða datt í heiftarlegt gigtarkast, það er ekki alltaf gott að segja hvað er hvað. Beinverkir, höfuðverkur, hálssærindi, ógleði, slappleiki og yfirgengileg þreyta + svefnþörf, öll einkenni flensu nema hiti og hósti. Þetta byrjaði fremur sakleysislega á föstudag og laugardag en ágerðist síðan og ég var langverst seinni part sunnudags og á mánudag. Þá lá ég bara og svaf lungann úr deginum. Enda treysti ég mér ekki í vinnu í gær en svo eftir því sem leið á daginn hresstist ég og var farin að líkjast sjálfri mér um kvöldmatarleytið. Fór í vinnu í morgun og gekk ágætlega. Var reyndar í bókhaldi alla fjóra tímana og orðin býsna lúin að því loknu, en það er nú bara eðlilegt því þetta reynir svo á heilann (minn heila a.m.k.).

En já páskafríið og góða veðrið fór þannig að mestu leyti fram hjá mér. Valur hins vegar náði að fara á svigskíði, gönguskíði og ganga á Súlur svo eitthvað sé nefnt. Auk þess að elda hátíðamat ofan í okkur hin alla dagana.


Það sem uppúr stendur er flugferð með Andra á laugardeginum. Ég var hálf lasin en ákvað að drífa mig samt og sá ekki eftir því. Það er ótrúlega gaman að horfa á landið úr lofti og fjöllin voru svo falleg, alhvít og skínandi hrein í sólinni.

Ég talaði líka við Önnu systur á Skype um páskana og þau voru öll veik, hún, Kjell-Einar og Sigurður, svo ekki var það nú gott.

En já vonandi fer nú heilsan bara uppávið úr þessu. Ég ætla að halda áfram að vera dugleg að fara út að ganga, finn hvað það gerir mér gott. Það er fyrst núna að ég er aftur farin að hafa gaman af því að fara út að ganga, en eftir að ég fékk brjósklosið 2008 og vinstri fóturinn varð svona „latur“ þá fauk ánægjan af gönguferðum út í veður og vind. Get ekki lýst því hvað ég er glöð að finna hana aftur.