miðvikudagur, 18. janúar 2012

Gamla settið ætlar að skella sér suður

Það kom skyndilega upp að Valur hafði áhuga á að fara suður á fyrirlestur í tengslum við vinnuna, og í framhaldinu kom upp sú hugmynd að ég myndi fara með honum. Það er orðið langt síðan við höfum farið eitthvert saman tvö og mig langar að fara þrátt fyrir að ég sé ekki alveg eins hress og ég vildi vera.  Það er alltaf gott að skipta aðeins um umhverfi og við munum ábyggilega taka því frekar rólega, þó það sé auðvitað alltaf einhver þvælingur á manni þegar farið er í borgarferð.

Kvöldið fór að stærstum hluta í að snúast í kringum sjálfa mig - en markmiðið var að pakka niður í tösku. Ég veit ekki hvað gerist með mig þegar kemur að því að pakka fyrir ferðalög. Öll skynsemi virðist gufa upp úr kollinum á mér og skyndilega veit ég varla hvað ég heiti. Þar sem ég veit ekki hvað við erum að fara að gera fyrir sunnan, vissi ég ekki heldur hvers konar fatnað ég ætti að taka með. Svo er það buxnavandamálið ógurlega. Ég er búin að grennast heldur mikið og er farin að skrölta innan í öllum buxunum mínum. Hugsanleg lausn er að vera þá í pilsi, en þá er spurning með skófatnað... Þá þarf ég að vera í leðurstígvélum, en þau eru nú ekki besta skótauið í snjó og slabbi, a.m.k. ekki til lengri gönguferða. Hehe, já þetta er erfitt líf... En alla vega, ég pakkaði bara nógu miklu og get þá valið úr. Og nú er ég farin að sofa.

2 ummæli:

Anna Sæm sagði...

Góða ferð og skemmtið ykkur vel :-)

Guðný Pálína sagði...

Takk takk :)