þriðjudagur, 10. janúar 2012

Að ganga á línu - og detta í sífellu

Þannig finnst mér að best sé hægt að lýsa sjálfri mér og ástandinu á mér.

Ef allt hefði verið með felldu þá hefði verkefnalisti dagsins litið svona út:
* Borða morgunmat
* Fara í sturtu
* Setja í þvottavél og hengja upp
* Taka úr uppþvottavélinni
* Prjóna nokkrar umferðir í peysunni á Val
* Taka niður jólaskrautið
* Skila bókum á bókasafnið
* Kíkja í búðir í leit að passandi buxum
* Borða hádegismat
* Mæta fyrr í vinnuna, til að telja vörur

Hljómar vel ekki satt? Það sem ég er búin að gera:
- Borða morgunmat
- Leysa krossgátu að hluta til
- Hanga í tölvunni
- Setja í þvottavél og hengja upp

Ég er ekki að sjá að ég geri margt af hinu, nema borða jú og mæta í vinnuna.
Ástæðan? Leikfimin byrjaði í gær eftir mánaðar hlé, og eins gott það var að fara og hreyfa aftur stífa og stirðnaða vöðva, þá hefur þessi rólegi leikfimistími verið í það mesta fyrir mig m.v. ástandið á mér. Ég ætlaði ekki að geta sofnað í gærkvöldi fyrir þreytuverkjum í fótum og vaknaði svo af sömu ástæðu í nótt. Fór þá og tók verkjatöflur og náði að sofna aftur. Í dag er ég bara öll undirlögð einhvern veginn. Ofboðslega þreytt og lúin, svona heilt yfir.

Þetta er eiginlega ennþá súrara vegna þess að á sunnudaginn var ég hressari. Svo hress reyndar að ég var á fullu að brasa eitthvað megnið af deginum - sem var ekki gáfulegt líkamlega, en gaf mér mikið andlega þann dag. Ég var nefnilega að laga til í vinnuherberginu mínu, sem er búið að vera í drasli síðan í haust. Þegar Ísak byrjaði í MA fannst mér að það yrði að laga aðeins til og grisja leikföng ofl. út úr herberginu hans, og einhverra hluta vegna endaði allt klabbið inni hjá mér. En á sunnudaginn fór ég með þetta allt niður í geymslu og var mjög ánægð með dagsverkið.

En svo ég endi nú þetta væl á jákvæðari nótum, þá var Valur að skoða gamalt blogg (sitt eigið) um daginn og fann þar þessar línur: "Gleðstu yfir góðum degi, gleymdu því sem miður fer". Þetta finnst mér alveg frábær speki og ætla að reyna að hafa meira í huga í framtíðinni. Valur sendi mér svo ljóðið sem inniheldur þessa laglínu:

Heilræði ömmu

Æviskeið mitt, ungi vinur, 
ætla má að styttist senn. 
Harla fátt af fornum dómum 
fullu gildi heldur enn. 
Endurmeti sínar sakir 
sá er dæmir aðra menn. 

Gleðstu yfir góðum degi, 
gleymdu því sem miður fer. 
Sýndu þrek og þolinmæði 
þegar nokkuð útaf ber. 
Hafi slys að höndum borið 
hefði getað farið ver. 

Aldrei skaltu að leiðum lesti 
leita í fari annars manns 
aðeins grafa ennþá dýpra 
eftir bestu kostum hans. 
Geymdu ekki gjafir þínar 
góðum vini - í dánarkrans.


Heiðrekur Guðmundsson

2 ummæli:

ella sagði...

Gott ljóð eftir sveitunga minn.

Guðný Pálína sagði...

Já þetta er snilldarljóð :)