sunnudagur, 8. janúar 2012

Sunnudagur til sælu

Það er ágætt að byrja daginn á smá bjartsýni... Ég ákvað að setjast niður og reyna aðeins að koma skipulagi á kollinn á mér með því að blogga.

Mamma og Ásgrímur eru farin suður aftur, fóru í gær. Það var voða notalegt að hafa þau en allt tekur víst enda, líka heimsóknir ættingja. Eftir að hafa keyrt þau á flugvöllinn skrapp ég aðeins í bæinn. Byrjaði í Pennanum þar sem ég keypti nýju prjónabókina (stóru) en ég hef verið með hana í láni af bókasafninu. Í henni eru margar fallegar uppskriftir og þar sem ég ætla að fara að prjóna peysu á Val uppúr bókinni, og langar auk þess að prjóna fleiri, þá ákvað ég að gaman væri að eiga þessa bók. Næst ranglaði ég inn í Amarohúsið og þar fór ég inn í Christu. Það var 40% afsláttur af útsöluvörum en yfirleitt versla ég ekki föt í þessari búð því mér finnst allt svo dýrt þar. En í gær rak ég sem sagt augun í þvílíka fallega sparikjólinn og stóðst ekki að máta hann. Þar sem hann smellpassaði og er þar að auki mjög klassískur, ákvað ég að kaupa hann. Reyndar er ekki oft sem ég hef tækifæri til að klæðast svona sparilegum kjól, en þegar tækifærið kemur næst þarf ég ekki að væla yfir því að eiga ekki sparikjól ;-)

Eftir að hafa komið við heima og fengið mér steikt beikon og grænmeti dreif ég mig út með myndavélina. Aðallega langaði mig að fá mér smá súrefni, en líka að halda áfram að gera tilraunir með nýju linsuna sem Valur gaf mér í jólagjöf. Það var ágætt. Fyrst fór ég út að tjörninni austan við Leiruveg og svo niður að höfninni við Slippinn. Veðrið var svo milt og það var voða gott að vera bara ein með sjálfri sér og myndavélinni í smá stund.

Í gærkvöldi eldaði Valur pitsu og svo horfðum við á mynd með Ísaki. Maður þakkar bara fyrir hvert andartak sem þessir unglingar nenna að vera með foreldrum sínum :-)

Núna er höfuðið á mér í svo miklu rugli því það er svo margt sem mig langar til að gera en þarf í fyrsta lagi að forgangsraða og í öðru lagi er ég enn þreytt eftir jólatörnina, þannig að þreytan hefur vissulega áhrif á það hvað yfir höfuð er hægt að framkvæma af þeim hugmyndum sem ég fæ.

En já mig langar til að:
- Prjóna peysu á Val
- Prjóna peysur á mig
- Sauma græna kjólinn
- Sauma nýjar eldhúsgardínur
- Mála panelinn í eldhúsinu
- Mála endaveggina tvo í stofunni í hlýjum gráleitum lit
- Laga til í geymslunni niðri, þar sem Valur er búinn að setja upp nýjar hillur
- Mála bekkinn í forstofunni
- Taka upp fúguna í eldhúsi/forstofu og láta setja nýja.

Það er nú rík ástæða fyrir þessu síðast talda. Þegar við flísalögðum eldhúsið og forstofuna létum við setja svo ljósa fúgu á milli flísanna og þar að auki er mjög breið fúgan. Svo kom bara í ljós að þessi blessuð fúga er alltaf skítug og í staðinn fyrir ljósa fallega fúgu erum við núna með dökka, blettótta, skítuga fúgu. Eina ráðið til að þrífa hana er að nota sterka sápu og skríða á gólfinu með skrúbb og skrúbba hvern einasta sentimetra. Það gerði ég síðast vorið 2008, rétt áður en ég fékk brjósklosið, og mun ekki gera oftar held ég.

Jæja nú er ég hætt þessu kellingabloggi (eins og Valur myndi kalla það). Njótið dagsins :-)



2 ummæli:

ella sagði...

Gaman að sjá mynd af mömmu þinni, ég man ykkur heima hjá Sólveigu og Möggu í Vanabyggðinni fyrir ógurlega mörgum árum.

Guðný Pálína sagði...

Já það var alltaf notalegt að koma til þeirra Sólveigar og Möggu :)