miðvikudagur, 4. janúar 2012

Áminning til sjálfrar mín !!

Það er ekki heimsendir þó ég sé í slæmu gigtarkasti. Ég dett niður í þvílíka heimsenda-hugsunarháttinn og finnst eins og þessi breyting á mataræðinu, sem lofaði svo góðu, hafi bara verið loftbóla sem sprakk. En ég ætla nú samt ekki að gefast upp á mataræðinu. Ég fann það alveg sjálf þegar annirnar byrjuðu í vinnunni að ég var viðkvæm fyrir þessu viðbótarálagi, þrátt fyrir að vera orðin töluvert mikið betri en áður, og ég verð bara að gefa sjálfri mér tíma til að safna mér saman aftur, án þess að truflast úr stressi yfir þessu öllu saman. Hm, mjög góð íslenska þetta "að truflast úr stressi", eða hitt þá heldur. Í þessum skrifuðu orðum er ég að borða þurrkað kex með reyktri þorskalifur. Lifrin er nú eiginlega svo feit, að það er ekki hægt að borða mikið af henni í einu og kannski ekki það besta í magann svona rétt fyrir nóttina. En lifrin er hinsvegar stútfull af omega 3, svo það hlýtur nú að vera afskaplega gott að úða þessu í sig.

Mamma og Ásgrímur eru niðri núna. Ég hef víst ekki verið sérlega góður gestgjafi í kvöld, var svo ógurlega lengi að ganga frá í eldhúsinu og þrífa alls skyns dósir og dót fyrir endurvinnsluna. Síðan þurfti að taka af snúrunum og setja í þvottavél og hengja upp. Já og hanga aðeins í tölvunni og hringja í Sunnu. Og allt í einu er kvöldið á enda og ekki er ég búin að sníða kjólinn minn ennþá.

Ég hefði nú kannski átt að geta sniðið hann í dag en þá var ég bara svo ógurlega undirlögð öll, að ég gerði fátt. Svaf til rúmlega níu og tók því mjög rólega framundir hádegi. Hef hreinlega ekki hugmynd um í hvað tíminn fór, því það eina sem ég gerði var að skreppa aðeins í vinnuna og keyra mömmu og Ásgrím út í Kjarnalund. Á meðan þau heimsóttu konu þar fór ég í Bónus og gerði svona miðlungs stór innkaup. Svo skutlaðist ég heim með vörurnar og sótti þau aftur og hélt svo áfram að gera ekki neitt þar til ég eldaði kvöldmatinn. Það kom nú til vegna þess að Valur kokkur var ekki heima.

En já, mikið vona ég nú samt að þetta verði stutt og laggott gigtarkast!

Hér fylgir mynd sem ég tók af "engu" á leiðinni frá Kjarnalundi í dag.


Engin ummæli: