sunnudagur, 1. janúar 2012

1. janúar 2012

Einn af þessum dögum sem maður vildi geta veifað töfrasprota og breyst úr hálf þunglyndum letingja í manneskju sem er full af orku og framkvæmir hluti í stað þess að hugsa bara um þá. Hm, hljómar nú kannski ekki vel að byrja nýja árið á þessum nótum, veit ekki alveg hvaða melankolia vofir yfir mér í dag. Sennilega hefur það eitthvað með málið að gera að ég hef verið óvenju slæm af vefjagigt og þreytu undanfarið og ég kann ekki frekar en venjulega að vinna úr tilfinningunum sem því fylgir.

Gærdagurinn var ósköp rólegur. Ég var að vinna frá 10-12.30 og eftir vinnu gerðist fátt markvert. Ég reyndar lagaði aðeins til í húsinu og var eitthvað að stússast, og fór svo í göngutúr með Rósu vinkonu sem er hér stödd núna. Það er alltaf gaman að ganga með góðri vinkonu og spjalla saman. Eftir göngutúrinn var ég aðeins að æfa mig í ljósmyndun, þ.e.a.s. að nota þrífótinn og taka myndir á tíma. Náði einni ágætri sem ég tók hér af tröppunum fyrir aftan hús.

Valur sá um kvöldmatinn, lambafillé, sem var afskaplega bragðgott. Í forrétt var hörpudiskur en kaffi og koníak í eftirrétt. Ísak drakk nú hvorki kaffið né vínið, bara svo það komi skýrt fram ;)  Enginn hafði lyst á rjómaís eða öðrum sætindum. Við vorum svo bara hér heima í rólegheitum og ekki einu sinni neinir flugeldar sprengdir. Það var nú kannski ekki alveg við hæfi svona á gamlárskvöldi, en ég fór í eldhúsþrifa-æðiskast eftir kvöldmatinn og þreif bæði eldavélina og ofninn. Það er svona þegar þrifa-andinn kemur yfir mann, þá er ekki spurt að stund né stað.

Eftir miðnætti fór Andri á flandur, Ísak í tölvuna og við gamla settið fórum tiltölulega snemma í háttinn. Það bjargaði því samt ekki að í dag var ég svo þreytt og hálf fúl eitthvað. Kannski svaf ég bara of lengi frameftir. En vá hvað ég vildi eiga svona töfrasprota eins og ég óskaði eftir að nota í upphafi færslunnar. Það tekur alltof mikið á að eyða heilum degi í leti og aumingjaskap, hehe ;)

Ég gæti nú til dæmis lesið eitthvað skemmtilegt þegar ég er í fúllyndishorninu, í stað þess að væla og vorkenna sjálfri mér. Ég reyndar kláraði að lesa Gamlingjann á jóladag og verð að segja að eftir ágætis byrjun, fór mér að leiðast sú bók. Frásagnarmátinn sem í upphafi var bara nokkuð skemmtilegur og minnti á Góða dátann Svejk, varð einhvern veginn of yfirgengilegur og hélt ekki athyglinni hjá mér nema ósköp takmarkaða stund í einu. Svo fékk ég bók, sem ég man ekki hvað heitir í augnablikinu, frá Sunnu í afmælisgjöf og á alveg eftir að lesa hana. Ég gæti líka sniðið kjól, því ég á bæði efni og snið. Talandi um kjóla þá keypti ég kjól með 40% afslætti í Benetton 30. des. og er mjög ánægð með hann, svo það ætti nú að geta glatt mig. Annað sem ég gæti gert er að ákveða eitthvað prjónaverkefni. Ég á t.d. bæði bláan plötulopa og slatta af svörtum léttlopa og gæti gert eitthvað úr þeim efnivið. Mig langar að prjóna peysu á sjálfa mig en veit bara ekki hvernig peysu mig langar mest í. Enn eitt sem ég gæti gert er að laga til í geymslunni niðri. Valur keypti nefnilega nýjar hillur rétt fyrir jól og setti þær upp, en það á alveg eftir að fara í allsherjar tiltekt og raða fínt í hillurnar.

Og nú er ég barasta búin að skrifa mig í betra skap - svo allir geta varpað öndinni léttar ;-) Kannski ég fari þá bara að framkvæma eitthvað af öllum þessum atriðum hér að ofan.

Engin ummæli: