miðvikudagur, 28. september 2011

Í gærkvöldi bjó ég til morgunverðar-múslí

Og að sjálfsögðu samkvæmt öllum nýjustu upplýsingum um það hvað ég má og má ekki borða. Það átti nú reyndar að vera haframjöl en því sleppti ég. Þannig að í þetta fór: Kókosflögur, cashew hnetur, valhnetur, möndlur, sólkjarnafræ, graskersfræ og sesamfræ. Kryddað með vanilludufti, múskat og salti. Hrært saman við kókosolíu, hnetusmjör og sætuefni. Allt sett inn í ofn og ristað í 14 mín. Ég hafði það nú aðeins of lengi, fannst eitthvað lítið vera að gerast, kannski af því þetta var í svo þykku lagi á ofnplötunni. Þegar hér var komið sögu spurði Ísak hvað ég væri að baka því honum fannst svo mikil jólalykt í húsinu ;-)

Þegar ég tók herlegheitin út úr ofninum sá ég að vökvinn var alltof mikill miðað við þurrefnin, enda hafði ég jú sleppt 250 gr. af haframjöli. Til að reyna að bjarga þessu aðeins, dreifði ég kókosmjöli og fiberhusk yfir og hrærði í, en það hafði lítið að segja. En þetta bragðaðist ágætlega, sem var vissulega stór plús.

Í morgun ákvað ég samt að fá mér beikon og grænmeti og bíða með múslíið. Ég var nefnilega að fara í klippingu og litun og það vill nú taka langan tíma, og ég vildi ekki verða svöng. En áðan þegar ég kom heim ákvað ég að nú væri kominn tími á að smakka dásemdina og athuga hvernig gumsið færi í maga. Niðurstaðan er sú að þetta bragðast nokkuð vel. Ég held að það sé ekki hætta á því að maður borði yfir sig af þessu, því þetta er svakalega saðsamt. En - mér er illt í maganum :-( Skil ekki þennan maga minn. Mig vantar jú reyndar meira af meltingarensímum, svo kannski það sé vandamálið. Eða að sojamjólkin fer svona illa í mig. Hef aldrei notað sojamjólk áður og í þessi fáu skipti sem ég hef gert það undanfarna daga hef ég orðið uppblásin á eftir. Úff, þetta eru nú meiri pælingarnar. Kannski hef ég bara hreinlega borðað of stóran skammt ...

Til gamans þá datt mér í hug að reikna á vísindalegan hátt út kolvetnamagnið í múslíinu. Skrifaði upp öll innihaldsefnin, magnið sem fór í þetta + magn kolvetna í 100 gr. af viðkomandi efni, og lét excel reikna út heildarkolvetnismagn. Niðurstaðan er sú að ef hver skammtur er ca. 100 gr. (veit reyndar ekki hvort það er passlegt magn eða ekki) þá inniheldur hann 17 gr. af kolvetnum. Sem er frekar mikið, svona ef heildar dagsskamturinn á ekki að vera nema ca. 50-70 gr. En já já ég hef nú svo sem ekki verið að reikna út magn kolvetna yfir daginn hjá mér, heldur látið brjóstvitið ráða ferð.




Engin ummæli: