laugardagur, 24. september 2011

Fyrsta tilraun til að borða eftir nýju reglunum

gekk nú ekkert sérstaklega vel. Ja, eða önnur tilraun reyndar. Í gærkvöldi voru hamborgarar í matinn og ég borðaði "allsberan" hamborgara, með tómötum, beikoni, spínat- og gúrkusalati. Já og sósu sem ég hafði keypt í heilsuhúsinu og er einhvers konar majones án eggja. Þetta reyndar fór alveg sæmilega í mig. Fyrir nóttina var ég samt svöng og fékk mér pínulítið af sardínum í olíu. Sem mér finnast ekki góðar, en eru næringarríkar. Mér varð nú hálf flökurt af þeim.

Áðan reyndi svo á mig fyrir alvöru. Morgunmatur var það heillin og nú er ekki lengur hægt að steikja beikon og egg. Lausnin varð að fá sér orkuhristing sem samanstóð af bringuberjum (lítið kolvetnainnihald), bláberjum (aðeins meira kolvetnainnihald en ég fékk mér bara lítið), hörfræolíu (notaði slatta af henni), sojaprótein (sem ég keypti í gær í staðinn fyrir mitt venjulega mysuprótein) og svo blandaði ég hrísmjólk (hærra kolvetnainnihald) með sojamjólk (sem hefur mjög lágt kolvetnagildi). Það sást nú strax þegar ég byrjaði að blanda þetta að áferðin varð ekki sú sama og venjulega. Þetta var meiri klessa einhvern veginn og blandaðist greinilega ekki jafn vel og mér fannst það eiga að gera. Svo ég setti meiri sojamjólk saman við.

Bragðið var eins og ég hefði blandað sementi saman við ávextina. Gróft en samt þannig að það smitaði einhvern veginn út frá sér af því það væri svo fíngert. Alls ekki gott. En ég hugsaði með mér að öllu mætti venjast þannig að gott þætti, og þrælaði draslinu í mig. Þurfti reyndar ítrekað að hella sojamjólk saman við til bæta bragð og áferð. Ég var samt ekki einu sinni búin með skammtinn þegar ég fann að þetta var ekki að fara vel í magann á mér. Og já já, skömmu síðar var ég byrjuð að ropa, leið illa og fékk hraðan hjartslátt. Uss, meira ruglið!

Engin ummæli: