Sem sagt, eftir að hafa verið pínulítið "high" í gær og bara nokkuð ánægð með að hafa fengið þessar upplýsingar um mataróþol, þá var jú laugardagur í dag og laugardagar eru alltaf "þreytu-breakdown" dagar. Sem þýðir jafnframt að þegar ég er svona ofboðslega þreytt eftir vikuna, þá dett ég líka niður í smá þunglyndi og á erfitt með að sjá nokkra framtíð í mínu lífi yfir höfuð. Í dag bættist streita við þreytu- og þunglyndispakkann. Ég hafði verið talsvert á netinu í gærkvöldi að skoða mataræðis-síður og aðal vandamálið er jú að uppskriftir sem gera t.d. ráð fyrir glúteinóþoli, eru oft fullar af annars konar dóti s.s. öðrum mjöltegundum með hátt hlutfall kolvetnis, svo dæmi sé nefnt.
Og eftir að hafa borðað þennan ógeðis-orkuhristing með sojapróteini í morgunmat hallaði enn fremur á ógæfuhliðina hjá mér. En það þýðir víst ekkert að gefast upp. Einhvern tímann fyrir hádegið fengum við Valur okkur kaffi - og hann bjó til sojalatté handa mér sem bragðaðist bara mjög vel. Með kaffinu borðaði ég hrökkbrauð sem ég var nýlega búin að baka en það inniheldur reyndar helling af eggjum, eða 5 egg í heildaruppskriftinni. Ég fékk mér bara litla sneið og mokaði kindakæfu ofaná.
Það leið þó ekki á löngu þar til átvaglið var aftur orðið svangt og nú voru góð ráð dýr... Ég opnaði ísskápinn og kannaði úrvalið þar. Fann:
- Afgang af grilluðum laxi
- Túnfisk í olíu
- 1 gulrót
- Smá hvítkál
- Slatta af spínati
Þessu skellti ég öllu saman á pönnu og kryddaði með salti og pipar. Verð nú að segja að útkoman kom ánægjulega á óvart. Það að blanda má túnfiski saman við laxinn gerði extra piff í þetta. Það er eitthvað saltbragð af túnfiskinum sem tekur mesta "væmnis" bragðið af soðna laxinum.
Dauðsá eftir að hafa ekki tekið mynd af fíneríinu til að hafa með þessari færslu - sérstaklega þar sem við erum komin með nýja hversdags-matardiska sem eru afskaplega myndvænir :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli