þriðjudagur, 27. september 2011

Bjartari tímar

Já ég ákvað að detta í bjartsýnisgírinn og hætta öllu væli. Í því tilefni breytti ég um útilit á blogginu og er það nú rammað inn af þeim dásamlega fallegu blómum sem kallast hádegisblóm. Þau eru þeim eiginleika búin að sýna fegurð sína aðeins ef sólin skín, annars eru þau samankreppt og lokuð. Myndina tók ég í Lystigarðinum í september 2009 og er þetta sú mynd sem flestir hafa skoðað á flick'r síðunni minni, eða 1.649 manns.

Eini gallinn við þetta nýja útlit, er að aðrar ljósmyndir taka sig ekki alveg nógu vel út, innan um þetta blómahaf. Þannig að kannski mun ég taka hádegisblómin út seinna meir, en fyrst ætla ég að njóta þeirra um sinn. 

Varðandi mataræðið, þá er ég komin yfir mesta sjokkið sem fylgdi því að finnast ég hreinlega ekki mega borða neitt. Og búin að komast að því að það er alveg hægt að lifa án mjólkurvara, eggja, hveitis og kolvetna. Það krefst aðeins meiri hugmyndaauðgi og skipulagningar, en er alveg hægt. Ég meira að segja prófa að borða ýmislegt sem ég hefði kannski ekki gert ella. Svo er ég búin að liggja á netinu og skoða uppskriftir þó ég sé nú ekki búin að baka eða elda eftir þeim ennþá. 

Svo er það í frásögur færandi, að ég er byrjuð í leikfimi fyrir vefjagigtarkonur, og það er bara algjör snilld. Mjúkar æfingar sem reyna hæfilega á en ná að liðka aðeins stífa og stirða skrokka. 

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

´Ég bý í kópavogi og les alltaf bloggið þitt, sem mér finnst bæði einlægt og áhugavert, þó ég hafi ekki kommenterað fyrr.Finnst þú vera afar dugleg að vinna í þínum sjúkdómi, sem ég veit að getur verið mjög erfiður. Óska þér alls hins besta. Kveðja, Þórdís.

Guðný Pálína sagði...

Þakka þér kærlega fyrir kommentið Þórdís. Gaman að heyra frá þér :)