föstudagur, 23. september 2011

Dómur er fallinn

Ég er hraustasta kona á norðurhveli jarðar... Eða þannig. En já þar sem ég var búin að opinbera fyrir alþjóð að ég fór til Noregs, þar sem voru teknar af mér ítarlegar blóðprufur (og  meira að segja hægðaprufur) þá tel ég mér eiginlega skylt að skýra alþjóð einnig frá niðurstöðum þessara rannsókna.

Í gær kom loks að því að ég heyrði í norska lækninum aftur. Hún hringdi í mig með niðurstöðurnar og að sjálfsögðu fannst fátt að mér. Það er að segja, í þessum hefðbundnu blóðprufum (svona eins og teknar eru þegar maður fer til læknis hér á Íslandi) fannst fátt athugavert. Það helsta var að ég var eitthvað undir lágmarkinu í sinki.  Einnig voru teknar af mér prufur til að kanna hvort ég væri með einhverjar virkar sýkingar en það eina sem kom út úr því var að ég var á gráu svæði með einhverja sýkingu sem á norsku heitir "atypisk lungebetennelse".

Svo var komið að aðal niðurstöðunum. Þær voru í sambandi við mataróþol. Það er nú frekar fyndið, að ég sem hef svoleiðis verið að dæla í mig eggjum undanfarið, er með mjög mikið óþol fyrir eggjum. Skoraði fullt hús stiga þar. Svo er ég með óþol fyrir mjólk og mysu. Ég taldi mig nú reyndar vita að ég væri með óþol fyrir mjólkursykrinum (laktósa) en kom á óvart að ég er líka með óþol fyrir sjálfu mjólkurpróteininu. Sem þýðir að ég má ekki borða neinar mjólkurafurðir. Og ég sem hef á LCHF mataræðinu verið að drekka rjóma beint úr fernunni og blanda rjóma saman við jógúrt og kotasælu + nota alveg helling af íslensku smjöri. Já og osta, ekki má gleyma þeim. Nú er komið blátt bann við þessu öllu. Svo hef ég verið að nota mysuprótein út í orkuhristinga (og mikinn rjóma). Þar að auki er ég  (eins og mig hafði grunað) með óþol fyrir glúteini, og geri þar að auki.

Og já já, af því ég er nú byrjuð að tjá mig um þessar niðurstöður á annað borð, þá kom það út úr hægðaprufunni að ég er með smávegis sveppi í þörmunum, en bara lítið, og aðeins of hátt hlutfall af streptokokkum í þarmaflórunni (veit ekki hvort það skiptir máli). Einnig er ertingur í smáþörmunum, líklega til kominn vegna þess að ég er að borða mat sem ég þoli ekki. Svo er of lítið af meltingarensímum í kerfinu.

Þannig að hér er nú ýmislegt sem hægt er að leiðrétta. Læknirinn mælti reyndar með að ég prófaði að fá B12 sprautur í fimm vikur, til að sjá hvort þær gerðu mér gott, þrátt fyrir að í raun væri í lagi með b12 birgðirnar hjá mér. Hún sagði að þetta vítamín hefði oft góð áhrif á síþreytu-vandamál, svo það væri vert að prófa það. Svo á ég að taka sink, meltingarensím og fjölvítamín, auk þess sem hún ætlaði að láta mig taka eitthvað við sveppunum (en ég man ekki hvað það heitir). Aðalmeðferðin felst samt í breyttu mataræði.

Ég viðurkenni að ég fékk smá sjokk þegar ég áttaði mig á því hve umfangsmiklar breytingar ég þyrfti að gera á mataræðinu. Það hefði auðvitað verið mun auðveldara fyrir mig að ég væri "bara" með einhverja sýkingu sem ég gæti tekið lyf við og allt yrði gott á ný. En málið er víst ekki svo einfalt.

Kosturinn er þó sá, að þetta er eitthvað sem hægt er að vinna með. Ég sá jú töluverða breytingu á líðan minni þegar ég tók út mest öll kolvetni (hef varla borðað neitt með glúteini síðan í byrjun ágúst), svo það ætti að skila mér enn betri árangri að taka út allt hitt "eitrið" líka. Sú norska mælti reyndar með að ég héldi áfram með LCHF mataræðið, úr því það hefði greinilega haft góð áhrif. Það verður bara ansi mikið erfiðara. Ég hef t.d. verið að borða egg og beikon í morgunmat alla daga. Og það skrítna er að mér finnst það hafa virkað vel á mig. Södd lengi og ekki uppþemd. Svo eru egg aðaluppistaðan í öllum LCHF bakstri, já og mikið smjör.

Nú þarf ég bara að leggjast í rannsóknir og finna mér eitthvað til að borða. Það erfiðasta er morgunmaturinn og kannski kaffitíminn. Mér var farið að finnast ansi notalegt að fá mér egg og beikon á hverjum morgni. Ekki get ég borðað hafragraut eða hafradrullu (morgunmaturinn allan síðasta vetur, kannski ekki nema furða að ég hafi verið þreytt). Það er jú bæði glútein í höfrum og eins eru þeir fullir af kolvetnum. Ég get fengið mér orkuhristing ef ég skipti út mysupróteininu fyrir sojaprótein en gallinn er sá að mér verður ískalt af þessum mat, og ekki gott að byrja daginn á að frjósa úr kulda. Í morgun borðaði ég afgang af kjúklingabringum í morgunmat... held samt að ég nenni nú ekki að borða matarafganga á hverjum morgni, auk þess sem ég vil frekar eiga afgangana í hádeginu.

Já þannig að þetta verður fjör.

Engin ummæli: