þriðjudagur, 28. júní 2011

Hátt uppi á Dynjandisheiði

fundum við Valur þetta fallega litla ísilagða vatn. Já við skelltum okkur sem sagt vestur á firði, í heimsókn til Guðbjargar og Hjartar í Vertshúsi á Þingeyri. Þangað komu líka, öllum til mikillar undrunar, Gunna og Matti (tengdó) og var það ansi vel gert hjá þeim, enda orðin vel fullorðin og ferðast ekki mikið.

Við tókum tvo daga í ferðina vestur. Lögðum af stað á þriðjudagskvöldi og gistum að Laugum í Sælingsdal. Daginn eftir héldum við áfram en í miklum rólegheitum og stoppuðum nokkuð lengi bæði í Flókalundi og á Hrafnseyri, auk þess að stoppa til að taka myndir þegar sá gállinn var á okkur. Við skoðuðum nýju sýninguna um Jón Sigurðsson á Hrafnseyri og er alveg hægt að mæla með henni.

Daginn eftir fórum við í túristaskoðunarferð í eyjuna Vigur á Ísafjarðardjúpi og þangað var virkilega gaman að koma. Mikið fuglalíf og við sáum meira að segja tvo seli flatmaga þarna fyrir utan. Það er líka mikið æðarvarp og gaman að sjá endurnar vagga um þarna í túninu. Síðast en ekki síst var boðið uppá kaffi og heimabakað meðlæti í lok skoðunarferðarinnar og veitingarnar voru sko ekkert slor.

Frekari ferðasaga bíður betri tíma.

föstudagur, 17. júní 2011

Meira vesenið að vera með heila

Það er að segja, vesenið er kannski ekki akkúrat það að vera með heila, heldur hugsanirnar sem fara í gegnum þennan heila. Ef maður gæti nú bara notað þetta flotta verkfæri til gáfulegra hluta og sleppt öllu ruglinu, en ónei, það er víst ekki í boði.

Um leið og það verður meira að gera í vinnunni þá get ég ekki sofnað á kvöldin af því ég held endalaust áfram að hugsa um þetta og hitt sem ég komst ekki yfir að gera. Svo man ég allt í einu eftir einhverju sem ég hafði gleymt - og hugsa um allt sem fyrirliggur o.s.frv. Síðan fer ég að hafa samviskubit yfir því að ætla í sumarfrí í þrjár vikur og skilja Sunnu eftir með allt sem þarf að gera á meðan. Vandamálið er, að fyrir utan jólavertíðina þá er þetta sá árstími sem mest er að gera, og um leið og salan eykst, þá eykst líka tíminn sem fer í alls kyns utanumhald og stúss. En þegar við erum á fullu að afgreiða viðskiptavini, þá er enn minni tími til að sinna sjálfum rekstrarþættinum. Svo þetta verður pínu súrsætt allt saman.

Annað sem veltist um í þessum heila mínum er sumarfríið. Mig langar að gera eitthvað skemmtilegt og jú jú ég mun gera eitthvað skemmtilegt í fríinu. En hvað á það að vera? Hvert á að fara? Og hvernig skyldi nú heilsan vera? Ætli mér takist að safna mér eitthvað saman, eða verður þetta bara áfram sama þreytubreakdown dæmið alla daga?

Mér finnst samt alltaf jafn merkilegt hvað mér tekst að halda haus á meðan ég er í vinnunni. Það er eins og það sé eitthvað adrenalínflæði sem haldi mér gangandi þar. Eins og t.d. í gær. Þá labbaði ég í bæinn til að sækja vörur og gekk þaðan inná Glerártorg. Var komin þangað um hálf þrjú og svo settist ég ekki niður næstu fjóra tímana. Það leit út fyrir að ætla að vera frekar rólegt en svo var ég bæði að halda áfram að taka upp vörur, og líka á fullu að afgreiða og pakka inn gjöfum og var hreinlega orðin kófsveitt á tímabili. Ekki var heldur tími til að borða. Ég var auðvitað voða glöð að hafa nóg að gera og fá pening í kassann, en þetta þýddi líka að ég stóð varla í lappirnar í gærkvöldi og bara það að fara í sturtu í dag var mér næstum um megn.

En það er þá líka gott að hafa getað hvílt sig í dag því á morgun er ég að vinna - já og svo opnar sýningin okkar á morgun klukkan þrjú. Ég á að vera í vinnunni á þeim tíma, en ef það verður rólegt þá fæ ég kannski að skreppa og kíkja á sýninguna. Ég hef bara séð mynd eftir eina aðra konu og það verður spennandi að sjá myndir hinna. Við erum tíu sem sýnum og hver með okkar ólíka bakgrunn, svo útkoman er án efa mjög fjölbreytt.

fimmtudagur, 16. júní 2011

Opnunartímar verslana

Já mér þykir fólk vera farið að teygja sig verulega þegar það er opið í mörgum verslunum á 17. júní. Ég bara skil ekki tilganginn - þ.e.a.s. ég veit jú að markmiðið er að græða peninga, en er ekkert heilagt lengur? Það er opið á frídegi verslunarmanna, opið á þjóðhátíðardaginn... Ég læt það vera þó ein og ein matvöruverslun sé með opið en ég sé ekki tilganginn í að vera með opið í Nettó, Rúmfatalagernum, Tiger og tískuverslunum. Og já ég veit að ég er ábyggilega mjög skrítin að hafa þá ekki líka opið til að fá aur í kassann, en mér finnst þetta bara ekki rétt þróun.

þriðjudagur, 14. júní 2011

Þetta er allt að hafast

Ég er búin að ákveða hvaða mynd ég ætla að nota og Valur snillingur er meira að segja búinn að prenta hana út fyrir mig á afskaplega fallegan mattan og örlítið gulleitan pappír, sem gefur þessu dásamlega gamalt yfirbragð. Við höfðum stóran hvítan kant utan um sjálfa myndina og ég ætla ekki að setja neinn annan ramma, þetta er alveg fullkomið svona. Það er alltaf jafn gaman að sjá hvað myndir öðlast nýtt líf við að vera prentaðar út í fullum gæðum. Þó þetta sé sama myndin og hér að neðan, þá er hún svona þúsund sinnum flottari útprentuð.

Annars er bara allt að fara á fullt í vinnunni þessa dagana. Brúðkaup og útskriftir eru bráðnauðsynlegur hlutur fyrir verslanir eins og okkar og skipta gríðarlegu máli. Ég var þvílíkt á fullu í allan morgun og náði samt ekki að klára allt sem ég hafði ætlað mér, því það var svo mikið að gera við að afgreiða viðskiptavini. Mikið stuð!

mánudagur, 13. júní 2011

Óheppni

Valur fór í veiði í dag og ætlaði að vera fram á miðvikudag. Því miður var hann svo óheppinn að slíta vöðva í aftanverðu læri þegar hann hafði einungis veitt í stutta stund, svo hann er kominn heim aftur. Sem betur fer hafði hann þó náð að setja í nokkra fiska þegar þetta gerðist svo ferðin var ekki alveg ónýt að hans mati.

Það hitti þannig á að ég hafði verið búin að elda grænmetissúpu (handa sjálfri mér, enda ekki uppáhaldsmaturinn hans Ísaks og Andri að vinna), þannig að aldrei þessu vant gat ég gefið bóndanum mat þegar hann kom heim. Það var smá sárabót fyrir sjálfa mig að geta boðið uppá súpu, en mér fannst svo hræðilega leiðinlegt hans vegna að lenda í þessu.

Ég fór á hjóli í Hrísalund í dag en hef að öðru leyti haldið mest kyrru fyrir. Fór ekki á Álfkonufund, þar sem verið var að ræða sýninguna sem á víst að setja upp þann 16. ef ég skil rétt. Ég ætla að hafa mynd þar sem kannan er eingöngu og hafa hana stærð A5, í ramma sem er ca. A4 á stærð en þó ekki alveg. Ramminn er nefnilega svo gamall að hann passar ekki inní staðlaðar stærðir nútímans. Því miður veit ég ekkert meira um þennan ramma. Hann er ekki með gleri og er að losna upp á hornunm, svo ég þarf að líma þau. Ég er að spá í að prófa að prenta myndina á mattan pappír og sleppa því að hafa gler. Þetta verður svolítið annar stíll heldur en síðast og markmiðið er jú að formið hæfi myndefninu og tilefninu. Svo má alltaf deila um smekkinn og það hversu vel tekst til.

Litadýrð hjá Dóru á móti



Þegar ég skrapp að skila pottablóminu til Dóru aftur gripu þessir túlípanar athygli mína. Svo dásamlega rauðir og flottir í sólinni. Auðvitað varð ég að smella mynd af þeim :-)

sunnudagur, 12. júní 2011

Enn ein tilraun




Og já ég er að verða brjáluð á því að komast ekki að niðurstöðu í þessu. Er samt búin að fá tvær ábendingar og er með þessari tilraun að prófa að setja þær saman í þessari mynd. Mjög þakklát fólki fyrir að nenna að gefa sér tíma til að mynda sér skoðun :)

Ég er ekki að fatta að það sé 12. júní í dag

Skil hreinlega ekki hvernig tíminn flýgur áfram! Nú styttist heldur betur í sumarfrí hjá mér. Sunna er í fríi þessa viku og svo fer ég í frí í næstu viku. Markmiðið er að vera í fríi í þrjár vikur (sjúkranuddarinn minn segir reyndar að ég þyrfti helst að fara í 3ja mánaða frí - en það er nú ekki beint í boði ;) Valur er í fimm vikna fríi, svo það er nú bara mjög gott ná þremur vikum saman. Við erum reyndar ekki búin að skipuleggja neinar ferðir, það ræðst svo mikið af því hvernig ástandið á frúnni verður. En eitthvað reynum við nú að fara, það er alveg pottþétt. Svo kemur Hrefna heim í lok júní og stoppar hér á landi í rúmar tvær vikur. Það verður gaman að fá hana heim og kannski hún vilji skreppa í einhverja smá ferð með gamla settinu, það er aldrei að vita. Ísak er kominn á þann aldur að hann nennir ekki lengur að fara með okkur svona innanlands og Andri er að vinna á fullu í sumar.

Nú fór ég allt í einu að spá í það, að kannski væri ég betur að skilja að það sé kominn miður júní, ef veðrið væri betra. Hér hefur jú ekki beint verið sumarveður undanfarið, ef gærdagurinn er undanskilinn. Framan af degi var ótrúlega gott veður, sól og logn, og við sátum úti á palli í hádeginu og borðuðum með Guðjóni bróður Vals, Eddu konunni hans og syni og tengdadóttur þeirra. Þau gistu hjá okkur eina nótt en eru núna farin í veiði í Laxárdal. Valur fer reyndar líka í veiði á morgun, en hann fer í sína elskuðu Mývatnssveit.

Ég gerði aðra tilraun í gær til að taka myndir fyrir sýningu Álfkvenna. Fékk lánaða Sánkti Pálu hjá Dóru á móti og tók myndir af vökvunarkönnunni hennar Ömmu með blóminu. Finnst það ekki heldur vera að gera sig og er að missa þolinmæðina í þessu dæmi öllu saman. Jamm, þolinmæði hefur víst aldrei verið mín sterka hlið... En hér koma þær myndir sem ég hef úr að velja:






Ef einhver hefur hina minnstu skoðun á þessu máli þá má sá hinn sami gjarnan tjá sig - án nokkurra skuldbindinga af minni hálfu ;-)

föstudagur, 10. júní 2011

Lata Guðný

Það er eitthvað mjög undarlegt sem gerist stundum þegar ég borða brauð eða hrökkbrauð. Örskömmu síðar verð ég svo slöpp, þreytt og sljó, að það er hreinlega eins og ég fái einhverja eitrun út í kerfið.

En það átti reyndar ekki að verða umfjöllunarefni þessa pistils, heldur sú staðreynd að ég nenni engu í dag. Ég hef sofið illa tvær síðustu nætur + að ég var á fullu í allan gærdag => núna er ég eins og drusla og bara svoooo löt. Samt svaf ég til níu í morgun, svo það hefði nú átt að vera nóg. En á þessum tveimur og hálfum tíma sem ég hef verið vakandi hef ég ekki gert neitt nema fá mér að borða, lesa blöðin, taka úr uppþvottavélinni, hanga í tölvunni og setja eina skyrtu í þvottavél.

Það sem ég þyrfti að gera er að fara með Ísak í bæinn að kaupa skó á hann, en þeir gömlu hafa dugað í heilt ár að minnsta kosti, en eru nú algjörlega búnir. Það hefur ekki gengið vel að finna tíma í bæjarferð sem hentar drengnum og var pabbi hans margoft búinn að bjóðast til að fara með honum, en aldrei passaði það. Ég þyrfti líka að fara í gestaherbergið, setja lak á rúmið og þurrka af ryk, því við eigum von á næturgestum. Sem er mjög ánægjulegt, svo það sé nú á hreinu. Já og svo þyrfti ég að fara í sturtu og upphugsa einhvern fatnað fyrir vinnuna í dag. Ég bara skil ekki hvað mér finnst orðið erfitt að ákveða í hvaða fötum ég á að vera á daginn. Það er ekki eins og það skipti meginmáli, tja svona fyrir utan það að ég vil líta þokkalega snyrtilega út. En ég dett stundum í það að prófa alls kyns samsetningar og finnast allt ómögulegt - og svo er ég allt í einu að verða alltof sein í vinnuna, bara af því ég er að eyða tíma í þessa vitleysu.

Svo ég tali nú um eitthvað skemmtilegra, þá hittumst við Álfkonur (ljósmyndaklúbburinn minn) í Lystigarðinum í gær. Erindið var að taka mynd af hópnum sem ætlar að vera með á næstu ljósmyndasýningu sem opnar eftir 8 daga. Það var rigning og mér varð skítkalt þrátt fyrir að vera í lopapeysu, en það var samt svo gaman hjá okkur. Það var tekinn urmull af myndum en samt gekk nú illa að finna mynd sem var góð af öllum. Svo voru líka teknar sprell myndir. Hér er "opinbera" útgáfan :-)
og hér er smá sprell
Ef smellt er á myndirnar þá opnast þær stærri.

miðvikudagur, 8. júní 2011

Heill frídagur framundan

og ég veit ekkert í hvað ég ætla að nota hann. Það er að segja, ég veit jú alveg að ég mun taka því frekar rólega, enda mjög lúin í gær - en eitthvað annað langar mig til að gera. Úti er 5 stiga hiti og sólarlaust, a.m.k. enn sem komið er. Ég vildi óska að það kæmi sól. Mér er sama þó ekki sé mjög heitt, svo lengi sem þetta gula góða er á himninum. Eins og í gær. Það var alveg dásamlegt að fara í sund og njóta þess að stoppa á milli ferða, leggjast með höfuðið upp að bakkanum, loka augunum, hlusta á öldugjálfrið og finna sólina hita upp vangann.

Þegar sólin skín get ég líka farið í Lystigarðinn og tekið blómamyndir en það er nýjasta dellan hjá mér í ljósmynduninni. Eina vandamálið er að það er pínu erfitt líkamlega að taka þær myndir. Helst vil ég taka þær frá öðru sjónarhorni en þessu hefðbundna, og það krefst þess að ég annað hvort sitji á hækjum mér og beygi mig fram (sem er mjög erfitt að gera í langan tíma þegar maður heldur á stórri/þungri linsu), eða leggist í jörðina (sem er mun auðveldara fyrir mig, en erfitt að koma við inni í miðju blómabeði). En mér finnast svona bjartar og litríkar blómamyndir svolítið góðar fyrir sálina og gaman að sjá hvernig plönturnar líta út svona "up close".

Talandi um myndir þá er enn ein ljósmyndasýningin á döfinni hjá ljósmyndaklúbbnum mínum. Þetta fer nú eiginlega að verða svolítið fyndið því ég hafði aldrei prentað út mynd eftir sjálfa mig fyrr en þessar sýningar byrjuðu. Í þetta sinn er málið reyndar pínu flóknara en áður því sýninging er hluti af stærra verkefni. Myndirnar eiga á einhvern hátt að tengjast rótum okkar eða uppruna en við megum ráða því á hvern hátt við nálgumst efnið. Ég er búin að vera pínu stressuð yfir þessu af því ég var engan veginn að sjá af hverju ég gæti tekið myndir.

En lausnin verður líklega sú að finna einhvern hlut sem tengist t.d. mömmu eða ömmu á einhvern hátt og taka mynd af hlutnum. Ég gerði smá prufu í gær en þá fór Valur með mig í Gudmanns minde (fyrsta sjúkrahús á Akureyri sem hefur nú verið gert upp eftir kúnstarinnar reglum) og þar tók ég myndir af gamalli könnu sem amma notaði til að vökva blómin sín þegar hún bjó hérna hjá okkur. Svona eftirá að hyggja hefði kannski verið snjallt að vera líka með blóm á myndinni s.s. Iðnu Lísu (sem mig minnir að hafi verið í glugganum hjá ömmu) eða öðru fjólubláu gamaldags blómi sem ég man ekki hvað heitir og sést sjaldan núorðið. En æ, ég veit sem sagt ekki alveg ennþá hvernig ég ætla að "tækla" þetta verkefni. Finnst samt einhvern veginn að ég verði að taka þátt í þessari sýningu þar sem ég er á annað borð í þessum ljósmyndaklúbbi.


En já, hér kemur svo mynd af Ísaki sem var að útskrifast úr grunnskóla í síðustu viku. Myndgæðin eru ekki alveg nógu góð og þá sérstaklega birtan og litirnir, en það var orðið frekar framorðið þegar myndin var tekin og lágskýjað.

Nú eigum við engin börn í grunnskóla lengur, sem er pínu skrítið.