og ég veit ekkert í hvað ég ætla að nota hann. Það er að segja, ég veit jú alveg að ég mun taka því frekar rólega, enda mjög lúin í gær - en eitthvað annað langar mig til að gera. Úti er 5 stiga hiti og sólarlaust, a.m.k. enn sem komið er. Ég vildi óska að það kæmi sól. Mér er sama þó ekki sé mjög heitt, svo lengi sem þetta gula góða er á himninum. Eins og í gær. Það var alveg dásamlegt að fara í sund og njóta þess að stoppa á milli ferða, leggjast með höfuðið upp að bakkanum, loka augunum, hlusta á öldugjálfrið og finna sólina hita upp vangann.
Þegar sólin skín get ég líka farið í Lystigarðinn og tekið blómamyndir en það er nýjasta dellan hjá mér í ljósmynduninni. Eina vandamálið er að það er pínu erfitt líkamlega að taka þær myndir. Helst vil ég taka þær frá öðru sjónarhorni en þessu hefðbundna, og það krefst þess að ég annað hvort sitji á hækjum mér og beygi mig fram (sem er mjög erfitt að gera í langan tíma þegar maður heldur á stórri/þungri linsu), eða leggist í jörðina (sem er mun auðveldara fyrir mig, en erfitt að koma við inni í miðju blómabeði). En mér finnast svona bjartar og litríkar blómamyndir svolítið góðar fyrir sálina og gaman að sjá hvernig plönturnar líta út svona "up close".
Talandi um myndir þá er enn ein ljósmyndasýningin á döfinni hjá ljósmyndaklúbbnum mínum. Þetta fer nú eiginlega að verða svolítið fyndið því ég hafði aldrei prentað út mynd eftir sjálfa mig fyrr en þessar sýningar byrjuðu. Í þetta sinn er málið reyndar pínu flóknara en áður því sýninging er hluti af
stærra verkefni. Myndirnar eiga á einhvern hátt að tengjast rótum okkar eða uppruna en við megum ráða því á hvern hátt við nálgumst efnið. Ég er búin að vera pínu stressuð yfir þessu af því ég var engan veginn að sjá af hverju ég gæti tekið myndir.
En lausnin verður líklega sú að finna einhvern hlut sem tengist t.d. mömmu eða ömmu á einhvern hátt og taka mynd af hlutnum. Ég gerði smá prufu í gær en þá fór Valur með mig í Gudmanns minde (fyrsta sjúkrahús á Akureyri sem hefur nú verið gert upp eftir kúnstarinnar reglum) og þar tók ég myndir af gamalli könnu sem amma notaði til að vökva blómin sín þegar hún bjó hérna hjá okkur. Svona eftirá að hyggja hefði kannski verið snjallt að vera líka með blóm á myndinni s.s. Iðnu Lísu (sem mig minnir að hafi verið í glugganum hjá ömmu) eða öðru fjólubláu gamaldags blómi sem ég man ekki hvað heitir og sést sjaldan núorðið. En æ, ég veit sem sagt ekki alveg ennþá hvernig ég ætla að "tækla" þetta verkefni. Finnst samt einhvern veginn að ég verði að taka þátt í þessari sýningu þar sem ég er á annað borð í þessum ljósmyndaklúbbi.
En já, hér kemur svo mynd af Ísaki sem var að útskrifast úr grunnskóla í síðustu viku. Myndgæðin eru ekki alveg nógu góð og þá sérstaklega birtan og litirnir, en það var orðið frekar framorðið þegar myndin var tekin og lágskýjað.
Nú eigum við engin börn í grunnskóla lengur, sem er pínu skrítið.