föstudagur, 10. september 2010

Varúð vælubíllinn!!


Sum nýyrði í íslensku eru nú eiginlega frekar skondin, eins og þetta að nota orðið, "vælubíll" þegar einhver er að kvarta. En já ég er sem sagt aðeins að kvarta núna. Skal samt reyna að koma með eitthvað jákvætt líka til mótvægis.
Neikvætt:
- Er aftur komin með verki í millirifjasvæðið hægra megin og ferlega svekkt með það. Í morgun fór ég í sund eftir að hafa sleppt því í tvo daga. Hélt að það væri kannski óhætt ef ég myndi taka með mér blöðkur og nota aðallega fæturnar. En viti menn það sem ég græddi á því að nota blöðkur voru verkir neðst í spjaldhrygginn hægra megin. Þannig að nú er hægri hliðin meira og minna öll undirlögð.
- Ég er svo hræðilega stífluð í nefinu / nefholunum, án þess þó að vera kvefuð.
- Ég er svooo þreytt og búin að vera í allan dag. Við erum að tala um svona þreytu þar sem ég get varla hugsað mér að fara í vinnuna því bara tilhugsunin að þurfa að standa í lappirnar veldur mér kvíða. Enda var ég fljót að henda mér uppí rúm þegar heim var komið.
-Dett í kvíðakast yfir mínu heilsufarsástandi - og það er ekki til að bæta ástandið.

Jákvætt:
+ Valur dreif sig í ljósmyndaferð að Dettifossi í dag, þó að ég væri að vinna og kæmist ekki með honum. Sem er frábært.
+ Valur málaði útihurðina í vikunni og einnig útihurðina niðri. Svo er hann byrjaður að mála kassann utan af gasinu, svo nú er að verða búið að mála allt sem hægt er að mála hér utanhúss.
+ Ég er að spá í að fara á kóræfingu á sunnudaginn hjá Kvennakór Akureyrar - ef ég koksa ekki á því... Mig hefur lengi langað í kór, tja eða bara að syngja öllu heldur og þá er kór víst leiðin til þess. Vona bara að þessi nefstífla mín verði skárri. Já og svo veit ég reyndar ekkert hvernig þetta fer fram ef ný kona vill byrja í kórnum. Hvort það er einhvers konar inntökupróf eða?
+ Ég er búin að mæla mér mót við Hafdísi og Bryndísi vinkonur mínar í þarnæstu viku. Við ætlum að hittast í hádegi og spjalla saman. Þegar ég hugsa um það væri náttúrulega gáfulegra að hittast að kvöldi til svo við getum spjallað almennilega saman án þess að hafa áhyggjur af klukkunni, en það verður bara síðar.
+ Ég er búin að panta miða fyrir fjölskylduna í leikhús þann 6. nóvember, að sjá Rocky horror, í Hofi. Það verður örugglega gaman.

Jamm og jæja, svo mörg voru þau orð. Vælubíllinn kveður að sinni.

2 ummæli:

Fríða sagði...

Jaaá! Komdu í kórinn! Það er raddprufa í byrjun, bara svona til að Daníel viti í hvaða rödd maður er. Kannski öruggast að heyra í Snæfríði formanni fyrst svo fólk viti að það er von á þér. Þú finnur þær upplýsingar sem þú þarft á kvak.is. Sjáumst bara á morgun :)

Guðný Pálína sagði...

Takk fyrir það Fríða :) Ég er reyndar ennþá með "díbblað" nef og einhverra hluta pínu stressuð fyrir þessu, en ætli ég reyni ekki að vinna bug á fælninni og mæta á staðinn ;)