Ég ætlaði reyndar að leggja mig aftur í morgun þegar Ísak var farinn í skólann, en gat heldur ekki sofnað þá. Það hafði nú eitthvað með þá staðreynd að gera að mér var svo kalt á fótunum. Það er greinilega kominn tími til að taka fram vetrarsængina og hitateppið mitt. Já svo þarf ég að prjóna á mig nýja ullarsokka, eða prjóna nýtt neðan á þessa rauðu sem eru orðnir götóttir.
Svo er líka kominn tími til að taka til í fataskápnum. Setja sumarfötin í geymslu og taka vetrarfötin fram. Mér finnst ágætt að skipta þessu svona gróflega, þó svo að auðvitað gangi megnið af fötunum allt árið um kring. Enda búum við nú á Íslandi þar sem ætíð er allra veðra von.
Ég var eiginlega með tvö verkefni í huganum sem ég ætlaði að ljúka áður en ég færi í vinnuna. Að taka til í fataskápnum og baka kryddbrauð. Það var nú bara einhver della sem ég fékk í höfuðið og satt best að segja er ég varla að nenna að baka núna. Þannig að það er spurning hvernig það endar. Svo er náttúrulega þetta klassíska, að taka úr uppþvottavélinni, þvo þvott o.s.frv. Æ já og svo þyrfti ég endilega að komast út í smá labbitúr. Fór ekkert í sund í morgun. Þannig að það er best að hætta þessu rausi og standa upp frá tölvunni...
2 ummæli:
En hvað ÉG er glöð að þú skulir hafa drifið þig í kórinn. Mér finnst einmitt kórsöngur vera einhverskonar "djúpnæring fyrir andann" ;-) Kær kveðja frá Önnu systur
Ég held að það sé bara alveg rétt hjá þér systir mín góð :)
Skrifa ummæli