fimmtudagur, 9. september 2010

Já já, annað hvort í ökkla eða eyra

eins og venjulega hjá mér. Nú blogga ég án afláts í einhverja daga - spurning hvað það endist lengi. En Hrefna mín hlýtur að vera glöð með það, hún hefur þá eitthvað að gera frá kl. 18 á kvöldin... Þannig er mál með vexti að þær stöllur verða að vera komnar í hús fyrir myrkur og eiga ekki að vera úti eftir kl. 18. Þá eru þær sem sagt bara tvær og verða að hafa ofan af fyrir sér í húsi þar sem rafmagnið er alltaf að detta út. Já það er áskorun, ekki er hægt að segja annað.

En svo ég segi nú strax eitthvað jákvætt þá er ég betri af þessari millirifjagigt - og er þakklát fyrir það. Í staðinn er bara ógurleg leti/þreyta að hrjá mig. Ég byrja ekki að vinna fyrr en kl. 14 í dag og finnst tíminn ótrúlega lengi að líða núna, þó vissulega gæti ég haft ýmislegt fyrir stafni. Ég fór ekki í sund í morgun af því ég vildi hvíla handlegginn/síðuna betur og þá fékk ég heldur ekki hressandi áhrifin af því að byrja daginn á sundferð.

Fyrst las ég aðeins blöðin, svo lagði ég mig aftur, fór á fætur aftur og kláraði að lesa blöðin á meðan ég borðaði morgunmat. Prófaði að borða lífrænt skyr og er spennt að sjá hvernig það fer í mig. Þetta venjulega verður nefnilega eins og steinn í maganum á mér. Já, og svo sit ég bara hér... Þyrfti að koma mér í sturtu og jafnvel setja í eina þvottavél, taka úr uppþvottavélinni og helst koma mér út að ganga eða hjóla. Hm, mér sýnist ég bara vera komin með ágætis áætlun, best að framfylgja henni ;-)

2 ummæli:

Guðný Pálína sagði...

Jæja þá er svarið komið við því hvort ég þoli lífrænt skyr... Er byrjuð að ropa og ropa - svo niðurstaðan er neikvæð :(

Nafnlaus sagði...

Já ég er glöð með það :)
Og það er búið að vera rafmagn í allt kvöld - 7,9,13 ;) Og netið líka til friðs.
Svo er bara langt helgarfrí vegna einhvers frídags á morgun.
Knús